Jafnréttisáform

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:35:07 (435)

1995-10-18 14:35:07# 120. lþ. 15.6 fundur 27. mál: #A jafnréttisáform# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Í kosningabaráttunni sl. vor hafði Sjálfstfl. uppi mörg orð um nauðsyn þess að breyta hugarfarinu til þess að ná fram jafnrétti í okkar landi. Við töldum sumar að það þyrfti meira en breytingu á hugarfari, það þyrfti aðgerðir og það er greinilegt að hæstv. fjmrh. hefur hlustað á slík rök því að í frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 er að finna ákveðna nýjung í upptalningu á áhersluatriðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Liðurinn heitir Jafnréttismál kynnt og þar segir, með leyfi forseta:

,,Fjmrh. hefur ákveðið að taka jafnrétti karla og kvenna í kjaramálum til sérstakrar skoðunar. Einnig er fyrirhuguð kynning meðal ríkisstarfsmanna um stöðu jafnréttismála.``

Þetta vakti forvitni mína um leið og ég fagna því að sjá ákvörðun af þessu tagi. Ég ég veit að innan fjmrn. hefur verið komið upp hópi sem er að kanna stöðuna innan ráðuneytisins og væri forvitnilegt að heyra hvort sá hópur hefur skilað áliti eða hvað er að gerast í þeim málum í sjálfu ráðuneytinu, en það sem mig langaði að forvitnast um og kemur fram í fyrirspurninni er það hvernig hæstv. fjmrh. hyggst taka jafnrétti karla og kvenna til sérstakrar skoðunar og hvert verður markmið þeirrar skoðunar.

Það kemur reyndar fram í fjárlagatextanum að það er fyrst og fremst verið að vísa þarna til kjaramálanna en mig langar að biðja hæstv. fjmrh. að skýra það nánar hvað hann vill með þessu markmiði.