Mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 13:51:24 (461)

1995-10-19 13:51:24# 120. lþ. 17.4 fundur 72. mál: #A mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun# þál., Flm. LG
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Lilja Á. Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Ég tala fyrir till. til þál. um mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun. Flm. eru sú sem hér stendur ásamt Ástu R. Jóhannesdóttur. Tillagan hljóðar svona:

,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að skipa nefnd til að gera tillögu um mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun. Markmið með opinberri fjölmiðlastefnu er þríþætt:

a. að standa vörð um tjáningarfrelsi sem er hornsteinn lýðræðis,

b. að tryggja almenningi aðgang að alhliða málefnalegum og faglegum upplýsingum,

c. að efla íslenska tungu og menningu.

Tillaga um mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun verði lögð fyrir Alþingi eigi síðar en haustið 1996.``

Tjáningarfrelsi og réttur almennings til að hafa aðgang að alhliða, málefnalegum og faglegum upplýsingum er sá grundvöllur sem lýðræðisþjóðfélag byggir á. Í lýðræðisþjóðfélagi gegna fjölmiðlar lykilhlutverki. Það er því oft talað um áhrif og völd fjölmiðla sem ,,fjórða valdið`` auk hinnar formlegu þrískiptingar valds eins og við þekkjum hana í hinum vestræna heimi.

Í lýðræðisþjóðfélagi gegna fjölmiðlar tvíþættu hlutverki. Þeir fræða þjóðfélagsþegnana og veita þeim innsýn í opinber mál, málefni samfélagsins, umheimsins og einstaklinga eftir því sem við á. Þannig geta þegnarnir staðið vörð um lýðréttindi sín. Auk þess veita fjölmiðlar ríkisvaldinu aðhald með því að fylgjast með starfi þess á gagnrýninn hátt og koma í veg fyrir að ríkisvaldið misbeiti valdi sínu.

Undanfarin ár eða áratug hafa átt sér stað ótrúlegar breytingar á sviði fjölmiðlunar og upplýsingatækni. Upplýsingatæknin, sem er oft sögð vera landamæralaus, hefur þegar haft djúptæk áhrif á þjóðfélagið og sífellt fleiri hér á landi hafa aðgang að alþjóðlegu fjölmiðlaefni. Í æ ríkara mæli er litið á upplýsingar sem vöru. Hins vegar er það hið félagslega, pólitíska og fjárhagslega vald sem sker úr um það hvernig upplýsingatæknin er notuð og hvers konar upplýsingum komið er á framfæri. Að þessu leyti boðar upplýsingatæknin í sjálfu sér ekkert nýtt þó að hún hafi mikil áhrif á samfélagið og flestalla einstaklinga þess.

Tækniþátturinn hefur vegið þyngst í þróun fjölmiðlunar undanfarinn áratug og ýmsir hagsmunir en þó sérstaklega pólitískir hagsmunir, sem tengjast framleiðslu og viðskiptum á sviði fjarskipta, útvarps- og tölvutækni sem knýja þessa öru tækniþróun áfram. Þessi nýja tækni hefur opnað áður óþekktar þróunarleiðir og hefur átt stóran þátt í því sem við getum kallað alþjóðahyggju.

Eftir að einkaréttur Ríkisútvarpsins til útvarpsrekstrar var afnuminn hefur einkareknum útvarpsstöðvum fjölgað hér á landi. Svipuð þróun hefur reyndar átt sér stað annars staðar á Norðurlöndum. Útvarpsstöðvar reknar af auglýsingafé hafa fest sig í sessi. Af þessum sökum hefur fjölmiðlamarkaðurinn breyst. Hagnaðarsjónarmiðið og auglýsingamennskan hafa orðið meira áberandi. Fjölmiðlun hefur fengið á sig alþjóðlegan blæ og knúið fram sífellt meiri alþjóðahyggju.

Þættir á ensku eru áberandi á sjónvarpsskjáum flestra þjóða og í flestöllum heimshornum. Í kvikmyndahúsum er bandarískur kvikmyndaiðnaður nær allsráðandi. Þriðja heims lönd hafa t.d. gagnrýnt þessa þróun vegna þess að fjölmiðlaefni er framleitt út frá sjónarmiði og gildismati Vesturlanda. Þegar fámenn þjóð eins og Íslendingar flytur inn enskar og bandarískar sjónvarpsmyndir og kvikmyndir er ekki aðeins verið að flytja inn afþreyingu heldur ekki síður gildismat, fyrirmyndir, tísku og lífsstíl.

