Veiðar og rannsóknir á smokkfiski

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:22:33 (607)

1995-11-01 15:22:33# 120. lþ. 23.10 fundur 82. mál: #A veiðar og rannsóknir á smokkfiski# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:22]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. um hvernig megi með skipulegum hætti nýta þá möguleika sem að margra mati eru til staðar í hafinu í kringum Ísland. Einn af þeim fiskstofnum sem talinn er nýtanlegur í hafinu er smokkfiskur. Á árunum 1945--1950 voru verulegar göngur smokkfisks í Ísafjarðardjúpi og veiddur með góðum árangri. Ekki er mikið annað sem við höfum gert af því að veiða smokkfisk en hann hefur þótt góður til beitu og eru flutt inn til landsins um 3.000 tonn af honum árlega. Í höfunum eru taldar vera margar tegundir smokkfisks en á Íslandi eru þær átta svo vitað sé. Heimsaflinn er talinn vera um 2,7 millj. tonna árið 1992 og er einhver samdráttur þó í veiðunum á síðustu árum. Í Atlantshafi er það helst við Falklandseyjar sem smokkfiskur hefur veiðst í einhverju magni.

Helstu markaðir fyrir smokkfisk eru í Japan en þeir kaupa og veiða um u.þ.b. 45% af heimsaflanum. Aðrir neytendur eru aðallega Asíuþjóðir, Miðjarðarhafsþjóðir og Bandaríkjamenn. Verð á smokkfiski er misjafnt eftir tegundum en beitusmokkur er t.d. seldur á 70--100 kr. kg en verðið fer eitthvað eftir því hvort hann er veiddur í troll eða á króka.

Sú veiðiaðferð sem skilar mestum gæðum og mestri veiði eru veiðar á króka við ljós. Þær veiðar eru þannig framkvæmdar að mörgum sjálfvirkum færarúllum er raðað eftir endilöngum veiðiskipum sem geta verið um 40--50 metra löng. Mikil lýsing er nauðsynleg við veiðarnar og lýsingin þjónar þeim tilgangi að laða smokkfiskinn að veiðiskipinu og eru notaðar allt að 5.000 vatta perur í þeim tilgangi. Nýjustu gerðir af ljósum eins og halógenljós eru mikið notaðar og það nýjasta eru háþrýst natríalljós en skýrslur sýna að þessi tegund ljósa skilar mestum árangri við veiðarnar. Sagt er að veiðin við Falkland hafi farið allt upp í 30--50 tonn á sólarhring. Smokkur veiddur með þessum hætti er talinn verðmætastur. Veiðar með flottrolli eru einnig mikið stundaðar og fleygir tækninni verulega fram á því sviði. Þar sem það er mögulegt er veitt á króka á nóttunni og með trolli á daginn. Að mínu mati eru til mörg skip í íslenska flotanum sem gætu veitt og fryst smokkfisk til beitu og manneldis ef hann finnst í því magni að veiðarnar beri sig.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá Hafrannsóknastofnun eru verulegar líkur fyrir því að smokkfiskur sé í miklu magni suður og suðvestur af landinu sé miðað við það magn tannhvala sem þar sjást og lifa að mestu á smokkfiski. Smokkfiskur er mjög hraðvaxta tegund og talinn vera í miklu magni um allan heim í höfunum. Einnig hafa fiskifræðingar orðið varir við hitaskil djúpt suður af landinu þar sem sjórinn er allt að 20° heitur sem bendir til þess að þar sé mikið líf enda mikið magn tannhvala á þeim slóðum. Einnig hafa borist fregnir af því að smokkfiskur hafi nýlega ánetjast í troll togara innan landhelginnar þannig að einhverjar líkur eru á að hann sé veiðanlegur innan hennar.

Að mati þeirra sem hafa aflað sér upplýsinga um möguleika okkar Íslendinga á þessu sviði þá vantar sárlega rannsóknir í hafinu svo hægt sé með einhverri nákvæmni að segja til um hvaða smokkfiskur sé hér og hvort hann sé í nýtanlegu magni og hver markaðsstaða hans sé. Að leita eftir þekkingu annarra þjóða á þessu hafsvæði er nauðsynlegt ásamt því að gera okkar eigin grunnrannsóknir. Til þessa þarf könnunarleiðangur rannsóknaskipa og jafnvel veiðiskipa. Að mínu mati gæti hér verið um mikilvæga auðlind að ræða sem mætti nýta ef rannsóknir lægju fyrir og útgerðarmenn sæju arð í veiðunum.

Virðulegi forseti. Af þessum ástæðum hef ég lagt fram þessar fyrirspurnir fyrir hæstv. sjútvrh.