Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 16:59:21 (477)

1995-10-19 16:59:21# 120. lþ. 17.2 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., GÁ
[prenta uppsett í dálka]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Þeim var ég verst sem ég unni mest, sagði nú ein heiðurskona hér forðum. Þegar ég heyrði hv. þm. Kristján Pálsson, í niðrandi tón, tala um framsóknarmennsku þá kom mér það í hug að nálægt stóð hann mér lengi í Framsfl. og var þar kannski skráður á blað sem einn af meðlimum þess ágæta flokks. Eins sakna ég félaga í stað og undrast á margan hátt málflutning hans hér við þessa umræðu. (Gripið fram í: Var hann ekki í Alþýðubandalaginu?)

Víða hafa spor hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar legið í pólitík og býst hann við að fleiri hafi verið jafnfrjálslyndir og hann sjálfur. (Gripið fram í: Hann var óháður.) Hann er enn óháður, hv. þm.

Hér er búið að halda margar ágætar ræður um þetta frv. sem hér liggur fyrir og þarf litlu við það að bæta. Ég get sagt eins og hv. þm. Egill Jónsson: Ég á sæti í landbn. og mun fá málið þar í hendur og fjalla þar um það af mikilli nærgætni og taka tillit til þess sem menn hafa hér sagt þó ég búist ekki við að um miklar breytingar geti verið að ræða á frv. Enda ekki svo auðvelt að sjá aðrar leiðir en þeir hafa komist að sem svo langan tíma hafa setið yfir þessu erfiða máli. Meginniðurstaðan er auðvitað sú að menn binda á þessari stundu vonir við það að búvörusamningurinn muni auka hagkvæmni og samkeppnishæfni í sauðfjárframleiðslu til hagsbóta fyrir sauðfjárbændur og neytendur. Og í öðru lagi að treysta tekjugrundvöll sauðfjárbænda og að ná jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða og að sauðfjárrækt sé í samræmi við umhverfisvernd, sem hér hefur verið efast um.

Ég er sannfærður um það að sauðfjárbúskapurinn er vírnetið í ákveðnu byggðamunstri á Íslandi og við þurfum talsvert á okkur að leggja til þess að varðveita það vírnet svo að byggðir hrynji ekki í stórum stíl. Fyrir utan hitt að ég tel að við ýmsar aðstæður í veröldinni í dag eigi þessi framleiðsla mikla möguleika ef vel tekst til. Ég geri mér grein fyrir því eins og fleiri að ég veit ekki hvað samningurinn ber í skauti sínu. Ég er ekki sá spámaður að ég treysti mér til þess að spá um það. En ég hygg að það velti mjög á hvernig mönnum tekst að framkvæma hann. Ábyrgðin verður bænda og afurðastöðva og þeim ber að vinna vel að þessum samningi. Það er verið að marka nýja stefnu og nýjar leiðir sem eiga, ef vel tekst til, að geta orðið til hagsbóta fyrir landbúnaðinn og byggðina.

Áður en þessi samningur var gerður blasti við 20% flatur niðurskurður sem hefði verið rothögg á hundruð bænda og byggðarlög. Stjórnmálamenn og forustumenn bænda vildu koma í veg fyrir þetta högg og lögðust þess vegna í þessa samningagerð. Ég tel líka að í samningnum sé fólgin ný framtíð, þótt ég geti auðvitað eins og fleiri gagnrýnt ýmis atriði hans. Ég hef aldrei verið sáttur við hvernig lambakjötið hefur á undanförnum áratug eða svo eitt verið fjötrað í ofstjórn reglugerða og laga, hvernig það eitt hefur verið kvótað meðan hinar kjötgreinarnar hafa verið frjálsar. Því hef ég talið nauðsynlegt að hverfa frá því. Ég viðurkenni að það var neyðaraðgerð þegar menn fóru þessar leiðir miðað við tapaða markaði á erlendum vettvangi og þann mikla samdrátt sem við blasti þess vegna. Ég hef oft hugsað um það eftir að ég varð þingmaður að ef menn vildu gera markaðsátak í lambakjöti þá stóð þessi búgrein með þeim hætti að menn máttu ekki taka skerðingargjald til markaðsátaks nema að spyrja hv. þm. Egil á Seljavöllum, þann er hér stendur, eða hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og alla hina sem hér á þinginu eru um leiðir og setja heimildir í lög til þess að fara í aðgerðir. Þetta gat ekki gengið upp. Og ég hef líka sagt það í sambandi við staðgreiðsluverð --- og það kom hér glöggt fram í ræðu hv. þm. Egils Jónssonar. Afurðastöðvarnar eiga kjötið, sagði hv. þm. Það er rétt. En ég skildi aldrei það kerfi að það væri hægt að rjúfa bændur frá markaðnum. Landbúnaður er atvinnurekstur og hann verður að vera í snertingu við markaðinn og hann verður að hafa þá þjónustulund að þróa sinn atvinnuveg eftir því sem neytandinn óskar. Ég tel að margir þeir fjötrar sem sauðfjárframleiðslan hefur búið við hafi valdið því að menn hafa fjarlægst markaðinn. Auðvitað gat það ekki gengið upp að afurðastöðvarnar ættu kjötið. Sauðfjárframleiðslan varð að búa við sams konar lögmál og svínakjötið og kjúklingarnir enda mun það vera svo að svínakjöts- og kjúklingaframleiðendur hafa haldið verði sínu upp undir verði lambakjötsins, en hafa haft frelsi til þess að gera tilboð, lækka verð og ná þannig markaðshlutdeild af þessari grein. Þannig að ég fagna því, hæstv. forseti, að þessi samningur boðar vissulega nýjan tíma. Og ég vona að mönnum takist vel til við að framkvæma þennan samning og að margt sem í samningnum er megi ganga upp. En um það ætla ég samt sem áður ekki að fullyrða hér. Samningurinn hefur vissulega kosti og galla.

