Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 23:43:56 (32)

1995-10-04 23:43:56# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Á nýafstaðinni kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking bar að til tíðinda að í pontu steig prinsinn af Svasílandi. Hann var þannig búinn að um mitti sér hafði hann bundið dúk svo klauf myndaðist á hliðinni. Á efri hluta líkamans bar hann annan dúk, skrautlegan mjög, þannig að hann lagðist yfir aðra öxlina. Að öðru leyti var maðurinn nakinn nema hvað hann hafði tyllt einni fjöður á höfuð sér. Vopn sín hafði hann skilið eftir heima.

Kuflum klæddar múslimakonurnar frá Íran, sem sátu rétt hjá mér, grúfðu sig yfir borðin til að komast hjá því að horfa á þetta birtingarform karlmennskunnar, enda nánast um dauðasynd að ræða samkvæmt Kóraninum. Við vestrænu konurnar glenntum upp augun enda maðurinn hinn gjörvulegasti. Prinsinn sem ku eiga fjórar konur talaði fagurlega um mömmu sína og ömmu, um nauðsyn þess að búa litlu stúlkunum betri framtíð og þörfina á því að auka hlut kvenna í stjórnkerfinu, jafnt í ríkisstjórn sem sveitarstjórnum. Þetta var hjartnæm ræða en eftir að hafa hlustað á umræður um fátækt kvenna í Afríku, barna- og mæðradauða, útbreiðslu alnæmis meðal ungra stúlkna, algert réttleysi afrískra kvenna hvað varðar arf, eignir og börn og viljaleysi stjórnvalda til að taka á málum varð ég sannfærð um að ræða prinsins af Svasílandi væri innantómur fagurgali fluttur á hátíðarstundu.

Herra forseti. Myndin af prinsinum kom upp í huga mér við lestur stefnuræðu hæstv. forsrh. því að ekki fæ ég betur séð en að ríkisstjórnin gangi um hálfnakin og stefnulaus, kyrjandi sinn fagurgala um efnahagsbata og að allt sé á réttri leið í anda Sjálfstfl. Það er nefnilega ekki sama hvert horft er og hvað er skoðað eða hvort sá sem hlustar tilheyrir þeim sem njóta batans eða hinum sem finna ójöfnuðinn brenna á sér og finnst að aldrei hafi verið meiri þörf á að stokka upp spilin og gefa upp á nýtt. Það stendur ekki til ef marka má stefnuræðuna. Gott ef blikur eru ekki á lofti í framkvæmdum og atvinnumálum svo ekki sé minnst á tryggingakerfið þar sem ekkjur og sjúklingar liggja vel við höggi rétt einu sinni.

Stefna ríkisstjórnar á ekki að snúast um það eitt að reka ríkissjóð með eða án halla. Stefna ríkisstjórnar á að snúast um líf fólksins í landinu, almannahag, það að skapa þegnunum góðar aðstæður jafnt í einkalífi sem atvinnulífi og búa vel að atvinnuvegunum. Stefna ríkisstjórnar á að snúast um það að horfa til framtíðar og hún á að ákveða hvert skuli halda, að sjálfsögðu í góðri sátt við umbjóðendur sína. En í stefnuræðu kvöldsins er ekkert horft á hin alvarlegu vandamál mannlífsins á Íslandi, þau sem munu hafa afgerandi áhrif á þróun og framtíð okkar. Það var engin tilraun gerð til að greina stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Það var ekki skilgreint hver eru mikilvægustu viðfangsefni samfélags okkar. Enn einu sinni er staldrað við hallann á ríkissjóði, vexti og vísitölur, kaupmátt og niðurskurð. Ekki svo að skilja að þau atriði í þjóðarbúskapnum skipti ekki máli. En stóru spurningarnar eru margar sem bíða svars. Hvaða stöðu eigum við að taka okkur í samvinnu við aðrar þjóðir í heimi sem breytist hratt? Um margt er staða okkar óljós.

Norræn samvinna sem hefur verið okkur gífurlega mikilvæg er að breytast og mun eflaust minnka. Mér þótti eins og fleirum athyglisvert að fylgjast með því á kvennaráðstefnunni í Kína hvernig staða þeirra Norðurlanda sem nú eru komin inn í Evrópusambandið hefur breyst. Allt í einu er rödd Svíþjóðar þögnuð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. En Svíar hafa um árabil beitt sér mjög í alþjóðaumræðu. Nú talar sú þjóð sem fer með formennsku í ráðherraráðinu fyrr hönd allra aðildarríkjanna. Norðmenn gátu hins vegar beitt sér verulega og munaði mjög um þá rödd.

