Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 20:53:35 (383)

1995-10-17 20:53:35# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé enginn misskilningur hér á ferðinni varðandi sjúkrahússkattinn. Mér er kunnugt um að hann var tekinn fyrir ýmis ferliverk sem unnin voru á slíkum stofnunum. Einhver hluti fólks greiddi það og þetta var kannski í samræmi við gjaldtöku annars staðar líka. En það er bara ekki þannig að ég taki það gilt sem rök að það finnist einhverjir Sighvatarskattar á einhverja sjúklinga á þessum stofnunum frá fyrri tíð. Það eru bara engin rök fyrir mig. Það er verið að innleiða almenna gjaldtöku, komugjöld, inn á þessar stofnanir sem fólk verður að borga án tillits til efnahags, það er að kaupa sig inn af þessari þjónustu og ég er á móti því. Ég tel það vitlausa stefnu að innleiða slík gjöld og ég hélt að hæstv. ráðherra væri mér sammála. Á móti hverju var Framsfl. að berjast á síðasta kjörtímabili? Þessum Sighvatarsköttum, skólagjöldunum og öllu þessu. Þannig að það er alveg ömurlegt að heyra röksemdafærslu af þessu tagi.

Nú eru skattar og gjöld sem Framsfl. var á móti á síðasta kjörtímabili orðin rök fyrir því að leggja það á enn fleiri. Þetta er ömurlegt, herra forseti. Ekki meira um það.