Ólöglegur innflutningur fíkniefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 14:49:17 (266)

1995-10-12 14:49:17# 120. lþ. 9.6 fundur 62. mál: #A ólöglegur innflutningur fíkniefna# þál., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að fá að þakka flm. þessarar till. til þál. fyrir að hreyfa við svo brýnu máli sem innflutningur á fíkniefnum er. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Arnþrúðar Karlsdóttur að það særir réttsýnt fólk að horfa upp á það að þeir sem hafa heill og hamingju barna að féþúfu skuli geta komist hjá því að sæta viðhlítandi refsingu fyrir það athæfi. Ég held að þetta sé mjög brýnt mál og sjálfsagt þarf að ræða það frá fleiri en einni hlið og er gott að það skuli vera komið á dagskrá á Alþingi.

Ég held að við þurfum að horfa á fleiri hliðar málsins. Auðvitað er þetta einn angi af því að taka á þeim sem eru með ólöglegan innflutning á fíkniefnum en við skulum heldur ekki gleyma því að það þarf að horfa á fleiri þætti samhliða. Það þarf að skoða stöðu barna í samfélaginu. Það þarf að efla fræðslu í skólum. Manni segir svo hugur að þær aðferðir sem hafa verið viðhafðar til þess að fræða ungmenni hafi á einhvern hátt brugðist ef skoðuð er aukning á þessum vímuefnavanda sem við vitum að er til staðar.

Mig langar líka til þess í þessu samhengi, virðulegi forseti, að taka til umræðu möguleika heilbrigðisstofnana við að meðhöndla börn og ungmenni eins og kom fram í málflutningi hv. þm. eða allt niður í 11 ára gömul. Ég held að við verðum að skoða hvaða möguleikar eru innan heilbrigðisstofnana til þess að takast á við þennan vanda. Því miður er staðreyndin sú að það er hvergi í okkar annars um margt góða heilbrigðiskerfi möguleiki á því að meðhöndla 11 ára gömul börn vegna fíkniefnaánetjunar. Sá staður finnst hvorki á heilbrigðisstofnunum né öðrum meðferðarstofnunum

Það hefur verið gerð tilraun með meðferðarúrræði á Tindum. Í það hefur verið lagt verulegt fjármagn. Ef ég man rétt er búið að leggja 150 millj. kr. til þess að byggja upp þjónustuúrræði á Tindum. Það er tími til kominn að menn staldri við og meti þann árangur sem þar hefur náðst og reyni að læra af reynslunni þar til þess að móta einhverja stefnu til framtíðar. Staðreyndin er því miður sú að í þeim niðurskurði, sem við búum við í heilbrigðiskerfinu í dag, er sífellt verið að búa til úrræði og loka þeim jafnvel jarnharðan þannig að það fæst engin festa eða skynsamur rekstur og því er árangurinn kannski eins og hann er.

Ég held að við þurfum að fara í öðruvísi fræðsluátak en við höfum gert hingað til til þess að stemma stigu við því að börn og ungmenni ánetjist þessum hörðu og mannskemmandi fíkniefnum en við skulum ekki síður muna það að við höfum verið hér í allan dag að ræða um fjölskyldustefnu. Hvað er betra en að stjórnvöld móti ákveðna fjölskyldustefnu og framfylgi henni? Ætli það sé ekki eitt af því besta sem við getum gert til þess að forða börnum og ungmennum frá þessum vanda og voða?

Ég vil ljúka máli mínu og þakka hv. þm. fyrir hennar framlag til þessara mála. Þar talar hún af mikilli þekkingu og ég vona að Alþingi beri gæfu til að taka þessi mál til einhverrar alvöruumræðu á hinu háa Alþingi.