Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 13:56:10 (143)

1995-10-10 13:56:10# 120. lþ. 6.4 fundur 10. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hér er um tvíþætt mál að ræða. Annars vegar lögð fram tillaga að breytingu sem stuðlar að því að jafna rétt launafólks hér á landi til launa í veikindaforföllum og hins vegar er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um rétt tiltekins hóps manna, þ.e. heilbrigðra líffæragjafa, og þeim veittur lagalegur réttur til launa sem um veikindaforföll væri að ræða.

Nái þetta frv. fram að ganga þá leiðir af því grundvallarbreytingu á lögunum nr. 19/1979, um rétt launafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Gildandi lög byggja á því grundvallarsjónarmiði að atvinnurekendum er skylt að greiða veikindalaun ef starfsmaður verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss. Óvinnufærni launamanns er þannig á áhættu atvinnurekenda. Það er grundvallaratriði laganna að launamaður eigi ekki að geta gert sig óvinnufæran og þannig bakað atvinnurekanda sínum útgjöld. Í umsögnum um þetta frv. þegar það var lagt í fyrra sinn, kemur það fram að nái breytingin fram að ganga þá verði skilyrðið um óvinnufærni í raun fellt út úr lögunum. Af þessu mun leiða að launafólk sem hefur fulla starfsgetu mun geta gert kröfu til veikindalauna. Starfsmaður mun aðeins þurfa að fá upp á það skrifað hjá lækni sínum að aðgerðin sé óhjákvæmileg eða meðferðin sé nauðsynleg, án tillits til þess hvort hann er óvinnufær eða ekki.

Á það hefur verið bent að með frv. er verið að bjóða upp á enn fleiri ágreiningsmál um túlkun en verið hafa og hætta er á því að það leiði til óþarfa ágreinings á milli starfsmanna og stjórnenda þegar gera þarf grein fyrir því að viðkomandi uppfylli skilyrði um að fá að vera heima á launum.

Það eru ýmsar hliðar á þessu máli. Í grg. með frv. er ekkert fjallað um greiðslur atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði í sjúkrasjóði, sbr. 7. gr. gildandi laga. Atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði greiða bæði veikindalaun beint til starfsmanna sinna þegar þeir eru óvinnufærir af völdum sjúkdóma eða meiðsla og að auki 1% af útborguðum launum í sjúkrasjóði stéttarfélags. Starfsmenn eiga því rétt á að fá greiðslur úr sjúkrasjóði þegar veikindalaunarétturinn hefur verið fullnýttur og þegar um er að ræða tilvik sem veita rétt til veikindalauna. Samkvæmt áætlunum hefur umtalsvert fé safnast í sjúkrasjóði stéttarfélaga og er talið að í þeim séu u.þ.b. 1,5 milljarðar.

Annað atriði sem samtök atvinnurekenda hafa bent á sem rök gegn frv. er stærð íslenskra fyrirtækja. Íslensk fyrirtæki eru flest mjög lítil og greiðslur af því tagi sem hér um ræðir geta orðið þeim þungbærar. Breytingin gæti því enn fremur stuðlað að því að atvinnurekendur leituðu leiða til að komast hjá greiðslum, t.d. með því að knýja launafólk til gerviverktöku. Og það kemur þeim verst sem síst skyldi.

Að mínu mati gildir það sama um þetta málefni og mörg önnur sem snerta samskipti aðila á vinnumarkaði. Það er æskilegast að samtök atvinnurekenda og launafólks semji um sem flesta þætti er snerta kaup og kjör. Samtök atvinnurekenda hafa lýst vilja sínum í að taka upp samningaviðræður um veikindarétt starfsmanna og mér finnst rétt að láta á það reyna hvort ekki tekst að ná viðunandi samningum þar um sem báðir aðilar geti sætt sig við fremur en Alþingi blandi sér í málið með lagasetningu. Ég legg afar mikið upp úr því, herra forseti, að samskipti á vinnumarkaði séu sem greiðust og best og að menn reyni að koma sér saman um hlutina ef þess er nokkur kostur fremur en að beita lagasetningarleiðinni til þess að knýja vilja eða óskir annars aðilans fram á kostnað hins.

Herra forseti. Ég vil að fram komi að ég tel heppilegra að reyna að semja um þetta atriði og vita hvort þar næst ekki niðurstaða sem báðir aðilar eða allir aðilar geta þokkalega unað við og sé réttlát í framkvæmd fremur en að fara í lagasetningu.