Útvarpslög

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 16:38:36 (135)

1995-10-09 16:38:36# 120. lþ. 5.3 fundur 3. mál: #A útvarpslög# (Menningarsjóður útvarpsstöðva) frv., LG
[prenta uppsett í dálka]

Lilja Á. Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Menningarsjóður útvarpsstöðva er til umræðu hér, þ.e. afnám hans. Þetta hljómar eins og hrópandi mótsögn því eins og við vitum flest sem notum íslenska fjölmiðla þá er ekki um auðugan garð að gresja varðandi íslenskt menningarefni í dagskrám fjölmiðla hér á landi. Hlutverk íslenskra fjölmiðla hlýtur að vera m.a. að veita mótvægi gegn þeim flaumi erlends dagskrárefnis sem flýtur hér út á öldum ljósvakans. Kjarni málsins hlýtur því að vera sá að það þarf að efla innlenda dagskrárgerð og Menningarsjóður útvarpsstöðva á auðvitað fullan rétt á sér út frá því sjónarmiði. Hins vegar hefur reynslan sýnt að sjóðurinn í sinni núverandi mynd hefur ekki gegnt því hlutverki sem til var ætlast við stofnun hans. Í sjóðinn hafa útvarpsstöðvar greitt 10% gjald sem leggst ofan á auglýsingatekjur þeirra. En eins og flestir vita þá þurfa útvarpsstöðvarnar auðvitað á öllum tekjum sínum að halda til dagskrárgerðar.

Í ljósi þessa og einnig þess að ég geri ráð fyrir, þar er ég bjartsýnni en hv. þm. Svavar Gestsson, að það hljóti að verða séð til þess að sinfóníuhljómsveitin komist á fjárlög eða fái tekjur til að halda starfsemi sinni áfram, þá styð ég frv. hv. 18. þm. Reykv.