Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 19:31:14 (492)

1995-10-19 19:31:14# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað ástæða til að gleðjast yfir því að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur ekki á dagskrá sinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hitt er jafnframt áhyggjuefni þegar það kemur hér fram í fyrstu skýrslugjörð nýs utanríkisráðherra til Alþingis að meginhindrunin sem hann sér fyrir aðild Íslendinga og helsta hindrunin, sé hin sameiginlega fiskveiðistefna Evrópusambandsins. Og ef henni verði rutt úr vegi, og það ítrekaði hæstv. ráðherra einmitt áðan, ja, þá blasti við alveg ný staða. Hér er sem sagt hæstv. utanrrh. fyrir sína hönd og síns flokks að segja þjóðinni þetta: Við erum alveg til viðræðu um þetta ef þessari hindrun hinnar sameiginlegu fiskveiðstefnu verður rutt úr vegi. Þetta er talsvert annar tónn heldur en forustumaður hins stjórnarflokksins hefur viðhaft, þegar hann valdi þjóðhátíðardaginn til þess að segja Íslendingum að að hans mati værum við að fara 150 ár til baka gagnvart þingræðinu í landinu ef við gengjum inn í Evrópusambandið eins og það stefnir nú. Ég hlýt að harma það að Framsfl. skuli vera opinn þannig í báða enda í þessu máli á sama hátt og hann var í reynd í sambandi við hið Evrópska efnahagssvæði.