Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 12:51:37 (246)

1995-10-12 12:51:37# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JónK
[prenta uppsett í dálka]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Þær umræður sem hér fara fram um málefni fjölskyldunnar eru þarfar og ég fagna því að þær eru á málefnalegum nótum sem og sú tillaga sem hér kemur fram. Í henni eru margar þarfar ábendingar varðandi þessi mál. Í þessari umræðu hefur verið rætt um hlutverk ríkisvaldsins í málefnum fjölskyldunnar, hlutverk sveitarfélaga og hlutverk einstaklinga. Ég vildi aðeins víkja að þessu nánar.

Ég velti því fyrir mér hvað ríkisvaldið getur gert í málefnum fjölskyldunnar. Það er að vekja athygli á þessum málum, leiða umræðuna og reyna að skapa þau skilyrði sem nauðsynleg eru til þess að fjölskyldan geti lifað mannsæmandi lífi og gera það sem í valdi ríkisvaldsins stendur til þess. Í samræmi við þetta hefur blandast inn í umræðuna fjárlagafrv. fyrir næsta ár og þáttur þess í málefnum fjölskyldunnar, hvernig það snýr að fjölskyldunum í landinu. Ég vil í þessu sambandi benda á það að í fjárlagafrv. er verið að reyna að horfa til lengri tíma og hefði verið þörf á því fyrr, að horfa til lengri framtíðar og ég er ekki að undanskilja minn flokk og sjálfan mig eða mína samstarfsmenn í því efni. Það hefur oft skort á langtímastefnumörkun. Við erum í fjárlagafrv. að reyna að horfa fram til næstu aldamóta a.m.k. og gera okkur grein fyrir því hvernig málið muni líta út frá þeirra sjónarhorni sem þá eiga að taka við og erfa það efnahagslega umhverfi sem hér er.

Það eru miklar byrðar sem eru lagðar á fjölskyldurnar í landinu ef við þurfum að greiða meiri vexti eftir fjögur ár heldur en við notum í allt menntakerfið í landinu. Það er ljóst að við verjum ekki velferðarkerfið margumtalaða með því og þess vegna tekur fjárlagafrv. á ýmsum málum, mörgum á sársaukafullan hátt í bili, en það er til þess að reyna að skapa lífvænlegt umhverfi í framtíðinni. Það er ekkert gamanmál ef lánskjör Íslendinga út á við verða þannig í framtíðinni að við njótum verri kjara vegna mikillar skuldsetningar. Það kemur við fjölskyldurnar, leggur á þær auknar byrðar, dregur niður lífskjörin. Þetta eru meginlínur varðandi fjárlagafrv. en auðvitað eru mörg, mörg fleiri atriði sem skipta máli þar sem litið er til skemmri tíma.

Hlutverk sveitarfélaga í málefnum fjölskyldunnar er gífurlega mikið og vaxandi og innan tíðar munu sveitarfélögin taka yfir allt grunnskólakerfið í landinu, en grunnskólinn er einmitt vinnustaður barnanna meiri hluta ársins þannig að það skiptir miklu máli hvernig að honum er búið. Það er unnið að því að þessi tilflutningur geti gengið nokkuð þokkalega fyrir sig og það sé bærilega fyrir því séð og það skiptir mjög miklu máli fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Ég sagði áðan að það væri hlutverk ríkisvaldsins að hafa fordæmi, leiða þessa umræðu, sjá um ráðgjafarþjónustuna á þessu sviði. Og það eru mörg atriði, sé ég, í þessari tillögu sem benda fram á veginn í þeim efnum og þessi mál verða vafalaust tekin til umræðu bæði hér á Alþingi, í nefnd og í meðferð félmrn. á málinu, en ég heyri að þar er vinna í gangi að þessum málum.

Ég sagði að þetta fordæmi ríkisvaldsins, þessi umræða í þjóðfélaginu væri mikilvæg einmitt til þess að beina sjónum einstaklinganna að fjölskyldunni þannig að fjölskyldan geti notið öryggis heima fyrir og hver einstaklingur sé þess meðvitaður að búa vel að fjölskyldu sinni. Ég held að það liggi í sál hvers einstaklings að gera það, en það er margt sem truflar á þeirri leið. Það eru breyttar aðstæður, kynslóðirnar búa ekki saman á heimilinu eins og áður var. Það er vík milli vina og langt á milli fjölskyldumeðlima þannig að öryggi stórfjölskyldunnar er ekki fyrir hendi lengur í íslensku þjóðfélagi. Þetta eru breyttar aðstæður sem þarfnast umræðu, þarfnast forustu ríkisvaldsins að leiða þá umræðu og þess vegna er þarft að þessi mál séu tekin fyrir, bæði á Alþingi og á vegum frammkvæmdarvaldsins. Ég vona svo sannarlega að sú vinna sem í gangi er í þessu efni verði árangursrík en ég tel að það sé mjög ófrjó aðferð í þessu efni að hengja sig í einstök atriði fjárlaga líðandi stundar. Við verðum líka að líta yfir lengri tíma í þessu efni og við leysum ekki öll mál í þessu efni með auknum framlögum úr ríkissjóði þó að vissulega væri gott að geta lagt til þessara mála sem mesta peninga.