Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 14:27:32 (464)

1995-10-19 14:27:32# 120. lþ. 17.2 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Frv. er flutt á þskj. 100 og er mál nr. 96 á þessu hv. þingi.

Frv. er flutt til að lögfesta nauðsynlegar breytingar á lögum í framhaldi af búvörusamningi sem undirritaður var þann 1. okt. sl., um sauðfjárframleiðslu milli ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands. Í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna er kveðið á um að taka skuli búvörusamninginn sem samþykktur var 11. mars 1991 til endurskoðunar, sérstaklega með tilliti til þess mikla vanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir.

Til að efna ákvæði starfsáætlunar ríkisstjórnarinnar hófst ég þegar handa við að koma á endurskoðun á þeim hluta búvörusamningsins frá 1991 sem snertir framleiðslu sauðfjárafurða. Óformlegar viðræður við fulltrúa Bændasamtakanna hófust þegar í lok apríl og 16. maí sl. kynnti ég Bændasasmtökunum á formlegan hátt skipan samninganefndar ríkisins vegna hugsanlegra breytinga á gildandi búvörusamningi. Með upphafi á starfi samninganefndanna var unnin á þeirra vegum ástandslýsing í sauðfjárrækt vegna endurskoðunar búvörusamningsins.

Þó svo að fyrir hafi legið að alvarlega horfði með fjárhagslega afkomu sauðfjárbænda sem í reynd hefði átt að vera búið að kalla á ráðstafanir til úrlausnar vanda þeirra var niðurstaða könnunarinnar enn alvarlegri en nokkurn hafði órað fyrir. Hvað varðaði tekjumöguleika sauðfjárbænda kom fram í könnuninni að í stað þess að úthluta til þeirra 8.150 tonna greiðslumarki samkvæmt áætlun búvörusamningsins frá 1991 yrði aðeins unnt að úthluta til þeirra 5.700 tonna greiðslumarki á verðlagsárinu 1. september 1997 til 31. ágúst 1998 samkvæmt þessari áætlun. Af því leiddi 30% samdrátt í brúttótekjum af sauðfjárrækt frá forsendum fyrri búvörusamnings og miklu alvarlegri samdrátt á launalið búsins.

Mér var ljóst af þeirri alvarlegu lýsingu á fjárhagsstöðu sauðfjárbænda sem áðurnefnd úttekt leiddi í ljós að gera yrði nauðsynlegar breytingar á gildandi búvörusamningi sem samningsaðilar næðu saman um og það samkomulag sem tækist yrði að koma til framkvæmda án tafar. Þess vegna lagði ég fram á Alþingi í júní sl. frv. að breytingu á ákvæðum laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, eða búvörulögunum svonefndu, til að fresta ákvörðun á greiðslumarki til sauðfjárbænda og fékk það samþykkt. Samkvæmt gildandi ákvæðum átti að ákveða greiðslumark sauðfjárbænda fyrir haustið 1996 eigi síðar en 15. september í ár eða hálfum mánuði áður en Alþingi kæmi saman og unnt yrði að breyta gildandi lögum sem hefði leitt til þess að greiðslumark allra bænda hefði þurft að skerða um 17% haustið 1996.

[14:30]

Í frv. lét ég fylgja þá ástandslýsingu sem ég hef áður nefnt til að gera Alþingi grein fyrir hvernig horfði með fjárhag sauðfjárbænda og vitna til þess um nánari skýringar. Vil ég þó sérstaklega minna á þau atriði er varða tekjur bænda. Rakin eru áhrif af samdrætti í markaði kindakjöts og gerð grein fyrir áhrifum hans á tekjur bænda. Niðurstöður hagþjónustunnar eru þær að til greiðslu launa af sauðfjárbúskap árið 1993 hafi verið 770 þús. kr. að meðaltali hjá sauðfjárbændum með bú á bilinu 300--400 kindur og því til viðbótar af öðrum búrekstri hjá þessum aðilum um 160 þús. kr. Þessi útkoma ein og sér ætti að vera óásættanleg fyrir bændur og tilefni til endurskoðunar og lagfæringar á búvörusamningnum. Hins vegar verður afkomumat hagþjónustunnar fyrir þessa sömu bændur enn lakara þegar horft er til ársins 1996 að óbreyttum samningi því þá eru laun þeirra af sauðfjárrækt talin verða um hálfri millj. kr. lægri en árið 1993 eða aðeins um 270 þús. kr. Niðurstaða Alþingis varð sú að heimila frestun á ákvörðun greiðslumarksins fyrir verðlagsárið 1996--1997, þó aðeins til 1. nóv. 1995 svo endurskoða mætti samninginn innan þess tíma. Nú má ljóst vera að þetta frv. verður vart lögfest fyrir næstkomandi mánaðamót, m.a. vegna þess að í næstu viku verður þinghlé. Gæti því þurft að framlengja þennan frest í einhverja daga þannig að ljúka megi afgreiðslu þessa frv. sem hér er nú til umræðu og hugsanlegt að veita frest t.d. til 15. nóv. Til að glöggva sig á því hvað um er að ræða er rétt að rifja upp grundvallarforsendur búvörusamningsins frá 1991 er vörðuðu sauðfjárrækt. En með samningnum var stigið það afdrifaríka skref að útflutningsbætur skyldu aflagðar. Framleiðsla umfram þörf innan lands yrði á ábyrgð bænda og framleiðslan aðlöguð að innanlandsmarkaði.

