Mannanöfn

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 13:53:28 (531)

1995-10-31 13:53:28# 120. lþ. 22.2 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[13:53]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég átti þess kost árið 1991 sem varaþingmaður að taka þátt í umræðu um það mannanafnafrv. sem þá var samþykkt og þá kom ég fram með breytingatillögu við kenninafnagreinina, sem er núna 8. gr. í þessu frv. Þar stendur að kenninafn sé tvenns konar, föður- eða móðurnöfn. Ég lagði til að það mætti vera bæði móður- og föðurnafn, þannig að íslensk börn geti kennt sig bæði við móður sína og föður. Ég tel þetta óskaplega mikilvægt atriði vegna þess að okkar rótgróna nafnahefð er í föðurlegg og það er afskaplega fátítt að hjónabandsbarn sé kennt við móður. Vegna þess að hefðin okkar er svo sterk má segja að verið sé að lýsa ákveðinni vanvirðingu gagnvart föður að kenna barn við móður. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt jafnréttisatriði að börn geti kennt sig við föður sinn og móður, t.d. að mín dóttir fengi að heita Guðnýjar- og Gísladóttir. Ég lét athuga þetta mál árið 1991 og þá fékk ég það uppgefið að þetta væri ekki hægt vegna þess að það tæki svo marga stafi og tölvukerfi Hagstofunnar réði ekki við það. En þetta stæði allt saman til bóta. Ég vil því spyrja hæstv. dómsmrh. hvort að hann viti til að þessi athugun hafi átt sér stað.

Ég mun væntanlega fá möguleika til að fjalla um þetta frv. í nefnd og ætla því ekki að segja miklu meira um það að þessu sinni. En ég fagna sérstaklega þriðja markmiði þess, þ.e. að auka nafnrétt erlendra manna sem hér eru búsettir en ég hef verulegan fyrirvara varðandi margt það sem hv. þm. sem talaði á undan mér ræddi og varðar fyrsta markmiðið að gefa erlend nöfn. En ég vil endilega fá svar við fyrirspurn minni og boða þá breytingartillögu í þessa átt ef það reynist mögulegt.