Staða geðverndarmála

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 16:48:36 (175)

1995-10-10 16:48:36# 120. lþ. 6.91 fundur 31#B staða geðverndarmála# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Það er ástæða til þess að þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að vekja máls á málefnum geðsjúkra á hv. Alþingi í dag, á degi geðheilbrigðis og dettur mér ekki annað í hug en hv. þm. gangi gott eitt til með þessari umræðu. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að taka áskorun Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar að undirrita yfirlýsingu þess efnis að 10. okt. skuli verða alþjóðadagur geðheilbrigðis hér á landi. Þessi gjörningur er í mínum huga fyrst og fremst táknrænn og hugsaður til þess að vinna gegn fordómum og viðurkenna geðsjúkdóma sem veikindi.

Aðbúnaður geðsjúkra hefur tekið miklum framförum hér á landi á síðustu 2--3 áratugum. Þó búa geðsjúkir að einhverju leyti við einangrun enn þann dag í dag. Sú meðferð sem þekktist á fyrri hluta aldarinnar í þjóðfélagi okkar er blettur á þjóðfélaginu sem ég ætla ekki að hafa fleiri orð um.

Eins og kom fram í máli hæstv. heilbrrh. er verið að vinna úttekt á vegum heilbr.- og trmrn. ásamt félmrn. á því hvaða afleiðingar það hefur fyrir einstaklinga sem haldnir eru þessum sjúkdómi ef þeir eru útskrifaðir of fljótt af stofnunum. Ég hlýt að vekja athygli á því, ekki síst í tilefni af síðustu ræðu, að þjónusta stofnana ríkisins í ár er fyrst og fremst á ábyrgð fyrrv. ríkisstjórnar þótt hæstv. heilbr.- og trmrh. hafi fengið það erfiða hlutverk að reyna að sníða þjónustu að núgildandi fjárlögum. Þetta segi ég m.a. vegna þess að hér var áðan talað um að flaggað væri rauðum neyðarfánum.