Til að sauðfjárræktin kæmist í gegnum þessa breytingu á starfsskilyrðum án þess að það ylli fjárhagslegu hruni hjá sauðfjárbændum var ákveðið að ríkissjóður greiddi fyrir 3.700 tonna framleiðslurétt sem færðist við það úr 11.850 tonnum niður í 8.150 tonn. Þessi aðlögun skyldi fara fram í tveimur áföngum og ljúka haustið 1992. Greiðslumark til lögbýla var með lögum ákveðið 8.600 tonn árið 1992 en átti að fara eftir stærð innlenda markaðarins haustið 1993. Það var á því hausti ákveðið 8.150 tonn þannig að ekki kæmi til niðurfærslna á greiðslumarki með hliðsjón af markmiðum samningsins. Þessi ákvörðun leiddi hins vegar til aukningar á birgðum kindakjöts þar sem sala á verðlagsárinu nam aðeins 7.081 tonni en hefði þurft að vera um 500 tonnum meiri hefði markaðsjafnvægi átt að haldast. Það er því strax í byrjun samningsins að undan fer að halla og í dag eru fjárhagsleg vandamál bænda við framkvæmd samningsins orðin svo mikil að ekki verður við unað.

Hæstv. forseti. Ég mun þá víkja aðeins að efnisatriðum samningsins:

Samningur þessi er samkomulag margra ólíkra sjónarmiða og má því segja að enginn óskasamningur hafi náðst eða að samningurinn sé ekki óskastaða eins eða neins. Mér er ljóst að mjög skiptar skoðanir eru um samninginn, jafnvel innan bændastéttarinnar, því hér er um erfið mál og viðkvæm að ræða. Hér er fjallað um atvinnumöguleika heillar stéttar og afkomu þess fólks og auk þess fjölda fólks sem vinnur við úrvinnslu á landbúnaðarafurðum.

Í markmiðum samningsins segir að auka skuli hagkvæmni og samkeppnishæfni sauðfjárræktarinnar til hagsbóta fyrir sauðfjárbændur og neytendur, tekjugrundvöllur sauðfjárbænda treystur, jafnvægi náð milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða og að sauðfjárræktin sé í samræmi við umhverfisvernd. Þessum markmiðum hyggjast samningsaðilar ná með því að breyta rekstrarumhverfi sauðfjárframleiðslunnar með frjálsara verðlagskerfi, með uppkaupum og tilfærslum greiðslumarks og með því að styðja sauðfjárbændur sem vilja hætta búskap. Hvað varðar rekstrarskilyrði sauðfjárræktarinnar verða gerðar þrjár grundvallarbreytingar.

Í fyrsta lagi er horfið frá framleiðslustjórnun, enginn kvóti verður á framleiðslunni, hver einstakur bóndi á þess kost að framleiða sem hentar hans starfsgetu og þörfum og skilyrðum jarðarinnar og fær hlutdeild í beingreiðslum samkvæmt sérstökum kvóta óháð framleiðslu.

Í öðru lagi verður verðlagningin gefin frjáls í áföngum. Heildsöluverð verður gefið frjálst þegar á næsta hausti og haustið 1998 fellur opinber verðlagning til bænda niður.

