Græn ferðamennska

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 10:45:22 (820)

1995-11-09 10:45:22# 120. lþ. 32.1 fundur 66. mál: #A græn ferðamennska# þál. 66, EKG
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[10:45]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi fagna því að sjá till. til þál. um stefnumótun í ferðamálum með áherslu á ,,græna ferðamennsku``. Ég tel að í raun og veru sé það mjög þörf ábending sem fram kemur í þessari tillögu þó e.t.v. megi velta því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegra eins og fram kom raunar í máli hv. 1. flm. að fella þetta inn í þá stefnumótunarvinnu sem nú er að hefjast á vegum samgrn. fremur en að ræða þessi mál í svona einangruðu umhverfi. Ég tel að það væri eðlilegt vegna þess að öll stefnumótun um ferðamennsku í landinu sem ekki tekur tillit til þeirra áherslna sem fram koma í tillögunni væri auðvitað unnin fyrir gýg vegna þess einfaldlega að ferðamennska á Íslandi sem ekki tæki tillit til þess að verja umhverfi okkar er óhugsandi. Ástæðan fyrir því að fólk flykkist til Íslands er fyrst og fremst sérstaða náttúrunnar, saga landsins að einhverju leyti, en ekki síst sérstaða náttúrunnar og það að okkur hefur þrátt fyrir allt tekist býsna vel við það víða að verja náttúruna. Og við eigum sem betur fer enn náttúruundur sem ekki þekkjast annars staðar, einfaldlega vegna þess að hér er fámenni og ekki sá mikli átroðningur sem er meðal milljónaþjóðanna. Á það hefur t.d. verið bent að í nágrannalandi okkar, Danmörku, er varla nokkur landskiki eftir sem ekki er það sem stundum er kallað manngerður. Mannshöndin hefur nánast komið að öllu því landi sem er í Danmörku og haft áhrif á mótun umhverfisins með einhverjum hætti. Stór hluti Danmerkur, svo dæmi sé tekið, er auðvitað notaður undir landbúnað, vélvæddan nútímalegum landbúnað. Það er tæplega hægt að fara um það fallega og góða land án þess að veita því athygli að mannshöndin hafi með einhverjum hætti komið þar nærri.

Þess vegna er alveg hárrétt sem fram kom í máli 1. flm. og kemur raunar fram í greinargerðinni með tillögunni að sérstaða okkar lands er mikil og það er mjög þýðingarmikið fyrir okkur, ef við ætlum að byggja upp framtíðarferðamennsku hér á landi í svipuðum dúr og við höfum verið að gera á undanförnum árum, að við styðjum við og gætum þess að náttúrufarið í landinu skemmist ekki. Það verður að gerast með þeim hætti að ljóst sé að við höfum upp á þá ósnortnu náttúru að bjóða sem fólk sækist eftir.

Ég vil í þessu sambandi t.d. vekja athygli á því að í fyrra hófu nokkrir ungir menn rekstur kajakþjónustu á Jökulfjörðum við Ísafjarðardjúp sem gengur bókstaflega út á það að flytja hingað til lands ferðamenn frá Bandaríkjunum sem eru að sækjast eftir því að komast í snertingu við ósnortna náttúru. Þeir borga mjög hátt verð fyrir þessa þjónustu vegna þess einfaldlega að í þeirra landi er orðið svo fátt um möguleika á því að kynnast náttúrunni nánast óbeislaðri eins og við sjálum norður í Jökulfjörðum. Það er nákvæmlega það sem þeir eru að sækjast eftir.