Ég er sannfærð um að á næstu árum verður tekist á um aðild Íslands að Evrópusambandinu og við eigum að fara í gegnum þá umræðu málefnalega en gagnrýnið. Ekkert hefur breytt þeirri skoðun minni að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins og að stóra spurningin sé sú í hvers konar samfélagi við viljum lifa og hvort við viljum sjálf ráða okkar för eða gangast undir ólýðræðislegt tilskipunarveldi karlanna í Brussel. Svo réttlætis sé gætt vil ég þó geta þess að Evrópusambandð stóð sig vel í þeirri styrjöld hugmyndanna sem háð var á kvennaráðstefnunni í Peking milli múslimaríkjanna og Vatíkansins í Róm annars vegar og þjóða Vestur-Evrópu, Ástralíu, Nýja-Sjálands og Norður-Ameríku hins vegar. Þeirri styrjöld er þó engan veginn lokið og ég hygg að fátt muni ráða meiru um framtíð mannkynsins hér á jörð en það hvaða sjónarmið ráða för varðandi mannréttindi, þjóðfélagsskipan og skiptingu lífsgæðanna þegar við höldum af stað inn í nýja öld.

Ég minntist áðan á hin alvarlegu vandamál sem við stöndum frammi fyrir og þær stóru spurningar sem við þurfum að svara. Hvernig ætlum við að skapa því fólki vinnu sem mun streyma út á vinnumarkaðinn á næstu árum? Hvernig ætlum við að vinna bug á atvinnuleysinu? Hvernig ætlum við að stöðva þann fólks- og atgervisflótta sem greinilega er hafinn frá landinu? Hvernig ætlum við að reka gott velferðarkerfi sem kallar á æ meira fjármagn þannig að það þjóni þeim sem þurfa aðstoðar við? Þessum spurningum er ekki auðsvarað, en það þarf skipulagningu, áætlunargerð, nýjar hugmyndir og áherslur, t.d. í málefnum atvinnulausra, í þá veru að borga fólki fyrir að mennta sig, skapa og reyna nýjungar í stað þess að borga því fyrir að gera ekki neitt. Það þarf að styðja þá með lánum og styrkjum sem eru að leita fyrir sér í rekstri lítilla fyrirtækja og enn einu sinni minni ég á að í löndum Evrópu og Ameríku hafa konur verið leiðandi við stofnun nýrra fyrirtækja.

Herra forseti. Í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um kjör þingmanna er mér ofarlega í huga sú atvinnu- og launastefna sem hér ríkir, bæði af hálfu ríkisins og atvinnulífsins. Sú stefna er ekki í neinu samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Umræðan að undanförnu sýnir og sannar að uppstokkunar er þörf. Íslenskur vinnumarkaður einkennist af löngum vinnudegi, lítilli framleiðni, lágum grunnlaunum, launamisrétti sem einkum bitnar á konum, sífelldum vinnudeilum og nánast alræðisstjórn karla. Það er eitthvað mikið að og ef svo heldur fram sem horfir munu æ fleiri Íslendingar leita betri lífskjara erlendis og þeir sem verið hafa í námi í öðrum löndum snúa ekki heim. Lausnirnar eru til. Þær felast í bættri menntun fólks, breyttu hugarfari, nýjum stjórnunarháttum og bættum vinnubrögðum.

Íslenskir atvinnurekendur ættu að vera leiðandi afl í þróun vinnumarkaðarins með starfsfólki sínu, enda þeim í hag eins og samfélaginu öllu að bæta starfsanda og kjör. Atvinnurekendur ættu að bjóða upp á menntun, m.a. til að auka framleiðni, endurskoða vinnutímann, skapa sveigjanleika, bæta stjórnunarstíl sinn, tengja saman fjölskyldu- og atvinnulíf og nýta þá vannýttu auðlind sem er að finna í krafti, hugviti og menntun kvenna. Alþjóðabankinn hefur nýlega bent á að ekkert ríki sem vill þróast í átt til betri lífskjara megi láta hjá líða að beina fjármagni til kvenna í mun ríkara mæli en hingað til vegna þess að reynslan sýnir að það skilar sér margfalt til samfélagsins alls. En það er nú eitthvað annað en að íslensk stjórnvöld og atvinnurekendur séu að feta sig eftir nýjum brautum. Íslenskir atvinnurekendur leggjast hart gegn breytingum af nánast hvaða tagi sem er, samanber tilskipanir Evrópusambandsins um vinnutíma. Rannsóknir hafa leitt í ljós að íslenskir atvinnurekendur hafa lítinn sem engan áhuga á menntun starfsfólks síns og finnst ekki að góð menntun og árangur í námi skipti máli þegar fólk er ráðið til starfa. Íslenskir atvinnurekendur þverbrjóta jafnréttislögin og komast upp með það. Þarna er á ferð hugarfar einhvers staðar aftan úr öldum sem stendur samfélaginu fyrir þrifum. Ég spyr hvort íslenskt atvinnulíf ætli að verða eftir á 19. öldinni þegar við hin höldum inn í 21. öldina.

