Hækkun tryggingabóta

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:09:53 (425)

1995-10-18 14:09:53# 120. lþ. 15.4 fundur 24. mál: #A hækkun tryggingabóta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég flyt fsp. til hæstv. heilbrrh. um hækkun tryggingabóta. Eins og kunnugt er voru gerðir kjarasamningar snemma á þessu ári þar sem gert var ráð fyrir því að allir fengju sömu krónutölu í kauphækkun og þegar sú hækkun gekk yfir gerði t.d. Öryrkjabandalagið ráð fyrir því að sama krónutala kæmi til aldraðra og öryrkja og allra annarra. Svo varð þó ekki. Þess vegna flyt ég þessa fsp. sem er svohljóðandi, hæstv. forseti:

1. Á hvaða forsendum byggðist 4,8% hækkun tryggingabóta í mars sl. sem sögð var til samræmis við hækkanir á almennum vinnumarkaði?

2. Hvernig skilaði hækkunin sér í krónutölu á mánuði til tryggingaþega

a. sem höfðu fullan örorkulífeyri

b. sem nutu til viðbótar heimilisuppbótar og sérstakrar heimilisuppbótar?

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að ákvarðanir stjórnvalda í þessu efni hafa vakið gífurlega reiði meðal öryrkja í landinu og einnig í samtökum aldraðra. Þannig háttar t.d. til að Sjálfsbjörg á Akureyri sendi opið bréf til Öryrkjabandalagsins og fleiri aðila núna fyrir nokkrum vikum þar sem það kemur fram að aðalfundurinn, með leyfi forseta, beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórna Öryrkjabandalagsins og Sjálfsbjargar, Landssambands fatlaðra, að þær nú þegar kæri þetta mál til umboðsmanns Alþingis sem brot framkvæmdarvaldsins á skilyrtum ákvæðum löggjafans varðandi tryggingamál lífeyrisþega. Í þessu sambandi er Sjálfsbjörg á Akureyri að vitna til 65. gr. almannatryggingalaga sem kveða á um að bætur hækki í samræmi við breytingar sem verða á vikukaupi. Þegar það var ákveðið að vikukaupslaun hækkuðu um 2.700--3.700 kr. á mánuði var gert ráð fyrir því að sú krónutöluhækkun gengi yfir línuna og það hafa verið miklar kröfur uppi um það að undanförnu að allir fengju þetta. Af einhverjum ástæðum er það þannig að einn hópur hefur verið skilinn eftir og af einhverjum ástæðum er það þannig að það hefur ekki verið mjög mikið um það talað nema af hálfu öryrkjanna sjálfra. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hún sammála þessari ákvörðun? Styður hún þessa ákvörðun, sem ég hygg að hafi verið tekin af fyrrv. ríkisstjórn, af heilbr.- og trmrh. Alþfl., eða er ætlun núv. ráðherra Framsfl. að breyta þessu? Hér er komið mjög illa fram við þá sem hafa allra versta stöðu í þjóðfélaginu sem eru aldraðir og öryrkjar. Ég held að það sé nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því að það hefur verið farið verr með þetta fólk en alla aðra af því að það fékk ekki einu sinni 2.700 kr. á mánuði heldur miklu lægri upphæð.