Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 12:45:52 (633)

1995-11-02 12:45:52# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[12:45]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nú skrapp skólamaðurinn fram í hv. þm. Ég var að ræða þetta á pólitískum nótum ekki síður en skólapólitískum. En ég skil vel að upprifjun á hinum sögulega aðdraganda málsins sé afar viðkvæm fyrir framsóknarmenn og mætti þá líka draga fram ræður þeirra þegar þetta frv. var fyrst til umfjöllunar á þingi og aðstaða framsóknarmanna af því var önnur en nú er. Ég er ekki sammála hv. þm. að það sé endilega eðlilegt að binda það í lög, t.d. hvaða bóknámsbrautir skuli vera í framhaldsskólum. Ég er bara það líberal og víðsýnn að ég vil hafa það tiltölulega frjálst. Ef einhver skóli ákveður að taka t.d. upp bókmenntabraut eða fornnámsbraut eða eitthvað því um líkt vil ég að hann geti gert það. (Gripið fram í.) Af hverju er það þegar bundið er í 16. gr. að bóknámsbrautir eru þrjár: tungumálabraut, félagsfræðabraut og náttúrufræðabraut. Er þetta það frelsi sem menn vilja?

Í öðru lagi misskildi hv. þm. mig varðandi atvinnulýðræðið. Ég var að tala um atvinnulýðræði í þeim skilningi að skólinn er vinnustaður. Skólinn er vinnustaður nemendanna og kennaranna og það flokkast undir atvinnulýðræði að þeir geti haft áhrif á vinnustað sínum, á vinnuumhverfi sitt og yfirstjórn skólanna er skólanefndin og þess vegna tel ég að það sé atvinnulýðræði að þar séu fullgildir fulltrúar þessara hópa á vinnustaðnum, kennaranna og nemendanna. (Gripið fram í: En skólaráð?) Jú, skólaráð er til staðar en skólanefndin er samt hinn eiginlegi yfirstjórnandi varðandi mikilsverðustu málin.