Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 11:43:14 (44)

1995-10-05 11:43:14# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það hárrétt hjá prófessor Sigurði að það er æskilegt að lög séu sem stöðugust. Það er æskilegt fyrir almenning. En við tökum nú öll þátt í því og það hefur hv. þm. einnig gert á hverju einasta hausti að segja við almenning í landinu: Þrátt fyrir það, við notum það orðalag, að þessi lög segi þetta, þessi lög segi þetta og svo teljum við upp ein 30--40 lög. Þrátt fyrir það að þau segi þetta og þrátt fyrir það hefði mátt búast við að fá þessa og hina peningana samkvæmt þessum lögum, þá ætlum við að gera þetta með þessum tiltekna hætti. Hvað hefur hv. þm. oft tekið þátt í því? Jafnoft og ég þannig að hann er ekkert heilagri maður í þeim efnum en ég.

Ekkert er óeðlilegt við það og það gerist jafnan þegar frumvörp eru til meðferðar í þinginu að hagsmunaaðilar hefji undirbúning, lagi sig að því og trúi því að þau frumvörp nái fram að ganga ef meiri hlutinn hefur kynnt sér það og þeir byrja að laga sig að því. Þeir eiga út af fyrir sig engan rétt vegna þess. Það var afar þýðingarmikið fyrst við létum undan háværum minni hluta um að láta ekki vilja meiri hlutans ná fram að ganga hér sl. vor, að við segðum þeim sem hagsmuna kynnu að hafa að gæta að við mundum afgreiða þetta næsta haust til þess að menn mundu ekki búa við falskar væntingar og falskan rétt.

Hv. þm. spyr um efni máls. Hann talar um lög. Hér er til umræðu þetta frv. Það er ekki um efni máls. Það er um tímasetningu og hv. þm. á þá að ræða um efni frv. sem er um tímasetningu en ekki um efni máls og ekki hefur verið gefið til kynna varðandi þetta frv. um annað en það snúist um þessa tímasetningu og hún var tilkynnt. Allir aðilar hvorum megin borðsins sem þeir kynnu að hafa staðið vissu að það var áform meiri hluta þingsins sem búið var að kjósa --- að voru ekki kosningar eftir --- stjórnar sem búið var að mynda, að þessu yrði frestað til 1. júlí 1996. Þeir höfðu því um það nokkuð örugga vissu að það yrði gert þrátt fyrir að lagabókstafurinn stæði til hins og hann mundi auðvitað þetta standa ef honum yrði ekki breytt. Þess vegna var eðlilegt að vara þingheim og þjóð við. Það hefur verið gert og hæstv. heilbrh. er að vinna nákvæmlega að málinu með þeim hætti sem hann á að gera.