Sauðfjárræktin hefur búið við það verðlagsfyrirkomulag að verð afurðanna er ákveðið með opinberri verðlagningu hvert haust bæði í heildsölu og til bænda. Það hefur leitt til þess í mörgum tilvikum að aðrar kjötafurðir hafa með sveigjanlegri verðlagningu átt betri markaðsmöguleika. Er þar hvort tveggja um að ræða lækkun á tilkostnaði vegna hagræðingar á öllum framleiðslustigum og aðlögun að verði eftir markaðsaðstæðum. Eins og áður var komið inn á hefur samdráttur í neyslu kindakjöts haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu sauðfjárbænda. Sé hægt að snúa þessari þróun til betri vegar með frjálsari verðlagningu mun það styrkja afkomu greinarinnar til lengri tíma litið.

Í þriðja lagi verður innlegg afurða og uppgjör þeirra algjörlega óháð greiðslumarki og beingreiðslum til bænda. Nú er öllum gert kleift að leggja inn alla sína framleiðslu. Til þess að fá beingreiðslur í nýju kerfi þarf aðeins að uppfylla ásetningskröfu sem er 0,6 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks. Beingreiðslum frá ríki fylgja þannig mun minni kröfur en áður var og það mun draga úr þeirri spennu sem einkennt hefur núgildandi búvörusamning en þar var skylda að framleiða ákveðið magn af kjöti til að fá beingreiðslurnar.

Rétt er að rifja upp að þegar búvörusamningurinn frá 1991 var gerður var hætt að greiða niður kílóverð kindakjöts á heildsölustigi en í stað þess teknar upp beingreiðslur á hvert kíló kjöts til bænda. Þær voru jafnháar niðurgreiðslum að meðaltali til að ekki þyrfti að koma til verðhækkunar á kindakjöti. Talið var að með þessu fyrirkomulagi nýttust þessir fjármunir bændum betur og neytendum til verðlækkunar. Með því að aftengja beingreiðslur með þeim hætti sem nú er gert eru þær færðar nær því sem kallað hefur verið grænar greiðslur.

Með afnámi verðlagsákvæða í þrepum á samningstímanum munu bændur í ríkari mæli hafa það í sinni hendi hvernig til tekst að selja framleiðsluna. Bændur munu gera meiri kröfur til afurðastöðvanna. Eins og vikið hefur verið að áður byggist framtíð sauðfjárræktarinnar að stórum hluta á því að það takist að stöðva neyslusamdráttinn. Bregðast þarf við breyttum neysluvenjum og kröfum neytenda um aukið vöruval. Aukið markaðsstarf og vöruþróun kostar mikla fjármuni. Það er því óumflýjanlegt að fækka þarf afurðastöðvum. Þær eru í raun of veikar og vanbúnar svo tryggja megi að sauðfjárafurðirnar skipi áfram þann sess sem þær hafa í neyslu innan lands. Með þeim breytingum sem nú verða gerðar á búvörulögunum mun bóndinn í raun færast nær neytandanum og meiri samkeppni verða milli afurðastöðva. Þannig munu bændur sjá framtíð sinni betur borgið með afurðastöðvum sem tryggt geta sölu afurðanna.

Í eðli sínu er sauðfjárframleiðslan bundin landinu og því órjúfanleg þeirri byggðastefnu sem við höfum. Samningurinn felur í sér viðurkenningu á þessu. Stuðningurinn er ekki lengur alfarið bundinn því að framleiða kjöt. Með ákvæðum um ásetning verður hægt að takast á við önnur verkefni án þess að missa beingreiðslurnar. Sú staðreynd að bændur hafa ekki haft möguleika á því að hverfa í önnur störf á undanförnum árum hefur haft það í för með sér að framleiðslan hefur ekki dregist saman. Kaup og sala á greiðslumarki hefur ekki orðið til þess að hagræðing hafi átt sér stað svo sem vænst var.

Með því ákvæði laganna sem gerir heimilt að semja við bændur um lækkun ásetningshlutfalls án lækkunar beingreiðslna ef þeir taka þátt í umhverfisverkefnum í samráði við Landgræðslu ríkisins eða Skógrækt ríkisins, stunda nám eða starfsþjálfun eða taka þátt í atvinnuþróunarverkefnum, verður hægt að hjálpa bændum við að komast út úr greininni. Það verður lögð áhersla á hagnýt verkefni sem hingað til hefur ekki tekist að vinna. Með atvinnuþróunarverkefnum og starfsþjálfun verður bændum einnig gert kleift að hefja störf á nýjum starfsvettvangi. Þá er enn fremur áformað að draga úr rekstrarvanda sauðfjárbænda með uppkaupum og tilfærslu á greiðslumarki.

Þó svo að unnt verði að bæta markaðshlutdeild sauðfjárræktarinnar er ekki líklegt að markaðurinn verði það stór að allir sem nú stunda sauðfjárrækt geti stundað hana áfram. Því verður sauðfjárbændum gert tilboð um að hætta sauðfjárrækt með greiðsu fyrir greiðslumark og bústofn. Markmiðið er að kaupa upp allt að 30.000 ærgildi í greiðslumarki sem umreiknað til kindakjöts svarar til 550 tonna framleiðslu. Þessum stuðningi verður síðan úthlutað sem rétti til beingreiðslna til þeirra sem byggja afkomu sína aðallega á sauðfjárrækt. Þessi uppkaup munu í því nýja rekstrarumhverfi sem samningurinn leiðir til veita sauðfjárbændum auknar tekjur þó svo þeir auki ekki framleiðslu sína þar sem beingreiðslurnar eru ekki lengur framleiðslutengdar. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði til að ná niður birgðum og aðlaga framleiðsluna að markaðsaðstæðum. Að auki getur átt sér stað hagræðing með tilfærslu greiðslumarks með almennum kaupum og sölu milli manna fram til 1. júlí 1996. Þannig gefst þeim tækifæri sem vilja og telja sig geta tekið þátt í aukinni samkeppni í greininni að stækka við sig. Út allan samningstímann geta menn svo hætt framleiðslu og fengið fyrir það beingreiðslur í tvö ár gegn því að hefja ekki aftur framleiðslu sauðfjárafurða á búinu á samningstímanum.

Hæstv. forseti. Við gerð búvörusamningsins hafa komið fram mismunandi sjónarmið er varða framkvæmd samningsins og áhrif hans á sauðfjárræktina. Mun ég víkja að þeim og gera grein fyrir sjónarmiðum mínum.

Því hefur verið haldið fram að afnám framleiðslukvóta í sauðfjárrækt muni valda framleiðsluaukningu eða jafnvel framleiðslusprengingu. Til að glöggva sig á því er rétt að gera sér grein fyrir núgildandi fyrirkomulagi og hvernig það breytist. Í dag er það svo að hverjum framleiðanda er skömmtuð hlutdeild í innanlandsmarkaði með kvóta sem er líkt hlutfall af innanlandsneyslu frá ári til árs og á sinn upprunalega grunn í markaðshlutdeild á árunum 1986 til 1988. Vilji einhver aðili auka hlutdeild sína í innanlandsmarkaði eru honum aðeins tveir kostir mögulegir. Annar er sá að kaupa sér kvóta en hinn er að framleiða, slátra heima og selja á ólöglegan hátt.

Í nýjum búvörusamningi geta menn lagt allt inn til slátrunar og ef þeir fjölga þá fá þeir aukna hlutdeild á innanlandsmarkaði. Þetta ákvæði er talið geta valdið því að allir keppist við að framleiða og fái þannig aukna hlutdeild innan lands. Þessu er til að svara að í fyrsta lagi verður keypt upp greiðslumark og því úthlutað til annarra sem verða áfram í greininni. Í nýju kerfi er ekki sjálfgefið að sá sem fær greiðslumarkið muni auka framleiðsluna því hann þarf ekki að framleiða sem því svarar á meðan hann fer ekki undir 0,6 kindur í ásetningi fyrir hvert ærgildi greiðslumarks.

Í öðru lagi er ásetningskrafan mjög lág til að fá fullar beingreiðslur.

Í þriðja lagi er gefinn kostur á að kaupa sig frá útflutningnum með ásetningi 0,7 kinda fyrir hvert ærgildi. Þetta ákvæði mun í flestum tilfellum draga meira úr framleiðslu hvers og eins sem velur þessa leið en sem nemur því sem áður fór til útflutningsins.

Í fjórða lagi er verð á útflutningskjöti mjög lágt um þessar mundir og það er því ekki mikil hvatning til aukinnar framleiðslu.

Í fimmta lagi mun draga úr framleiðslu ef tekst að fá bændur yfir í hagnýt verkefni með því að draga enn frekar úr ásetningi allt að því að vera fjárlaus en halda fullum beingreiðslum.

Í sjötta lagi eru heimildarákvæði í samningnum sem nota má til tveggja ára og segir að ef aukning verður miðað við ásetning 1994 til 1995 þá má setja alla þá viðbótaraukningu á erlendan markað. Ljóst er að þessa heimild þarf að nýta á þessu hausti og jafnvel einnig því næsta.

