Jafnréttisáform

Miðvikudaginn 18. október 1995, kl. 14:47:04 (440)

1995-10-18 14:47:04# 120. lþ. 15.6 fundur 27. mál: #A jafnréttisáform# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram. Það var rætt nokkuð í upphafi um aðgerðir, hugarfar og nú síðast um fjármuni. Ég ítreka það sem ég hef stundum sagt áður að ég held að þetta sé að mestu leyti spurning um hugarfar. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að því verði vart breytt nema með aðgerðum og hugsanlega kunna slíkar aðgerðir að kosta einhverja fjármuni en áður en menn setja mikla fjármuni í þessa vinnu held ég að menn verði að vita nákvæmlega hvað þeir ætla að gera.

Ég hlustaði með athygli á hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og satt að segja hafði ég ekki vitað nákvæmlega um störfin sem eru á vegum félmrn., en ég vil vegna þess sem kom fram í máli hennar segja að starfsmat þarf ekki endilega að leysa allan vanda. Það er sums staðar notað, t.d. í Svíþjóð er það notað verulega mikið. Það var notað hjá hinu opinbera á árunum 1970--1978, það var í tísku þá. Það sem skiptir máli er gagnsæið í þessu öllu saman. Það sem skiptir máli er að stjórnendur fyrirtækjanna, t.d. opinberra fyrirtækja, séu sjálfir skýrir á því hver tilgangurinn er með starfi starfsfólksins og að fólkið viti til hvers af því er ætlast þannig að mælikvarðarnir séu skýrir og hver og einn sem er í starfi hjá stofnun eða fyrirtæki viti á hvaða forsendum menn eru t.d. hækkaðir í tign og fái starfsframa. Þetta er það mikilvægasta. Síðan þarf launakerfið að vera með þeim hætti að það sé líka gagnsætt, það sé ekki verið að lauma sporslum hér og hvar, borgað fyrir sumar nefndir en ekki aðrar. Þetta er aðalatriðið í þessu.

Að öðru leyti vil ég enn á ný þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir það að gefa okkur tækifæri til þess að taka forskot á sæluna því að ég veit að þessi mál verða mjög til umræðu á næstunni.