Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 19:12:10 (488)

1995-10-19 19:12:10# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var skemmtileg ræða. Aldeilis afbragðsgóð ræða. Eina kreppan hjá NATO er sá fjöldi þjóða sem vill komast þar inn, en mér heyrist að það séu bara talsverðar hindranir í vegi að þær fái inngöngu og hv. þm. eyddi miklu af ræðu sinni áðan einmitt til að lýsa þessum stóra vanda. Það væri gott að hv. þm. upplýsti afstöðu sína til þess að hleypa Rússunum inn. Hvað segir hv. þm. um það að hleypa Rússunum inn í NATO? Er hv. þm. reiðubúinn til þess? Eða sér ekki hv. þm. þá þversögn sem er í því að ætla að króa Rússland, sem er að reyna að fóta sig með nýjum hætti, að króa þá af með hernaðarbandalaginu NATO, sem hv. þm. hentar að kalla, ja, vill helst kalla það friðarbandalag og lýðræðisbandalag? Bandalagið sem hefur m.a. innan sinna vébanda Tyrkland, sem við Íslendingar þekkjum nú af ýmsu öðru en lýðræðisást. Ég held að menn ættu að skyggnast með svolítið opnari huga um gáttir í þessu fyrirtæki, í þessu hernaðarbandalagi hinna gömlu nýlenduvelda Evrópu, sem halda þar um þræðina með Bandaríkjunum.