Í sjöunda og síðasta lagi verður að telja að frjálst verð og framleiðsla í harðnandi samkeppni letji frekar en hvetji til aukinnar framleiðslu.

Því hefur einnig verið haldið fram að ekki sé tekið á heimaslátrun og svartri sölu. Það er ekki fyllilega rétt því með nýju fyrirkomulagi þar sem öllum er gert kleift að leggja allt sitt kjöt inn til slátrunar í viðurkennd sláturhús er dregið úr hvata til heimaslátrunar og svokallaðrar svartrar sölu. Kvótakerfið sem gaf takmarkaðan aðgang að innanlandsmarkaði sem greiddi helmingi hærra verð en útflutningur hefur gefið að undanförnu hefur beinlínis ýtt framleiðendum út á svarta markaðinn með það kjöt sem annars hefði átt að fara í útflutning, svokallað umsýslukjöt. Í nýja búvörusamningnum er þessu hins vegar svo farið að allir eiga þess kost að koma með framleiðslu sína á markað án takmörkunar en verða hins vegar að taka jafna hlutdeild í útflutningnum hafi þeir ekki undanþegið sig útflutningi með lægra ásetningshlutfalli eins og ég nefndi hér áður og má vitna til 6. mgr. 6. gr. frv. í því sambandi.

Það dregur einnig úr svartri sölu að fyrir hvert kíló kjöts sem yrði selt utan laga og réttar á svokölluðum svörtum markaði minnkaði hlutdeild viðkomandi aðila á innanlandsmarkaðnum. Því tapi varð hann ekki fyrir seldi hann utan réttar samkvæmt ákvæðum eldri samnings en ávinningur af sölu utan réttar er jafn í báðum tilvikum eins og allir hljóta að átta sig á.

Það verður aldrei svo að með þessum lögum verði hægt að koma fullkomlega í veg fyrir að lög verði brotin. En hér er rekstrarumhverfinu breytt þannig að allir sitji við sama borð hvað varðar innlegg og aðgang að innlendum markaði. Heimilt verður auk þess að skerða eða fella niður beinar greiðslur ef sauðfjárbóndi gefur rangar upplýsingar um ásettan fjölda sauðfjár eða stundar ólöglega sölu eða dreifingu á kjöti af heimaslátruðu sauðfé.

Það er ein af forsendum samningsins að birgðir verði komnar í eðlilegt horf áður en verð verður gefið algerlega frjálst. Til þess að svo megi verða verður gert átak til þess að losa birgðir fyrir þann tíma. Samningurinn felur það í sér að bændur og sláturleyfishafar munu áætla innanlandsþörfina og setja í útflutning það sem umfram er. Þannig halda þeir jafnvægi á milli framleiðslu og sölu á innanlandsmarkaði. Þar verða sauðfjárbændur í samkeppni við aðra kjötframleiðendur sem er hvatningin fyrir þá að selja sem mest innan lands á ,,réttu`` verði og í því formi sem neytandinn biður um. Við getum ekki gert ráð fyrir því að þeir verðleggi sig út af markaðnum í harðnandi samkeppni um neytendur. Sú gagnrýni að með þessu sé verið að gera erlenda markaðsstarfið að engu er ekki rétt því við erum alltaf að tala um tvenns konar söluvarning. Í fyrsta lagi heila og óunna dilka eða skrokka á hráefnismarkaðinn, sem verður alltaf til og í öðru lagi unnar vörur eftir forskrift kaupanda eða undir nýjum formerkjum okkar söluaðila, svo sem vistvæn framleiðsla. Að því mun ég víkja nánar síðar.

[14:45]

Í umræðunni hafa margir farið þá leið að framreikna núgildandi samning, og það meira að segja lengra fram í tímann en hann átti þó að ná, og komist að því að hann hefði orðið ódýrari en sá sem hér er til umræðu. Þetta tel ég ekki alls kostar réttan samanburð við samning, sem allir eru þó í raun sammála um að sé brostinn, samning sem hefði gert stóran hóp bænda gjaldþrota að öllu óbreyttu.

