Löndun undirmálsfisks

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:35:34 (611)

1995-11-01 15:35:34# 120. lþ. 23.11 fundur 112. mál: #A löndun undirmálsfisks# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:35]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Af þessu tilefni er rétt að rifja upp að á tímabilinu 1984--1986 var allur smáfiskur utan aflamarks og þá urðu menn varir við að nokkur brögð væru að því að skip legðust í smáfisk. Það var að sjálfsögðu ekki talið að unnt væri að búa við það og árið 1987 var ákveðið að allur smáfiskur yrði talinn með í kvóta. Árangur þeirrar ráðstöfunar var sá að magn af smáfiski sem barst í land minnkaði mjög verulega. Því þótti ljóst að reglur um smáfisk yrðu að vera þannig úr garði gerðar að þær hvorki hvettu til úrkasts né sóknar í smáfiskinn. Niðurstaðan var sú að heimila að 2/3 hlutar af smáfiskinum yrðu ekki reiknaðir til aflamarks ef smáfiskur væri ekki meira en 10% af afla hverrar tegundar. Viðmiðunarmörkin sem voru notuð voru 50 sm fyrir þorsk og ufsa, 45 sm fyrir ýsu og 500 g fyrir karfa. Þessi tilhögun tók gildi 1988 og gilti allt til janúar sl. þegar ákvæðið var fellt úr gildi frá og með 1. febr. og hefur allur fiskur reiknast að fullu til aflamarks þótt hann sé undir ofangreindum mörkum.

Þessi ákvörðun var tekin á grundvelli tillagna frá sérstakri samstarfsnefnd sjómanna, útvegsmanna og ráðuneytisins sem falið var að fjalla um umgengni við auðlindir sjávar. Nefndin var skipuð í maí 1994. Í áfangaskýrslu nefndarinnar, sem skilað var í desember á sl. ári, var lagt til að reglan um að hluti undirmálsfisks teljist til kvóta skuli afnumin. Forsendan fyrir þeirri tillögugerð kemur fram í skýrslunni en þar segir að athuganir hafi sýnt að stór hluti eða allt að 70--80% þess fisks, sem landað er sem undirmálsfiski, standist mál. Nefndin taldi ómögulegt fyrir vigtarmenn að fylgjast með því að reglan sé ekki misnotuð og nefnir í áfangaskýrslunni að löndun netafisks sem undirmálsfisks hafi farið vaxandi. Reglan leiðir því í raun til sjálftöku á kvóta og með tilliti til þess var lagt til af hálfu samstarfsnefndarinnar að hún yrði afnumin. Ráðuneytið fór að þeirri tillögu.

Í júnímánuði í sumar óskaði ég eftir því við nefndina að hún tæki til endurmats þær tillögur sem hún hafði áður lagt fram og komu m.a. fram í frv. sem lagt var fram undir lok síðasta kjörtímabils og jafnframt að hún taki til endurmats þá breytingu á reglum um meðferð undirmálsfisks sem ég hef vitnað til. Nefndin hafði það sem forgangsverkefni að endurskoða frv. og tillögur þar að lútandi liggja fyrir í ráðuneytinu og er verið að vinna að lokaendurskoðun á frv. á grundvelli álits samstarfsnefndarinnar en ég vænti þess að endurskoðun nefndarinnar á undirmálsreglunni muni liggja fyrir ekki síðar en um áramót. Sem svar við fyrirspurninni er rétt að taka skýrt fram að nefndinni var falið fyrr á þessu ári að taka tillögur sínar til endurmats og ég á von á því að niðurstaðan komi nú fyrir áramót og ráðuneytið mun þá skoða hana. Ég ítreka að í samstarfsnefndinni eiga sæti fulltrúar sjómannasamtakanna, útvegsmanna, Hafrannsóknarstofnunar og sjávarútvegsráðuneytisins.