Verkalýðshreyfingin hefur ekki heldur staðið sig sem skyldi. Á þeim bæ ríkir sama karlaveldið sem annars staðar sem horfir þögult á launamisrétti kynjanna og semur endalaust um steypuvinnu og brúarsmíði fyrir karlana til að draga úr atvinnuleysinu en gleymir konunum sem eru þó um helmingur félagsmanna og meiri hluti hinna atviunnulausu. Verkalýðshreyfingin skynjar svo sannarlega reiði, erfiðleika og vonbrigði félagsmanna sinna sem horfa á aðra bera mun meira úr býtum, en þeirri reiði þarf að beina í farveg umbóta, réttlætis og jafnréttis í stað þess að ráðast eingöngu á Alþingi sem gerði áratuga gömul starfskjör alþingismanna sýnileg í lögum, lagði niður eina skattlausa greiðslu og tók upp aðra. Það er m.a. það sem ekki má eins og sannaðist vorið 1992 þegar Kjaradómur gerði tilraun til að gera launakjör æðstu embættismanna ríkisins sýnileg, lækkaði suma og hækkaði aðra, en sú breyting var kveðin niður með útifundum og bráðabirgðalögum svo feluleikurinn gæti haldið áfram. Það getur tæplega verið stefna íslenskrar verkalýðshreyfingar að viðhalda launakerfi sem byggist upp á duldum greiðslum, sporslum til karla, leynisamningum, lágu grunnkaupi og misrétti sem fyrst og fremst bitnar á konum. Eigum við ekki að fá alla þætti málsins upp á borðið, horfast í augu við staðreyndirnar, skoða hver eru hin raunverulegu laun í landinu, fyrir hvað er borgað og hverjum og stokka upp launakerfið. Hverjir hafa hag af því að viðhalda óbreyttu ástandi? Er það ríkisvaldið? Eru það vinnuveitendur? Eru það ákveðnir hópar launafólks? Er það verkalýðsforustan? Svo mikið er víst að það er ekki þeim konum í hag sem fylla hópa hinna lægst launuðu.

Herra forseti. Nú hefur það gerst að við íslenskar konur höfum fengið nýtt verkfæri í hendur í baráttu okkar fyrir kvenfrelsi og bættum hag. Það tæki er framkvæmdaáætlun Sameinuðu þjóðanna í málefnum kvenna sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að framfylgja. Þegar staða íslenskra kvenna er borin saman við það sem gerist meðal annarra þjóða kemur í ljós að hvergi í heiminum er formleg staða kvenna betri. Við búum við lagalegt jafnrétti á flestum sviðum og er boðið upp á þá menntun og heilsugæslu sem aðrir verða að láta sér nægja að dreyma um. En þegar betur er að gáð kemur í ljós að víða er pottur brotinn. Hlutfall kvenna á þingi og í sveitarstjórnum er mun lægra hér en á hinum Norðurlöndunum. Launamisréttið er mikið og meira en gerist meðal þeirra þjóða sem við berum okkur saman við, enda flokkað sem mannréttindabrot hjá Sameinuðu þjóðunum. Karlstýring vinnumarkaðar og verkalýðshreyfingar er yfirþyrmandi og fátt um konur í þeim stofnunum sem stýra út- og innstreymi fjármagns. Íslenskar konur búa við heimilis- og götuofbeldi og því miður er afstaðan til mannréttinda stúlkubarna ekki alltaf til fyrirmyndar, t.d. þegar kynferðislegt ofbeldi og misnotkun eiga í hlut. Flest af þessu má bæta með breyttu hugarfari, upplýsingum, umræðum, menntun og reyndar lagabreytingum á ýmsum sviðum.

Nú þegar nokkrir dagar eru þangað til íslenskar konur minnast þess að 20 ár verða liðin frá víðtækustu vinnustöðvun kvenna sem um getur, jafnt inni á heimilum sem úti í samfélaginu, er tækifæri til að kynna framkvæmdaáætlun Sameinuðu þjóðanna og strengja þess heit að Ísland verði raunverulega í fyrsta sæti þeirra þjóða sem tryggja konum jafnan rétt og jafna stöðu á við karla. Nú reynir á okkur konur að fylgja áætluninni eftir og stjórnvöld að standa við fögru orðin, ef ríkisstjórnin ætlar ekki að haga sér eins og prinsinn af Svasílandi, standa hálfnakinn frammi fyrir þjóðinni með sína einu konu og láta frá sér fara innantómt kurteisishjal sem ekkert mark er á takandi.

Í lokaræðu sinni á kvennaráðstefnunni í Peking sagðist Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, bera þá von í brjósti að við sem nú teljumst til stjórnvalda stæðum okkur svo vel í að bæta heiminn og að tryggja góða framtíð bæði drengja og stúlkna að við verðskulduðum þá ótakmörkuðu tiltrú og traust sem skín úr augum nýfæddra barna. Undir þau orð vil ég taka. Einnig hér er verk að vinna. Tími orðanna er liðinn, tími aðgerðanna er runninn upp. --- Góða nótt.