Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 14:36:01 (154)

1995-10-10 14:36:01# 120. lþ. 6.4 fundur 10. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# frv., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra er kannski farinn að átta sig á því að hann hafi lagt helst til mikið inn í þetta mál í upphafsræðu sinni og er nú í síðari ræðu að reyna að draga í land og gerast hinn föðurlegi aðili sem ætlar að tryggja hið endanlega réttlæti ef aðilar vinnumarkaðarins geta ekki komið sér saman. Það er sá svipur sem hann vill nú hafa á máli sínu. Ég virði það út af fyrir sig hæstv. ráðherra til betri vegar að hann skuli þó reyna að draga með vissum hætti í land frá sinni fyrri eindregnu afstöðu þar sem hann lagði öll sín lóð á atvinnurekendavogarskálina í þessu máli. Nú gerir hann mikið úr því að einn vel verki farinn starfsmaður hans ráðuneytis sé að störfum í nefnd og muni leitast við að tryggja hið endanlega réttlæti í þessum efnum. Við eigum að bíða eftir því.

Ég, virðulegur forseti, hef mikla trú á góðum embættismönnum. En ég held að meira skipti þó að þeir sem eiga að ráða ferðinni séu rétt þenkjandi og hlaupi ekki inn í mál með þeim hætti sem hæstv. félmrh. gerði hér í fyrri ræðu sinni varðandi þetta mál. Ég er því ekki sérlega bjartsýnn eftir síðari ræðu ráðherrans þó hann reyndi að breiða yfir orðin frá hinni fyrri.