Athugasemd við 53. gr. þingskapa

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 15:07:07 (115)

1995-10-09 15:07:07# 120. lþ. 5.95 fundur 29#B athugasemd við 53. gr. þingskapa#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Áður en gengið er til dagskrár vill forseti segja þetta við hv. alþm.:

Í 53. gr. þingskapalaga segir svo:

,,Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina.``

Sl. föstudag hófst þingfundur kl. 10.30 eins og venja er um þingfundi á föstudögum. Þingfundurinn var kynntur í starfsáætlun Alþingis og um hann mátti öllum hv. þm. vera kunnugt. 13 hv. alþingismenn boðuðu forföll þennan dag með venjubundnum hætti, þ.e. létu skrifstofuna vita um forföll sín. Eigi að síður var ekki unnt að halda atkvæðagreiðslu um fyrsta dagskrármálið á fundinum því að einungis um 25 þingmenn voru við upphaf fundarins.

Forseti finnur að því að þingmenn ræki ekki fundarskyldu sína. Forseti hefur þó á því góðan skilning að þingmenn þurfi að sinna brýnum erindum annars staðar en þá ber þeim jafnframt að tilkynna um slíkt.

Þingmönnum til hagræðis hefur komist á sú venja hér í störfum Alþingis að safna atkvæðagreiðslum saman og láta þær fara fram í upphafi þingfundar, alla jafna. En þegar ekki er heldur hægt að láta atkvæðagreiðslu fara fram á þeim tíma verður að minna á skyldur þingmanna í þessu efni. Forseti væntir þess að hér verði breyting á.