Virðulegi forseti. Það er samt sem áður dálítið önnur hlið á þessu máli. Hún er sú að það er mjög auðvelt að ganga of langt í þessa átt á grundvelli prinsippsins um hina ,,grænu ferðamennsku``. Ég hef t.d. heyrt ýmsa talsmenn ,,grænnar ferðamennsku`` tala gegn því sem við sem byggjum landið teljum hluta af almennum framförum, svo sem eins og vegagerð, bættar samgöngur á milli svæða o.s.frv. Það er t.d. ekki langt síðan að fram fór mjög afkáraleg umræða um það hvort byggja mætti brú yfir Gilsfjörð. Sú umræða snerist öll um það að verja einhverja tiltekna fuglategund. (ÖS: Hefur þingmaðurinn eitthvað á móti rauðbrystingi?) Þingmaðurinn hefur ekkert á móti rauðbrystingum frekar en hv. fyrrv. umhvrh. Hins vegar veit þingmaðurinn eins og hv. fyrrv. umhvrh. að möguleikar og lífsrými rauðbrystingsins einskorðaðist ekki við brúarstæði Gilsfjarðar heldur var þarna verið að fjalla um hvort það ætti að byggja landið með eðlilegum hætti og treysta eðlilegar samgöngur og framfarir. Við verðum að gæta þess að þó við viljum verja náttúru landsins og bera virðingu fyrir náttúrufari þess þá megum við ekki undir nokkrum kringumstæðum ganga svo langt að það komi niður á eðlilegum framförum og eðlilegum lífsskilyrðum fólks út um land.

Það er t.d. mjög sérkennilegt fyrir okkur sem búum úti í hinum dreifðu byggðum að heyra talað með þeim hætti maður heyrir stundum, og ég heyrði t.d. á ferðamálaráðstefnu vestur á Núpi sl. sumar, en þar töluðu menn með miklum söknuði um það að verið væri að eyðileggja fjörur landsins með því að færa vegina ofan úr fjallshlíðum niður í fjörurnar. Af hverju skyldu menn leggja vegi um fjörurnar? Það er vegna þess að þar er einfaldlega snjóléttara og auðveldara að komast um. Það kann að vísu að vera eins og mengun í hugum þess fólks sem kemur þarna í mýflugumynd að sumri til og finnst það skemmd á umhverfinu að geta ekki gengið um fjörur landsins. En hvernig á þá að tryggja hagsmuni þess fólks sem á allt sitt undir því að geta komist með eðlilegum hætti um vegi landsins?

Ég á ekki von á því að hv. flm. þessarar þáltill. sem hér er til umræðu hafi það í huga að ganga svo langt í hugmyndum sínum um ,,græna ferðamennsku`` að það gangi út yfir eðlilegar framfarir í landinu eða eðlilega uppbyggingu samgöngumannvirkja. Ég vil einfaldlega benda á að hér, eins og á öllum öðrum sviðum, getur verið vandratað meðalhófið. Þess vegna verðum við þegar við mótum stefnu um ,,græna ferðamennsku`` að hafa ákaflega margt undir og tala um þetta í samhengi. Mér finnst því skynsamlegast að fella áframhaldandi vinnu inn í þá stefnumótunarvinnu sem nú er hafin á vegum samgrn. þannig að við fáum heildstæða mynd af því sem við erum hér að fjalla um.

Svo vil ég líka í þessu sambandi vekja athygli á því sem ég raunar nefndi í umræðum um fyrirspurn sem svarað var af hæstv. samgrh. fyrir nokkrum vikum að stefnumótunarvinnan í ferðamennsku er auðvitað hafin og hefur auðvitað átt sér stað út um landið á einstökum svæðum. Sú stefnumótunarvinna sem hefur t.d. átt sér stað á Vestfjörðum og víðar hefur auðvitað tekið tillit til hugmyndanna um ,,græna ferðamennsku`` vegna þess að ferðamennska úti í hinum dreifðu byggðum er óhugsandi nema sem hluti af ,,grænni ferðamennsku`` þar sem ferðamenn sækja fyrst og fremst í náttúruundrin, söguna og það sem landið hefur upp á að bjóða. Ferðamennska á Vestfjörðum mun ekki snúast um tívolí eða fína veitingastaði, það geta menn sótt einhvers staðar annars staðar. Ferðamennska á Vestfjörðum mun fyrst og fremst snúast um möguleikana á því að sjá hina stórbrotnu náttúru sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða.