Ólöglegur innflutningur fíkniefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 14:37:41 (265)

1995-10-12 14:37:41# 120. lþ. 9.6 fundur 62. mál: #A ólöglegur innflutningur fíkniefna# þál., Flm. AK
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Arnþrúður Karlsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 62 um hert viðurlög við innflutningi á fíkniefnum. Auk mín eru flutningsmenn eftirtaldir þingmenn: Valgerður Sverrisdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Ólafur Örn Haraldsson, Stefán Guðmundsson, Magnús Stefánsson og Guðni Ágústsson. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir hertum viðurlögum við ólöglegum innflutningi á fíkniefnum til landsins. Meðal annars verði kannað hvort tilefni sé til að þyngja ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um hámarksrefsingu við broti, úr 10 árum í 16 ár. Jafnframt verði leitað annarra úrræða til þess að stemma stigu við innflutningi á fíkniefnum, svo sem að brotamenn verði undir eftirliti þar til dómur gengur í máli þeirra.``

Hér á landi gildir sú meginregla samkvæmt almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, að engum manni skuli refsað án þess að refsing sé ákveðin í lögum. Því eru skyldur löggjafans miklar í þjóðfélagi sem er stöðugum breytingum undirorpið. Hér á landi hefur sú breyting orðið á að fíkniefnaneysla hefur farið sívaxandi undanfarin ár. Ný og áður óþekkt efni hafa komið fram á sjónarsviðið og aldur neytenda færist neðar og neðar.

Sú hlið vandans sem snýr að innflutningi og dreifingu fíkniefna verður sífellt skipulagðari og erfiðari viðureignar. Þannig má segja að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða. Afleiðingin er augljós. Fíkniefnarannsóknir verða flóknari, tímafrekari og margfalt dýrari.

Fíkniefni berast hingað til lands fyrst og fremst frá Hollandi en þar eru fíkniefni lögleg. Vandinn hér á landi er langmestur í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu en fer vaxandi úti á landsbyggðinni. Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík hefur aðeins 14 starfsmenn og það gefur auga leið að menn á þeim bæ hafa ekki tök á að sinna öllum þeim málum sem þeir vita um sökum manneklu og fjárskorts. Samt sem áður er árangur góður í herbúðum þeirra.

Úrræði Vesturlanda gagnvart þessum vágesti hafa jafnan verið þau að þyngja viðurlög við broti ásamt því að beita markvissu forvarnastarfi. Þess skal getið að hæstv. núv. samgrh., Halldór Blöndal, var nægilega framsýnn til þess að leggja fram þingmannafrv. á árinu 1985 um hert viðurlög við fíkniefnabrotum en frv. dagaði hins vegar uppi í nefnd.

Tilgangur þessarar tillögu er sá að reyna að stemma stigu við þeirri þróun sem hefur átt sér stað hér á landi á allra síðustu árum og missirum. Einkum er miðað að því að reyna að koma í veg fyrir innflutning ólöglegra fíkniefna. Varnaðaráhrifin verða gerð mun ljósari með hertum viðurlögum, þyngri dómum og möguleikum á að umræddir brotamenn verði hafðir undir eftirliti þar til dómur gengur í máli þeirra. Þá er jafnframt markmið að vekja athygli á nauðsyn á heildstæðri forvarnastefnu.

Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík vinnur nú að sérstakri könnun á þeim einstaklingum sem koma við sögu fíkniefnamála og fyrstu tölur sýna að á meðal kannabisneyenda er að finna börn allt niður í 11 ára aldur. Sú staðreynd kemur Alþingi Íslendinga við. Sömuleiðis kemur það Alþingi við að lögreglumenn verða varir við mun meiri fíkniefnaneyslu á meðal framhaldsskólanema nú en nokkru sinni áður. Nýtt og áður óþekkt efni er komið í umferð hér á landi, ecstacy eða alsæla, og mun það vera langalgengasta efni sem finnst á meðal framhaldsskólanema. Sem dæmi má nefna að lögreglan lagði hald á 22 alsælutöflur í fyrra en hefur lagt hald á 532 stykki það sem af er árinu.

Það er alvarleg staðreynd að fíkniefnaneysla unglinga og barna nái allt niður í 11 ára aldur. Hassneysla hefur aukist verulega á allra síðustu árum, einkum á meðal 15 og 16 ára unglinga. Ástæða er til að nefna í þessu sambandi að ekki eru aðeins neytendur í þessum aldurshópi þar sem í sl. mánuði, þ.e. núna í september, játuðu fjórir unglingspiltar að vera sölumenn fíkniefna í Reykjavík og það var aðalstarfið. Þetta er aðeins hluti vandans í fíkniefnamálum á Íslandi í dag sem ég hef rakið hér og fleira bætist við.

Eitt stærsta fíkniefnamál, sem hefur komið upp á Íslandi á þessu ári, kom upp á Keflavíkurflugvelli í fyrrakvöld. Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík lagði hald á eitt kg af amfetamíni og tvö kg af hassi og mér er sagt að eitt kg af amfetamíni þýði í raun þrjú kg þegar búið er að blanda það og það er komið í sölu. Jafnframt er mér tjáð að tvö kg af hassi þýði á milli 5--6 þúsund neysluskammtar fyrir stórneytendur en hvorki meira né minna en 20 þúsund skammta fyrir svokallaða byrjendur. Áætlað söluverð þessarar sendingar er rúmlega 20 millj. íslenskra króna. En við fáum væntanlega að heyra meira af þessu máli í fjölmiðlum næstu daga. Það fer ekki á milli mála að hér eru alvarlegir hlutir að gerast.

Innflutningur, sala og dreifing fíkniefna, einkum til barna og unglinga, er glæpur sem líkja má við tilraun til manndráps. Auk þess er ásetningur til staðar í nær öllum fíkniefnasmyglmálum. Verknaðurinn er fullframinn, menn eru einfaldlega staðnir að verki. Þeir eru með efnin í fórum sínum svo ekki verður um villst.

Undirrót fíkniefnainnflutnings og dreifingar er gróðavonin. Menn ætla að hagnast, verða ríkir, jafnvel vellauðugir. Þeir ætla að verða vellauðugir á því að flytja inn eiturefni til handa æsku þessa lands. Það eitt og sér kallar á viðbrögð yfirvalda.

Það þarf varla að fara mörgum orðum um þá ógæfu og þann persónulega harmleik sem neytendur verða fyrir með því að ánetjast fíkniefnum. Afleiðingarnar eru skelfilegar. Í starfsskýrslu lögreglunnar í Reykjavík fyrir árið 1994 kemur fram að það veki sérstaka athygli hversu margir þeirra sem komu við sögu fíkniefnadeildar lögreglunnar voru atvinnulausir og hversu stór hluti þeirra var á framfærslu félagsmálakerfisins og Tryggingastofnunar ríkisins. Sambærilega niðurstöðu er að finna í nýrri skýrslu dr. Helga Gunnlaugssonar, lektors við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, en hann gerði rannsókn á þeim einstaklingum sem komu við sögu fíkniefnalögreglunnar á tímabilinu 1987--1992. Dr. Helgi komst að eftirfarandi niðurstöðu, með leyfi forseta:

,,40% þeirra sem fíkniefnalögreglan hafði afskipti af árið 1990 sögðust vera atvinnulausir og tæp 40% til viðbótar sögðust tilheyra ófaglærðri verkalýðsstétt. Þetta bendir nokkuð ótvírætt til þess að það fólk, einkum unglingar, sem ánetjast fíkniefnum, heltist úr lestinni við nám og verði undir í lífsbaráttunni. Einnig er það vitað samkvæmt niðurstöðum úr fjölmörgum erlendum rannsóknum sem og þeim íslensku heimildum sem ég nefndi hér áðan að stór hluti þeirra afbrota sem framin eru eru fíkniefnatengd á einhvern hátt. Þetta er aðeins dæmi um þann félagslega vanda sem fíkniefnaneyslan leiðir til og þá er ónefnt það heilsutjón sem augljóslega fylgir í kjölfarið.``

Í 173. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er kveðið á um 10 ára hámarksrefsingu vegna alvarlegri fíkniefnabrota. Slíkt þak á refsirammanum bindur hendur dómara og það verður ekki dæmt þyngra en refsiramminn heimilar hverju sinni, svo mikið er víst. Því er nauðsynlegt að dómi flutningsmanns að rýmka þetta ákvæði a.m.k. í 16 ára hámarksrefsingu. Það mun gefa dómurum meira svigrúm því að engin tvö mál eru eins.

Einnig fælist í því sú leiðbeiningarregla að dómar í fíkniefnamálum ættu að þyngjast. Ef litið er til Norðmanna í þessu efni hafa þeir 21 árs hámarksrefsingu vegna innflutnings á fíkniefnum og hefur á það ákvæði reynt í stóru heróínsmygli. Við getum líka spurt okkur að því hvenær við Íslendingar þurfum að takast á við heróíninnflutning. Erum við þá sátt við að dómstólar hafi bundnar hendur við 10 ára hámarksrefsingu? Neytendur heróíns hafa nú þegar komið við sögu lögreglunnar hér á landi.

Þá er einnig mikilvægt að önnur úrræði komi til, svo sem þau að menn séu hafðir undir eftirliti þar til dómur gengur í máli þeirra. Staðreyndin er sú að oft hefur það gerst að brotamenn í fíkniefnamálum sem og reyndar öðrum hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald í nokkrar vikur og ganga síðan lausir þar til dómur er upp kveðinn. Þess eru dæmi að menn hafa einfaldlega komið sér úr landi í millitíðinni og því hafa þeir hinir sömu komist hjá refsingu og enn aðrir hafa haldið áfram iðju sinni. Til þess að hægt sé að hafa brotamenn sem hér um ræðir undir eftirliti þurfa að koma til ný réttarfarsleg úrræði. Það særir réttarvitund almennings ef vægt er á þessum málum tekið eða látið hjá líða að bregðast við í tíma. Það eru borgaraleg réttindi þegna þessa lands að mönnum sé refsað í eðlilegu hlutfalli við alvarleika brots.

Þeir sem ætla af fullum ásetningi að auðgast með því að tortíma börnum framtíðarinnar verðskulda hörð viðbrögð samfélagsins. Yfirvöld hafa þá skyldu að koma til móts við vilja almennings í þessum málum. Ég treysti hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar til þess að hlýða því kalli.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.