Mannanöfn

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 14:18:50 (539)

1995-10-31 14:18:50# 120. lþ. 22.2 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[14:18]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég geri aðeins örstutta athugasemd við 12. gr. Eins og ég vék að í máli mínu þá er ég í hópi þeirra sem vilja gjarnan fylgja eins og unnt er þessari íslensku hefð og hugmyndafræði með dóttir og sonur og því kýs ég að vísa til 12. gr. og umsagnar um hana. Þar er þess getið hvernig ákvæði sem kom inn í síðustu breytingum laganna varð og það kveður á um að erlend eiginkona karls sem er Jónsson má því nefna sig Jónsson og erlendur eiginmaður konu sem er Jónsdóttir má á sama hátt nefna sig Jónsdóttir. Þetta er auðvitað afar undarlegt fyrir Íslending að það hafi verið í okkar lögum að John sem giftist Guðrúnu Jónsdóttur megi heita John Jónsdóttir. Þetta er mjög mikið brot á hugmyndafræðinni á bak við sonur og dóttir.

Nú er búið að breyta þessu og með því orðalagi sem lagt er til þá fær eiginmaður konu sem er Jónsdóttir rétt til að nefna sig Jónsson en ekki Jónsdóttir, þannig að John yrði Jónsson og eiginkona karls sem er Jónsson fær á sama hátt rétt til að nefna sig Jónsdóttir. Það er auðvitað til umhugsunar að um leið og við erum að rýmka þessi lög þurfum við að fara þær leiðir að við í raun og veru brjótum það sem liggur að baki því að kenna sig við föður og móður.

Þetta er athugasemd mín, virðulegi dómsmrh.