Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 12:10:39 (237)

1995-10-12 12:10:39# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., Fyrirspyrjandi ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ánægður yfir því að fá staðfestingu á því að ég skildi mál hv. þm. rétt. Það sem ég var hins vegar að velta fyrir mér var þetta: Hún segir að það sé vissulega staðreynd að það viðgangist kvennakúgun og ýmislegt miður fagurt innan fjölskyldunnar. Það þurfi hins vegar að uppræta það og hún telur að það sé hægt ef sérhver meðlimur fjölskyldunnar virði annan. Þetta held ég að sé rétt hjá hv. þm. En það var einmitt þessi ályktun sem ég dró á meðan ég hlustaði á hana sem varð mér tilefni þess að ég gat um þennan kafla þingmannsins í ræðu minni. Ég dreg þá ályktun að það sem hún sé að segja sé að það þurfi viðhorfsbreytingu. En ég minnist þess að þegar varaform. Sjálfstfl., hæstv. fjmrh. Friðrik Sófusson, sagði þetta einmitt hér í umræðunum í fyrra, þá réðust a.m.k. sumir hv. þm. Kvennalistans á hann fyrir nákvæmlega þetta. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að styrkja fjölskylduna sem grunneiningu og ekki síst á þeim tímum vaxandi agaleysis og upplausnar sem ég þykist kenna merki um í þjóðfélaginu. Fjölskyldan er í mínum huga eins konar grunnskóli undir lífið. Þar eru mönnum innrættar þær óskráðu siðareglur sem við beitum í okkar daglega samneyti við annað fólk, siðareglur sem grundvallast á hollustu, heilindum og drenglyndi. Það er einmitt þegar það brestur sem við sjáum afleiðingar agaleysisins og upplausnarinnar og það er einmitt þá sem hinar svokölluðu félagslegu erfðir birtast vel, þegar röng viðhorf, röng frá mínum sjónarhóli a.m.k., ná að færast á milli kynslóða, frá foreldri til barns og síðan kannski enn lengra fram í tímann. Það er þetta sem við höfum séð gerast í stórborgum úti í heimi þar sem upplausnsin er orðið gríðarlegt vandamál og e.t.v. mesta þjóðfélagsmeinið.