Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 16:14:29 (170)

1995-10-10 16:14:29# 120. lþ. 6.10 fundur 32. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka síðasta ræðumanni og einmitt undirstrika það að ég er sammála að langmestu leyti þeirri umfjöllun sem hér kom fram hjá hv. þm. um þessi mál svona almennt séð. Tillagan beinist einnig ekki síður að því að meðferð þessara mála á alþjóðavettvangi almennt verði tekin til endurskoðunar og ég vísa þar til sömu sjónarmiða og hér komu fram í síðustu ræðu að þeirri skoðun vex nú held ég óumdeilanlega fylgi að það samræmist ekki viðurkenndum og samningsbundnum mannúðarsjónarmiðum eins og þau eru túlkuð og skilgreind í dag bæði í mannréttindasáttmála og yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og sambærilegra samninga á evrópskum vettvangi og að beita almennum viðskiptatakmörkunum þar sem fórnarlömbin eru fyrst og fremst þriðju aðilar, ekki þeir sem að frömdu refsiverðan verknað, brutu af sér eða menn eiga sökótt við. Þess vegna ber að gera mjög skýran greinarmun á því hvers eðlis viðkomandi viðskiptatakmarkanir eru. Ég tel til að mynda fullkomlega eðlilegt á meðan að deilur standa við íröksk stjórnvöld um einhverja eftirleiki af Flóastríðinu þá gildi afdráttarlaust og altækt vopnasölubann á Írak enda flest annað sem þeir þurfa á að halda um þessar mundir en að eyða þeim litlu peningum sem lausir eru í landinu í vopnakaup. Reyndar held ég að vopnasölubann og reglur um vopnaviðskipti í heiminum þurfi að taka til gagngerrar endurskoðunar og eitt mesta siðleysið sem viðgengst í þessum efnum sé sú blóðmjólkun á þriðja heiminum sem felst í vopnasölu iðnríkjanna þangað.

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst taka undir að þessi mál þarf að taka til endurskoðunar almennt. Þó að tilefni tillöguflutnings hér sé kannski fyrst og fremst ástand mála í Írak sem er óþolandi er það síður en svo að ekki sé ástæða til þess að skoða þetta víðar. Ég vil að lokum segja, herra forseti, að það er skaði að enginn af talsmönnum hæstv. ríkisstjórnar skuli vera hér til að tjá sig um afstöðu núv. ríkisstjórnar í málinu, ég er ekki viss um að hún hafi komið fram áður því að atkvæðagreiðslur og afstaða Íslands í þessu sambandi mun hafa verið mótuð í tíð fyrri ríkisstjórnar. Nú hafa orðið stjórnarskipti eins og kunnugt er og nýr maður tekinn við embætti sem hæstv. utanrrh. og mér léki satt best að segja hugur á að vita hvort að það er óbreytt staða í þeim efnum að ríkisstjórn Íslands styðji viðskiptabannið á Írak eins og staða mála er þar í dag. Er það svo að ríkisstjórnin og meiri hluti hennar á Alþingi hafi engar efasemdir um að bera pólitíska og siðferðislega ábyrgð á því að standa áfram að viðskiptabanninu? Eða hefur Ísland breytt eitthvað um stefnu, hafa menn tekið það upp að beita sér gegn þessu á alþjóðavettvangi? Sé svo, hefur það að minnsta kosti farið hljótt eins og fleira hefur gert undanfarna mánuði. Ég vona að fyrr en seinna komi eitthvað fram af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um afstöðu hennar í þessum efnum en mikilvægast væri þó að fjalla einfaldlega um þessa tillögu vafningalaust í hv. utanmrn. og afgreiða hana sem allra fyrst þannig að vilji Alþingis mætti koma í ljós og þá verði framganga ríkisstjórnar að sjálfsögðu í samræmi við það fyrr en síðar.