Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 16:53:36 (109)

1995-10-06 16:53:36# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÁÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Ásta B. Þorsteinsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vissulega hefði ég áhuga á því að búið sé vel að fötluðum á Íslandi. En ég lít jafnframt á það sem mikilvægt samfélagslegt mál sem á ekki að vera bundið persónulegum áhuga einstaklinga heldur á það að vera viðfangsefni stjórnmálanna á hverjum tíma, líka á hinu háa Alþingi. Ég verð að endurtaka það aftur og aftur ef með þarf að fjárlagafrv. er slík huldubók að það er bara ekki hægt að lesa þessi framlög úr því frv. sem hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. gefa til kynna að verði veitt til málaflokksins.

Til dæmis er hvergi brugðið á það tölum í fjárlagafrv. fyrir 1996 með hvaða hætti og hvar á að taka tekjur til fjármögnunar á 40% framlagi sem heimilt er að taka til reksturs úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Þær tölur eru hvergi reiknaðar inn í fjárlagafrv. fyrir næsta ár þannig að ég leyfi mér að gefa mér það að það fjármagn eigi að taka úr Framkvæmdasjóði fatlaðra og þar með að skerða framlög til hans til nýframkvæmda. Þegar allar tölur eru lagðar saman og dregnar frá standa eftir 77 millj. kr. til nýframkvæmda á næsta ári.