Þessi þróun hefur haft mikil áhrif á íslenskt þjóðlíf. Sjóndeildarhringur okkar hefur víkkað, við höfum kynnst menningu annarra þjóða og gildismati. Einangrun okkar hefur verð rofin. Jafnframt hefur íslensk menning fengið samkeppni. Dægurlög og dægurmál hafa fengið stöðugt meira rúm á öldum ljósvakans. Fjölgun útvarpsstöðva hefur ekki haft í för með sér fjölbreytni í efnisframboði. Nýju útvarpsstöðvarnar bjóða nær eingöngu upp á einhæft afþreyingarefni og hið sama gildir um sjónvarpsstöðvarnar eins og Stöð 2. Þar er engilsaxnesk framleiðsla nær einráð. Hin væntanlega Stöð 3 virðist ætla að fylgja svipaðri dagskrárstefnu. Sjónvarpsstöð, sem dreifir svipuðu efni og myndbandaleigur gera, virðist vera sú tegund sjónvarpsstöðva sem gefur mest í aðra hönd. Þetta einhæfa dagskrárframboð hefur mótað viðhorf okkar Íslendinga til sjónvarpsefnis. Við erum best læs á myndmál af engilsaxneskum toga og við virðumst kunna best að meta efni sem er upprunnið þaðan.

Eins og ég vék að áðan hafa tækniframfarir á þessu sviði verið mjög örar og henni hefur fylgt aukin samkeppni. Gæði eða fagmennska á þessu sviði hefur aukist, útsendingarkostnaður hefur lækkað og gervihnattasendingum hefur fjölgað. Með tilkomu FM-senda hefur orðið einfaldara að útvarpa. Víða erlendis hefur þessi aukna samkeppni á fjölmiðlamarkaði haft í för með sér frekari sérhæfingu. Þar má sjá sérstakar rásir fyrir fréttir, tónlist, íþróttir, barnaefni menningu o.fl. Þessi sérhæfing endurspeglast einnig í útgáfu blaða og tímarita.

Ljóst er að það er dýrara að reka útvarp í almannaþágu, þ.e. útvarp sem býður upp á fjölþætt og margbreytilegt efni en að reka útvarps- og sjónvarpsrásir sem sérhæfa sig á einhverju ákveðnu sviði. Frjáls samkeppni milli fjölmiðla er auðvitað forsenda tjáningarfrelsis. Hins vegar er hætt við því að samkeppni um hlustendur og áhorfendur til að ná hylli auglýsenda leiði til þess að dagskrárframboðið verði fábreyttara og einnig á tilteknu sérsviði. Sífellt fámennari hluti þjóðarinnar mun fylgjast með sama miðlinum eða þættinum og þekkingarsamnefnari þjóðarinnar, ef við getum sagt sem svo, mun minnka og hagsmunir einstaklinganna þess vegna verða sundurleitari. Afleiðing þessarar þróunar virðist vera sú að þekking okkar verður sérhæfð og oft sundurlaus. Það verður æ erfiðara að hafa heildarsýn.

Verði þetta hagnaðarsjónarmið alls ráðandi í rekstri fjölmiðla hér á landi er ekki ólíklegt að fræðsluhlutverki þeirra verði ýtt til hliðar en þar með er grundvöllur lýðræðisins í hættu. Eitt af markmiðum fjölmiðlastefnu hlýtur að vera að tryggja almenningi aðgang að vönduðu efni, m.a. með reglum um auglýsingar og að ekki skuli blanda saman auglýsingum og öðrum efnisþáttum.

Við Íslendingar höfum haft ríkisútvarp sem býður upp á dagskrá í anda útvarps í almannaþágu. Fyrirmyndin er fengin frá BBC og kallast þar ,,Public Service Radio``. Þetta hugtak felur einkum þrennt í sér. Í fyrsta lagi að útvarpið skal ná til allra íbúa landsins. Í öðru lagi á það að tryggja almenna þjóðfélagsumræðu í landinu með því að útvarpa opinberri umræðu sem er lykilatriði í lýðræðisþjóðfélagi. Í þriðja lagi skal útvarpið þjóna almenningi með því að bjóða upp á alls konar þætti óháð því hve margir vilja hlusta eða horfa á þá. Með öðrum orðum á útvarp í almannaþágu ekki að bjóða upp á efni sem eingöngu miðast við vinsældir.

