Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 18:02:47 (324)

1995-10-16 18:02:47# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má kalla hlutina fínum nöfnum, að það þurfi að stokka upp allt launakerfið. Það þarf einfaldlega að hækka þessa lágu launataxta, svo einfalt er það mál; samhengi hlutanna sem skiptir máli. Árið 1992 þegar Kjaradómur kvað upp úrskurð sinn um launakjör alþingismanna voru launakjörin hækkuð úr tæplega 180 þús. í 240 þús. kr. Á sama tíma hafði verið þröngvað upp á almenning launahækkunum upp á 1,7% og á sama hátt hefur núna --- ekki neinni þjóðarsátt eins og mönnum er tíðrætt um --- verið þröngvað upp á almenning kjaranauðung sem mælist í örfáum krónum. Þegar Kjaradómur kemur á sama tíma og tekur höndum saman við hv. Alþingi um að færa þingmönnum kjarabætur upp á tugi þúsunda kr. vaknar reiði í landinu. Það er þetta samhengi hlutanna sem okkur ber að skoða. Ef við gerum það ekki munum við aldrei skilja hvers vegna almenningur er reiður.