Hækkun tryggingabóta

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:13:09 (426)

1995-10-18 14:13:09# 120. lþ. 15.4 fundur 24. mál: #A hækkun tryggingabóta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hinn 21. febrúar sl. voru undirritaðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Í tengslum við gerð þeirra gaf fyrrv. ríkisstjórn fyrirheit um að tryggingabætur og fleiri bætur sem ríkið greiðir mundu hækka í samræmi við samninga. Væri því e.t.v. rétt að fsp. þessari væri beint til fjmrh. þar sem hann stóð að þessari samþykkt.

Fyrri fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda er um á hvaða forsendum 4,8% hækkun bóta í mars sl. byggðist. Í mars sl. ákváðu fyrrv. heilbrrh. og fjmrh. að koma til framkvæmda hækkun bóta vegna áhrifa kjarasamninga frá 21. febrúar sl. og var hún reiknuð 4,8% í samráði við hagfræðinga Alþýðusambands Íslands og greidd þannig út frá 1. mars sl. Fyrir mér lá þegar ég tók við embætti að hækkun þessi hefði ekki fengið formlega afgreiðslu í ríkisstjórn, en þar sem þá var þegar búið að greiða út bætur samkvæmt þessum útreikningi taldi ég ekki fært að breyta honum og ríkisstjórn samþykkti að hækkun bóta vegna kjarasamninga yrði framkvæmd á þennan hátt.

Forsendur fyrir útreikningi þessum voru þær að samkvæmt almannatryggingalögum skuli bótaupphæðir breytast í samræmi við vikukaup í almennri verkamannavinnu. Meðalhækkun launa verkafólks var metin af aðilum vinnumarkaðarins 4,1--4,7% á þessu ári, en 6,9% á samningstímabilinu. ASÍ samþykkti 4,8% hækkun tryggingabóta með hliðsjón af efni kjarasamnings.

Síðari spurning hv. fyrirspyrjanda lýtur að því hvernig hækkunin hafi skilað sér til tryggingaþega. Til einstaklings sem hafði fullan örorkulífeyri hækkuðu bætur um 1.711 kr. á mánuði en nú hefur hann 12.921 kr. á mánuði í örorkulífeyri og 24.439 kr. í tekjutryggingu og hefur alls 37.360 kr. á mánuði. Tekjur þess einstaklings, sem hefur fullan örorkulífeyri, tekjutryggingu, heimilisuppbót og sérstaka heimilisuppbót en ekki aðrar tekjur, hækkuðu um 2.336 kr. á mánuði og hefur hann þá 51 þús. kr. í tekjur á mánuði. Það er rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að almenna kauphækkunin í krónutölu var 2.700 kr. en er 2.300 kr. hjá þessum hópi.