Mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 15:49:42 (670)

1995-11-02 15:49:42# 120. lþ. 25.4 fundur 72. mál: #A mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun# þál., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[15:49]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég hélt að ég þyrfti ekki að endurtaka ræðu mína um þetta mál sem ég flutti hér á dögunum en þar taldi ég mig sýna fram á að liðir a og c í þessari ályktunartillögu eru í raun óþarfi miðað við afgreiðslu Alþingis. Síðan er það b-liður, að tryggja almenningi aðgang að alhliða málefnalegum og faglegum upplýsingum. Tillagan um að móta opinbera stefnu í fjölmiðlun hefur sem sagt að markmiði að tryggja almenningi aðgang að alhliða málefnalegum og faglegum upplýsingum. Þetta er allt annað mál heldur en hv. þm. rakti og vitnaði þar til pistils í útvarpinu um fjölmiðla. Þar var alls ekki verið að fjalla um þetta og enginn stuðningur er við þessa tillögugrein í því máli sem fram kom og hv. þm. vitnaði til. Síðan vakti ég sérstaklega athygli á því í umræðunum hér á dögunum og varaði við þeirri setningu sem er hér á bls. 3, með leyfi forseta:

,,Virk fjölmiðlastefna getur því skipt sköpum ef við viljum hafa áhrif á þróunina á fjölmiðlamarkaðnum.`` Hvað er virk fjölmiðlastefna? Það hlýtur að vera einhvers konar íhlutun um það hvað fjölmiðlarnir flytja. Einnig eru spurningarnar hér, liður 1 til 11, spurningar sem lúta að því að menn eru að velta fyrir sér hvernig ríkisvaldið getur hlutast til um innri starfsemi fjölmiðlanna. Það þýðir ekkert að koma svo og lesa upp pistil úr útvarpinu sem fjallar um allt annað mál, eða um þá spurningu hvaða stefnu ríkið hafi varðandi Ríkisútvarpið, eða varðandi upplýsingamiðlun og upplýsingaþjóðfélagið og aðra slíka þætti. Það er allt annað en hér er verið að tala um og kallað er virkt fjölmiðlastarf. Og það er þetta sem ég geri athugasemdir við. Ég held að óvirk fjölmiðlastefna, passíf fjölmiðlastefna, sé skynsamleg og hún sé í raun og veru við lýði á meðan ríkisvaldið er ekki að hlutast til um innri málefni fjölmiðlanna eins og mér sýnist að ætlunin sé ef þetta næði fram að ganga sem hér liggur fyrir. Það var við þessu sem ég varaði og ef menn lesa greinargerðina sjá þeir að þar er verið að velta fyrir sér innra starfi fjölmiðlanna og verið að mælast til þess með einum eða öðrum hætti að ríkisvaldið fari að skipta sér af því innra starfi, hvernig efni er sýnt í fjölmiðlum, hvað er skrifað og hvernig um málefni er fjallað. Það er ekki það sama og að menn fái að vita hvaða stefnu ríkisvaldið hefur varðandi Ríkisútvarpið og þróun upplýsingaþjóðfélagsins. Menn verða að gera grundvallarmun á þessu. Þetta er tvennt ólíkt og þessi tillaga fjallar hvorki um upplýsingaþjóðfélagið né heldur þann starfsramma sem eðlilegt er að skipa Ríkisútvarpið í.