Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 18:08:41 (687)

1995-11-02 18:08:41# 120. lþ. 25.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[18:08]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunum sameinaðist Alþingi um það á sínum tíma að íbúar í hverju sveitarfélagi væru fullvalda um það hvort sveitarfélagið yrði lagt niður eða ekki. Það er grundvallarregla. Með því frv. sem hér er flutt er verið að víkja frá þeirri reglu eins og fram hefur komið í umræðunni.

Hæstv. félmrh. sagði síðan í ræðu sinni áðan að yrði tillagan felld á Ísafirði mundu forsendur málsins breytast í reynd og lá auðvitað í orðunum stærð Ísafjarðar. Þar með er verið að segja að það sé verið að veita einu sveitarfélagi á þessu svæði efnislegt vald umfram öll hin og það sem meira er, tengja það síðan við vald viðkomandi sveitarstjórnar. Grundvallarreglan sem við samþykktum hins vegar á Alþingi var sú að íbúarnir í sveitarfélögunum væru fullvanda þessu máli. Ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst hæstv. félmrh. ekki flytja sannfærandi rök fyrir máli sínu áðan. Það sem meira er, með því að víkja að þessu sérstaka tilviki Ísafjarðar og vera að innleiða efnislega mismunun áður en til atkvæðagreiðslunnar kemur og þetta frv. yrði samþykkt finnst mér gera það að verkum að það sé ekki hægt að samþykkja þetta frv. í þeirri túlkun sem hæstv. ráðherra hefur lagt það fram því að hann er í raun og veru að segja að íbúar Dýrafjarðar, svo ég taki dæmi, hafi ekki efnislega sama rétt í atkvæðagreiðslunni verði frv. samþykkt eins og íbúar Ísafjarðar.