Sjónarmið almenningsfræðslu hafa löngum einkennt efni Ríkisútvarpsins ásamt þeirri meginskyldu þess að miðla menningarefni og taka þátt í samfélagsumræðum. Sú þróun, sem hefur orðið á íslenskum fjölmiðlamarkaði, hlýtur að vekja okkur Íslendinga til umhugsunar um það hvers konar fjömiðlun sé æskileg. Þetta er verkefni sem kemur öllum við enda er fjölmiðill á flestum heimilum og fær heiðurssætið inni í stofu hjá mörgum. Undirstaða íslenskrar menningar er sameiginleg reynsla okkar og þekking. Fjölmiðlar gegna mikilvægu sameiningarhlutverki í okkar fámenna þjóðfélagi. Ef framsetning þeirra einkennist af framandi gildum og hefðum mun íslensk þjóðmenning standa höllum fæti.

Oft er talað um það að vald fjölmiðla hafi aukist í þjóðfélaginu, ekki síst vegna þess að þeir eru mikilvægasti gluggi okkar að samfélaginu, bæði okkar eigin samfélagi og öðrum fjarlægari. Það er víst að notendum fjölmiðla og tölvutækni fjölgar stöðugt hvort heldur sem þeir nota þessi tæki til afþreyingar, fræðslu eða tjáskipta. Fjölmiðlaþróunin býður upp á gífurlega möguleika. En hún á sér líka neikvæðar hliðar. Virk fjölmiðlastefna getur því skipt sköpum ef við viljum hafa áhrif á þróunina á fjölmiðlamarkaðnum.

Eignasamruni og samþætting fjölmiðlafyrirtækja og stýring fjölmiðla í hvaða formi sem er getur haft hættuleg áhrif á tjáningarfrelsi og allt upplýsingaflæði í samfélaginu. Það hlýtur því að vera verkefni hins opinbera að tryggja að fjölmiðlar bjóði upp á fjölbreytt efni. Það þarf m.a. að athuga eignarhald fjölmiðlafyrirtækja og koma í veg fyrir að einn eða fáir sterkir aðilar nái slíkum yfirburðum á markaði að tjáningarfrelsi og upplýsingaflæði sé ógnað. Það ber einnig að rannsaka fjárhagslega tengingu fjölmiðlafyrirtækja við önnur fyrirtæki því að það er augljóst að slík tenging hefur bein áhrif á tjáningarfrelsið.

Öruggasta leiðin til að tryggja fjölbreytt framboð efnis til dreifingar er því rekstur öflugra og sterkra innlendra fjölmiðla til mótvægis við alþjóðlegan fjölmiðlaiðnað. Kröftugir fjölmiðlar geta einbeitt sér að sjálfstæðri miðlun frétta og menningar.

Opinber stefna í fjölmiðlun ætti að ná yfir bæði prent- og ljósvakamiðla. Af þessu er ljóst að það er mikilvægt að stjórnvöld móti stefnu í þessum málum og því er þessi tillaga lögð fram.

Þeir sem standa að tillögunni eru með nokkur atriði sem nauðsynlegt er fyrir nefndina að hafa til athugunar og ég ætla að lesa upp nokkur þeirra. Það er að gerð verði grein fyrir tækniþróun í greininni og aukinni tilhneigingu til markaðshyggju og alþjóðahyggju í framleiðslu fjömiðaefnis. Að skýrt verði hlutverk og starfsemi fjölmiðla.

Ég ætla að ljúka máli mínu á því að benda á að áhrif fjölmiðla á börn og unglinga eru auðvitað mjög mikil og því er nauðsynlegt að þessi nefnd athugi vel stöðu barna og unglinga í samfélagi okkar og hugi að því hvernig hægt er að vernda börn og unglinga gegn óæskilegu efni fjölmiðla og að þær reglur og bönn sem til eru séu virt og þeim sé fylgt eftir.