Lánsfjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 14:31:46 (347)

1995-10-17 14:31:46# 120. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A lánsfjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil áhyggjur fyrrv. samgrh. af þessu máli sem hann hefur sjálfsagt haft frá þeim tíma sem hann sá um samgöngumálin. Ég hef sagt að unnið sé að lausn þessa máls og ég tel að það sé óþarfi að hafa þessar miklu áhyggjur af því að flugstöðin sem slík og reksturinn, sem þar fer fram, geti ekki staðið undir greiðslu af lánum. Það tekur að vísu nokkurn tíma. Það gæti þurft að taka 20--30 ár en búast má við því að stöðin standi það af sér og hún þurfi ekki að afskrifast á styttri tíma.

Ég tel einnig að eðlilegt sé að skattur sem fellur nú á farþega og er notaður til þess að byggja flugvelli út um allt land komi a.m.k. að hluta til til þess að greiða niður þessa flugstöð og ég veit að þar erum við sammála, ég og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Sá skattur er á farþega sem fara um Keflavíkurflugstöðina. Það þarf ekki að taka mikið brot af honum. Það gæti verið innan við 20% en nýjustu hugmyndir sem ég hef séð benda til þess að hægt sé að ná út úr rekstri flugstöðvarinnar um það bil 300 millj. ef menn standa vel að þessu og ég veit að hv. þm., fyrrv. utanrrh., mun kannast við slíkar tölur. Að vísu þarf að breyta rekstrinum og gera hann fjölbreyttari og nýta möguleika til þess að hækka leigu á starfsemi sem þarna fer fram með svipuðum hætti og gerist í samsvarandi starfsemi annars staðar.

Ég held að það þurfi ekki sem betur fer að fara í sameiginlega sjóði landsmanna til þess að ná viðbótarfjármunum en auðvitað neyðumst við til að gera það ef við getum ekki náð því með þessum hætti. Aðalatriðið er þó, virðulegi forseti, að á þinginu virðist vera dugleg og góð samstaða um að á þessu máli verði tekið og ég er sannfærður um að sú ríkisstjórn sem nú situr lætur ekki undir höfuð leggjast að gera það og ítrekar að ráðuneytisstjórar þessara þriggja ráðuneyta eru um þessar mundir að ræða þessi mál.