Með frv. er fskj. frá fjmrn., svo sem lög kveða á um, um samanburð á kostnaði sem af þessum samningi muni leiða samanborið við það ef núgildandi samningur væri í gildi á sama tíma eða til ársins 2000. Rétt er að vekja athygli á því sem þar stendur, að ekki er tekið tillit til hugsanlegra lækkana á vaxta- og geymslugjöldum og niðurgreiðslu á ull. Í því samhengi er rétt að rifja upp að til vaxta- og geymslugjalda eru veittar á fjárlögum í ár 290 millj. kr. og 230 millj. til ullarniðurgreiðslna eða samtals 520 millj. Til þessara tveggja liða eru hins vegar aðeins ætlaðar 435 millj. móti 520 á ári síðustu þrjú ár samningsins eða 85 millj. kr. lægri fjárhæð en nú árlega. Sé gerð áætlun út frá þessum tölum má ætla að árin 1995--2000 fari 436 millj. kr. lægri fjárhæð til þessara verkefna en færi miðað við útgjöld ársins í ár.

Þá má enn fremur spyrja að því hvað það mundi kosta ríkissjóð ef hinar síauknu birgðir af kindakjöti innan greiðslumarks, en þær má ekki flytja út samkvæmt ákvæðum núgildandi samnings, héldust annaðhvort óbreyttar eða yrðu seldar með öllum tiltækum ráðum. Um er að ræða birgðir af kindakjöti sem í haust voru nálægt 2.200 tonnum. Því er til að svara að auknar birgðir hljóta óhjákvæmilega að leiða til hækkandi kostnaðar í vöxtum og geymslu sem féllu á ríkissjóð. Ætti að afsetja birgðirnar yrði það ekki gert nema með því að auka söluna tímabundið. Ekki væri unnt að draga úr framleiðslu innan heildargreiðslumarksins tímabundið því í núgildandi lögum segir að við ákvörðun á greiðslumarki skuli byggt á neyslu síðasta almanaksárs og söluþróun fyrstu 6 mánuði yfirstandandi árs, auk þess sem heimilt sé að taka tillit til líklegrar neysluþróunar á komandi ári, eins og segir í samningnum. Til að afsetja birgðirnar þyrfti því að auka söluna sem leiddi til hærra greiðslumarks. Því er það einfalt reikningsdæmi að aukinn kostnaður ríkissjóðs af 2.200 tonna sölu næmi rúmlega 450 millj. kr. í auknu greiðslumarki. Það er því mögulegt að leiða að því rök að í stað þess að útgjöld samkvæmt hinum nýja samningi muni vaxa um nær milljarð frá því sem eldri samningurinn mundi leiða til yfir sama tíma, muni kostnaður bænda og ríkissjóðs að áframhaldandi óbreyttum búvörusamningi verða hinn sami eða jafnvel enn hærri. Því verður að fara mjög varfærnislega með ályktanir um kostnaðarbreytingar þar sem ómögulegt er að segja fyrir um þróun þeirra atriða er ráða alfarið niðurstöðunum.

Það hefur hlotið nokkra gagnrýni að fjárhagstölur samningsins skuli vera bundnar við vísitölu neysluverðs. Í því sambandi er rétt að rifja upp hvað fjárhagstölur samningsins fela í sér. Í fyrsta lagi er um að ræða fastan stuðning við framleiðendur sauðfjárafurða 1.480 millj. kr. Þessum fjármunum er ætlað að styðja við framleiðslu sauðfjárafurða og hafa áhrif á verðlag þeirra þannig að neytendum komi til góða. Ég lít svo á að hér sé um viðskiptasamning að ræða og því eðlilegt að annaðhvort séu upphæðirnar bundnar vísitölu eða þá jafnvel vöxtum. Sem dæmi þá er í samningnum gert ráð fyrir að greiðslur til bænda vegna uppkaupa á bústofni og framleiðslurétti þeirra fari fram á árinu 1996 til ársins 1998. Ekki er gert ráð fyrir að þær beri vexti og því kemur verðtryggingin í stað vaxta.

Þá verður að gera ráð fyrir að framlög til vaxta- og geymslukostnaðar og ullarniðurgreiðslna fylgi verðlagi. Að öðrum kosti hefði þurft að gera ráð fyrir endurskoðunarákvæðum á samningstímanum vegna verðlagsbreytinga

Ein af meginbreytingunum sem samningurinn felur í sér kemur fram í 6. gr. frv. og varðar fyrirkomulag við ráðstöfun framleiðslu kindakjöts. Með því að afnema framleiðslukvóta, gefa framleiðsluna frjálsa, auk þess sem verðlagning á heildsölustigi verður frjáls, verður að taka heildstæða ákvörðun um hvernig skuli afsetja framleiðslu hvers árs. Það ætti að vera óþarfi að draga það fram að framleiðsluferill sauðfjárafurða er mjög langur eða um tvö ár. Ákvörðun um framleiðslumagn er tekin að hausti við ásetning, afurðir falla til ári seinna og neysla fer síðan fram allt þar næsta ár. Viðbrögð einstakra framleiðenda við breytingum á markaði eru þess vegna það hægvirk að verði misvægi milli framboðs og eftirspurnar er verð löngu hrunið áður en bóndi fær að gert. Þetta er alkunnugt og á reyndar við um fleiri búvörur en kindakjötið.

