Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 21:11:55 (390)

1995-10-17 21:11:55# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn hv. þm. get ég ekki svarað öðruvísi en kemur fram í frv. en ég veit að í hv. fjárln. er hægt að fá fyllri svör. Þar segir að þessar 7 millj. verði notaðar til þess að auka þjónustu við fanga svo sem sálfræðiþjónustu en einnig vegna annars kostnaðar, þ.e. fangaflutninga. Ég á von á því að þarna sé um aukna sálfræðiþjónustu að ræða þó ég geti ekki fullyrt um að nýja stöðu sé að ræða.

Hv. þm. eyddi töluverðu af tíma sínum að ræða um ungt fólk og fólk sem hefur lokið námi og val þess í þessu þjóðfélagi. Ég held því fram að frv. sem við ræðum hér svari heilmiklu um framtíðina fyrir þetta fólk. Í fyrsta lagi er tekin sú ótvíræða stefna í frv. að gefa þessu fólki von með því að lýsa því yfir að við ætlum að hætta að skuldsetja framtíðina. Það er eini möguleikinn til að bæta lífskjörin og gefa nýjum kynslóðum rými í þessu þjóðfélagi og á það er lögð áhersla. Í öðru lagi, sem er líka mikilvægt, er bent á það í þessu frv. að tekið verði að svokölluðum jaðaráhrifum í skattkerfinu sem þýðir að fólk með börn, fólk sem orðið hefur fyrir því að tekjutengingar ýmiss konar í bóta- og skattkerfinu verða til þess að fólk lækkar jafnvel í launum við það að vinna meira. Þetta tvennt gefur fyrirheit um betri tíð einmitt fyrir þá kynslóð sem hv. þm. ræddi um. Það hefur hins vegar, og það er dálítið sérkennilegt við þessa umræðu hér í dag, ekki komið ein einasta tillaga frá hv. alþýðubandalagsmönnum um það hvernig þeir færu að ef þeir væru beðnir um að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og væri fróðlegt að heyra hvort hv. þm. getur bent á einhverjar aðrar leiðir því að í málflutningi þingmannsins mátti einungis heyra gagnrýni á það sem átti að sparast o.s.frv.