Staða geðverndarmála

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 17:01:17 (180)

1995-10-10 17:01:17# 120. lþ. 6.91 fundur 31#B staða geðverndarmála# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka]

Árni M. Mathiesen:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. málshefjanda, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, fyrir að vekja máls á þessu efni einmitt í dag og ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að sýna málinu þann áhuga að gera þennan dag að alþjóðadegi geðheilbrigði. Ég lýsi því yfir að ég tel að okkur beri skylda til þess að sinna þessum málaflokki af engu síðri kostgæfni en öðrum málaflokkum innan heilbrigðisgeirans. Mér finnst hins vegar leiðinlegt að hv. þm. vilja gera þessa umræðu og þennan málaflokk að einhvers konar pólitísku reiptogi og því miður fer hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir þar fremst í flokki þegar hún talar um það að fyrrv. hæst. ríkisstjórn beri mesta ábyrgð á því hvernig ástandið er í þessum málaflokki.

Ég verð að segja að ég hef á síðustu sex mánuðum sem þessi nýja ríkisstjórn hefur setið ekki orðið var við það að ráðherra hennar flokks í heilbrigðisráðuneytinu hafi gert einhverjar sérstakar ráðstafanir til þess að bæta þar úr. En ég er hins vegar sannfærður um að hæstv. heilbrrh. mun í starfi sínu sinna þessum málaflokki af alveg sömu kostgæfni og öðrum málaflokkum innan heilbrigðisgeirans.