Það fyrirkomulag er ákveðið að fyrir slátrun á hverju hausti verði gerð áætlun um framleitt magn kindakjöts út frá upplýsingum um fjölda vetrarfóðraðra kinda og jafnframt ákveðið hvernig haga beri afsetningu kjötsins. Áætlun þessi þarf ekki að vera nákvæmari en svo að nemi mánaðarlegri sölu innan lands því birgðir geta hreyfst til sem því nemur án vandræða. Þær má jafna út milli ára með sumarslátrun sem hæfist fyrr eða með birgðaaukningu mánaðamótin ágúst/september. Öllum sláturleyfishöfum og framleiðendum sauðfjárafurða verði skylt að leggja til kjöt til útflutnings á sama hlutfalli af framleiðslu sinni að undanskildum þeim sem hafa undanþegið sig útflutningi með fækkun fjár. Bændur fá þá sama aðgang hlutfallslega að innlenda markaðnum. Hver afurðastöð mun fyrir sig annast sölu á því magni sem verður afsett innan lands og kaupa það af bændum á því verði sem semst um. Útflutningur og uppgjör hans fer hins vegar fram sameiginlega þannig að unnt verði að greiða bændum sama verð fyrir sömu gæði. Rökin fyrir því má telja fremur einföld, markmiðið að greiða bændum sama verð fyrir sömu gæði. Markmiðið er að nýta á sem bestan hátt takmarkaða markaði erlendis, svo sem útflutningskvóta til Noregs, 500 tonn, útflutningskvóta til ESB, væntanlega 1.350 tonn og útflutningsmöguleika til Bandaríkjanna á vistvænni framleiðslu, svo að nokkuð sé nefnt.

Líklegt er að aðeins þrjú sláturhús hafi sem stendur möguleika á að flytja á þessa markaði. Því þarf að skipuleggja framleiðsluna eftir því. Þó svo að fram fari jöfnun á verði kindakjöts við útflutning þarf það ekki að draga úr hvata útflytjenda til að ná sem bestu verði.

Í fyrsta lagi er um mjög fáa aðila að ræða sem geta flutt út eins og áður er nefnt.

Í öðru lagi fer verðjöfnunin fram einungis milli kjöts sem er sams konar og af sömu gæðum. Það leiðir af sér að vistvæn framleiðsla bæri sérverð og sama ætti við um útflutning á mismunandi árstíma, svo sem um páska og um útflutning á mismunandi skrokkhlutum, svo sem lærum og hryggjum og mismunandi gæðaflokkum. Unnið kjöt í neytendapakkningum yrði meðhöndlað sérstaklega og verðjöfnunin gerð út frá því að það skilaði við sameiginlegt uppgjör einungis meðalútflutningsverði fyrir kjöt í heilum og hálfum skrokkum. Skili vinnslan ekki hærra hráefnisverði en óunnið kjöt, er hún tilgangslaus. Skili hún hærra hráefnisverði fellur mismunurinn til hennar annaðhvort til að bæta eigin hag eða sem útborgun til bænda. Engin íhlutun er þar um.

Hér er því fyrst og fremst verið að koma á nauðsynlegu skipulagi útflutnings og haga því svo að allir sitji við sama borð séu þeir að flytja út vöru sem ekki sker sig úr, hvort sem þeim er gert mögulegt að flytja út til Noregs, ESB eða annarra landa. Meginatriðið er að útflutningur á áætluðu magni verður að fara fram svo að ekki leiði til markaðsröskunar innan lands og að nýttir verði hagkvæmustu markaðirnir.

Í þessu samhengi leyfi ég mér að minna á breytingu á búvörulögum frá 11. maí 1994, þ.e. lög nr. 85/1994, en með þeim lögum er ákveðið að landbrh. fari með yfirstjórn á útflutningi landbúnaðarvara. Því er unnt að hlutast til um útflutning á kindakjöti verði þess þörf.

Töluverð umræða hefur verið í þjóðfélaginu um hagsmuni skattgreiðenda við gerð þessa samnings. Þeir sem lengst ganga í þeim efnum telja að ekki eigi að styrkja landbúnaðinn með beinum greiðslum úr ríkissjóði heldur eigi hann að búa við sama starfsumhverfi og aðrar framleiðslugreinar. Í þessu sambandi er á margt að líta.

Eins og áður hefur komið fram hefur dregið stórlega úr framlögum ríkisins til sauðfjárræktar allt frá því að núgildandi búvörusamningur var gerður. Í áætlun samningsins, sem gerð var um hámarksútgjöld ríkissjóðs fyrir og eftir að núgildandi samningur var gerður, var gert ráð fyrir því að útgjöldin féllu úr 4,5 milljörðum kr. á ári árið 1990 í 2,8 milljarða kr. í ár og er þá miðað við núverandi verðlag. Þar með voru talin útgjöld vegna uppkaupasamninga sem gerðir yrðu og kæmu til greiðslu á þessu ári. Þessi áætlun hefur í öllum megindráttum gengið eftir, því eins og kunnugt er eru á fjárlögum í ár áætlaðir 2,7 milljarðar kr. vegna samningsins um sauðfjárrækt. Mismunurinn felst m.a. í nokkru lægra greiðslumarki eða 7.820 tonnum í stað 8.150 tonna sem miðað var við.

Sé litið til þeirrar áætlunar sem fyrirliggjandi búvörusamningur felur í sér um greiðslur ríkissjóðs fram til ársins 2000 má sjá að þá eru ársútgjöldin áætluð 2 milljarðar kr. Útgjaldalækkun ríkissjóðs á þeim rúma áratug sem hér um ræðir er því gífurleg eða 2,5 milljarðar kr. á ári sem svarar til 55% lækkunar. Sé einungis horft til þeirrar lækkunar sem verður á útgjöldum ríkissjóðs til sauðfjárræktarinnar frá fjárlögum ársins í ár, lækka þau á öðru ári samningsins um 5%, á því þriðja verða þau 20% minni en í ár og hvort tveggja síðustu ára samningsins 24% minni og komin í ríflega 2 milljarða eins og áður er nefnt úr 2,7 sem eru í fjárlögum í dag.

Áhrifa þessa gríðarlega samdráttar mun óhjákvæmilega gæta í afkomu bænda, og hefur gert það, afurðastöðva og annarra sem koma að framleiðslu og vinnslu sauðfjárafurða. Í samanburði við aðrar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við munum við færast enn neðar á listann um styrki til landbúnaðar, en það höfum við verið að gera á undanförnum árum, eins og fram kemur i skýrslu OECD sem gefin var út í sumar. Þar kemur fram að á árunum 1986--1988 vorum við í efsta sæti á listanum eins og þar eru mældir styrkir til landbúnaðar, en erum nú komin niður í fjórða sæti.

Það verður líka að skoða hverjir eru hagsmunir heildarinnar. Fólksflótti úr sveitum miðað við það ástand sem er í atvinnumálum í dag gæti líka komið við buddu skattgreiðenda. Má þar nefna auknar greiðslur í Atvinnuleysistryggingasjóð og hugsanlega auknar greiðslur vegna félagslegra vandamála sem geta fylgt búseturöskun og breytingu á atvinnuháttum.

Framleiðsla íslenskra landbúnaðarafurða er íslensk atvinnustefna og þar nýtum við okkur einnig eigin auðlindir og spörum gjaldeyri. Gleymum ekki heldur því að beingreiðslur til bænda, sem einu sinni voru niðurgreiddar á heildsölustigi, tryggja lægra verð til neytenda.

Virðulegur forseti. Ekki verður við þessa 1. umr. farið ítarlegar í að skýra einstakar greinar frv. en vísað til grg. og athugasemda við einstakar greinar sem er að finna í sjálfu þskj. Ég hef í máli mínu reynt að fara yfir stærstu breytingarnar sem samningurinn felur í sér og rætt þau atriði sem helst hafa hlotið gagnrýni og verið til umræðu í þjóðfélaginu að undanförnu. Tími minn er nú alveg á þrotum, virðulegur forseti. Ég hef því ekki tíma og kannski ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. að þessu sinni, en ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til 2. umr. og til hv. landbn.