En hér hefur margt komið fram í umræðum. Auðvitað hafa menn minnst á það hér að landbúnaðurinn á mikla möguleika á Íslandi í dag, miðað við þá þróun sem er að verða í heiminum. Og sumir hv. ræðumenn hafa minnst á það að landbúnaðurinn hér verður að búa við svipaðar aðstæður og gerist í nálægum löndum.

Hér var að frumkvæði hæstv. landbrh. haldin merk ráðstefna á dögunum með fólki sem er í lífrænum samtökum. Og hér var sagt úr ræðustólnum í dag að það væri mikill munur á vistvænu og lífrænu kjöti. Ég hitti þetta fólk sem var á þessari ráðstefnu og það sagði að munurinn væri ekki meiri en svo að annað væri A-kjöt, hitt væri B-kjöt og B-kjöt hefði þann eiginleika að verða síðar meir A-kjöt. Því að vera vistvænn væri byrjun á ákveðinni hugsun sem heimurinn gerði kröfur um um þessar mundir. Og síðan mundu menn feta sig lengra þó það sé mjög flókið. Þannig að mér finnst ekki vera mikill munur á þessum tveimur hugtökum hvað þetta varðar. Fyrir utan hitt að hingað hafa komið margir erlendir menn og þeir líta á lambakjötið okkar, sem verður til hér í hreinni náttúru við einstakar aðstæður, sem einstaka afurð sem hljóti að verða eftirsóknarverð. En ég er þeirrar skoðunar að bændur þurfi að taka markaðssetningu sína á erlendan markað miklu fastari tökum. Þeir þurfa að fá til þess, sölusamtök sjávarútvegsins, t.d. Íslenskar sjávarafurðir eða SH sem þekkja mjög vel til markaðssetningar á úrvalsafurðum. Í Danmörku mun það hafa gerst að fiskframleiðendur vildu auka neyslu á fiski og þeir fóru þá leið í markaðssetningu að fela mjólkurbúunum, sem eru mjög harðvítug í markaðssetningu á gæðavörum, að markaðssetja sínar vörur. Hér eigum við sjávarútvegsfyrirtæki með geysilega reynslu. Þess vegna á landbúnaðurinn ekki að dreifa kröftum sínum í þessu, heldur semja við sjávarútvegsfyrirtæki um að markaðssetja þessar heilnæmu vörur frekar en að gera þetta á mörgum stöðum. Ég viðurkenni að mörg fyrirtæki landbúnaðarins eru þar að gera ákveðna hluti í mörgum tilfellum mjög góða.

Hvað peningahliðina varðar býsnast menn mikið yfir 11--12 milljörðum til aldamóta. Við borgum 12 milljarða í vexti samkvæmt fjárlögum á einu ári, hvað til aldamóta. Við borgum 4 milljarða í atvinnuleysisbætur á hverju ári. Kannski verða það 20--30 milljarðar til aldamóta. Þannig geta nú hinir reikningsglöggu menn tekið fyrir fleiri atriði. Og ég vil segja við hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, enginn þekkir Evrópusambandið betur en hann, hv. þm. Hvað skyldi Evrópusambandið setja mörg hundruð milljarða inn í úreltasta landbúnaðarkerfi veraldarinnar sem er í Evrópu? (JBH: Helmingi minna en við.) Til þess að geyma korn í hlöðum, farga afurðum o.s.frv. Mér skilst að yfir 50% af fjárlögum Evrópusambandsins renni til landbúnaðarmála. Ég sé það að Evrópusambandið ætlar að setja 400 milljarða íslenskra króna í fjárfestingu í fiskvinnslufyrirtækjum o.s.frv.

Við Íslendingar höfum aflagt útflutningsbætur en við búum við það að nálæg lönd viðhalda þeim. Ég er alveg sannfærður um það að ef menn ætla að halda þessari byggð og halda hér uppi atvinnu þá verður íslenskur landbúnaður að fá að lifa við svipað kerfi og gerist hér í nálægum löndum. Það er grundvallaratriði.

Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur og stundum finnst manni nú margt ofsagt úr ræðustól Alþingis. Og sagt með stórum orðum eins og þeim að menn séu að drukkna í kindakjöti. Ég hef nú heyrt að menn drukkni í vatni og drukkni í sjó en að drukkna í kindakjöti hef ég aldrei heyrt fyrr. Hún minntist líka á það, hv. þm., að við urðuðum og brenndum kjöti. Þótt nokkrar gamalær á Hólmavík séu brenndar þá er ekki góður matur að farast þó það sé auðvitað harmsefni í sveltandi heimi að þurfa að farga afurðum. En kannski hafa bændur gert of lítið af því að snyrta kjötið betur og henda því sem hefur í rauninni ekkert að gera inn í geymslur eða á borð neytenda. Menn hafa verið að borga hundruð milljóna í geymslugjöld á kjöti eins og ýmsum útskönkum, bringukollum og spiki sem auðvitað á ekkert að fara á markað. Auðvitað á þessi afurð að fara snyrt á markað til neytenda til þess að hrekkja ekki neytendur o.s.frv. Ég bind vonir við það að þetta frv. og þessi búvörusamningur muni leiða það af sér að það fari fram mikil hagræðing í afurðastöðvum. Ég vil sjá afurðastöðvar landbúnaðarins í sláturhúsunum verða að lifandi vinnustöðum þar sem fé er ekki bara slátrað heldur er kjötið líka verkað og því komið í neytendaumbúðir. Við höfum sé hvað hefur gerst í sjávarútveginum. Þar er engin vertíðarstemmning lengur. Menn fara ekki á vertíð og standa upp í klof í fiski. Menn hafa þróað þennan atvinnuveg með þeim hætti að þar er unnin má segja dagvinna við iðnaðarstörf. Við þurfum að sjá sláturhúsunum fækka og með þeim hætti að þar sé varan fullunnin til neytandans. Það held ég að sé mjög mikilvægt. Og ég er sannfærður um það þegar ég lít yfir staðsetningar sláturhúsa, að við getum fækkað þeim stórlega.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þennan samning til viðbótar. Ég vona að samningurinn leiði það af sér að sauðfjárræktin standi sterkari á eftir en áður, verði samkeppnishæfari til þess að keppa á innanlandsmarkaði, ekki síst af því að ég hef minnst á það að hún er vírnetið í ákveðinni byggð.

[17:15]

Hins vegar verð ég að harma málflutning margra manna sem setja þjóðfélagsumræðuna aldrei í samhengi. Því að við lifum hvert á öðru. Við erum öll í sama báti. Og það er mér harmsefni að þeir menn, sem ekki hafa getað samið um lágmarkskaup nema upp á 40--50 þús. handa verkafólkinu, skuli vera sérlega fordómafullir út í landbúnaðinn um þessar mundir, aðilar vinnumarkaðarins og ekki síst þeir sem hafa barist fyrir verkalýðinn sem eiga að skilja það að auðvitað er það verkafólk sem tekur við afurðinni frá bændum og fullvinnur hana og þar eigum við frábært fólk að störfum, bæði í mjólkurbúum og í sláturiðnaði. Og menn verða að minnast þess að ef þeir höggva á þessa taug þá verður ekki friðvænlegt á Íslandi.

Ég vil segja við aðila vinnumarkaðarins: Í dag eru 4 milljarðar settir í atvinnuleysisbætur á ári hverju. Er ekki líklegt, ef svo fer að menn ætla að ganga til stríðs við landbúnaðinn og fara að flytja hér meira inn, eins og mér heyrðist vera hótun frá einhverjum verkalýðsforkólfum eða jafnvel hagfræðingi, sem aldrei hefur verið kosinn til neins innan hreyfingarinnar, að það verði til þess að þetta verði ekki 4 milljarðar heldur 6 eða 7 milljarðar? Við Íslendingar þurfum að standa saman og bændurnir eru einn liður, verkafólkið sem vinnur afurð þeirra er þeim jafnmikilvægt og þeir vilja borga því fólki hátt kaup og það fólk hefur ekki brugðist íslenska landbúnaðinum. Því margt það fólk hefur unnið til glæsilegra verðlauna fyrir afurðir á erlendum vettvangi og það gefur okkur fyrirheit um að við eigum hér ýmsa möguleika í því að gera sauðfjárframleiðsluna og landbúnaðinn miklu sterkari en hann er um þessar mundir.

Ég vænti þess, hæstv. forseti, að Alþingi afgreiði þetta mál hratt og vel. Ég tel að það liggi á að afgreiða það frá þinginu því að það er langt liðið á sláturtíð og þess vegna mikilvægt að menn velkist ekki í vafa um það að þingið stendur að þessum samningi sem ríkisvaldið og bændasamtökin hafa náð.