Græn ferðamennska

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 11:43:40 (832)

1995-11-09 11:43:40# 120. lþ. 32.1 fundur 66. mál: #A græn ferðamennska# þál. 66, TIO
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[11:43]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í máli hæstv. samgrh. fellur efni þeirrar þáltill., sem er nú til umræðu, mjög vel að því stefnumótunarstarfi sem hafið er á vegum ráðuneytisins. Ég ætla ekki að gera þessa annars ágætu þáltill. að umræðuefni lengi en koma inn á örfá atriði sem ég held að skipti máli í þessari umræðu.

Ég held að það hafi verið rétt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að skýra mál sitt betur áðan vegna þess að það kom fram í máli hennar, sem hún hefur leiðrétt núna, að erlendir ferðamenn kæmu ekki til landsins til þess að kynnast menningu þjóðarinnar. Hún sagði réttilega að þeir hefðu almennt komið hingað til að kynnast náttúrufegurð landsins, það er hárrétt. Í þessu sambandi held ég að rétt sé að undirstrika að kannanir benda eindregið til þess að sá hópur ferðamanna, sem hefur áhuga á menningu og vill kynnast náið þeim þjóðum sem hann ferðast til, fer vaxandi. Má segja að öll þau atriði sem hv. þm. benti á að ætti að bæta úr hér koma til móts við þennan hóp ferðamanna sem fer vaxandi. Það ber einnig að geta þess að ferðamynstur manna hefur breyst verulega á undanförnum árum. Í stað þess að áður tóku menn frekar eitt frí, sem stóð kannski þrjár vikur, brjóta menn niður frítímann allt niður í þrisvar og fjórum sinnum eftir því hvernig aðstæður eru og skipta frítímum sínum oft milli t.d. sólarlanda og svo ferða sem mætti segja að væru þá meira menningarferðir.

[11:45]

Einnig er áberandi að sá hópur ferðamanna, sem hefur allrúm fjárráð leggur áherslu á einmitt þessi mál. Að því leyti fellur þessi tillaga sem hér er til umræðu vel að þessum áhersluatriðum að það sem hefur verið kallað ,,græn ferðamennska``, en aðrir kalla vistvæna ferðamennsku snertir einmitt ákveðna hugmyndafræði sem er fólgin í því að athygli og áhugi ferðamannsins beinist fyrst og fremst að því menningarsamfélagi sem hann er að heimsækja. Hann vill valda þar sem minnstum glundroða og leggur áherslu á að þetta menningarsamfélag sé kynnt fyrir honum á eðlilegan hátt.

Ef við lítum á það sem hefur verið gert undanfarið vil ég taka fram að stefnumótun í ferðamennsku er ekki stjórnvalda sem slíkra eingöngu. Stefnumótun fer fram í ferðamennsku innan fyrirtækja og hjá sveitarfélögum en að sjálfsögðu líka hjá ríki og það skiptir mjög miklu máli að stefnumótunarvinna uppfylli tvö skilyrði: Fyrir það fyrsta þarf stefnumótunarvinna á vegum opinberra stjórnvalda að vera viðvarandi verkefni. Það skiptir þess vegna ekki mestu máli að setja markið hátt einu sinni með gífurlegum skjalabunka á Alþingi heldur skiptir mestu máli að við búum til farveg fyrir stefnumótunina þar sem hún er í sífelldri endurskoðun. Ég kem að þessu nánar í sambandi við þingmál, sem ég er 1. flm. að hér á eftir, sem fjallar um rannsóknir í ferðamennsku. En það er mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að stefnumótunarvinnan er viðvarandi verkefni og þar af leiðandi fer að skipta miklu máli hvaða verkfæri menn hafa til að móta stefnuna. Það er rétt að stjórnvöld læri í þessum efnum af fyrirtækjum og það er nú svo að til allrar hamingju búum við Íslendingar við þær aðstæður að við eigum fyrirtæki sem hafa burði til þess að vinna stöðugt að stefnumótun. Þessi fyrirtæki í ferðaþjónustu eru ekki mörg, þau eru allt of fá, sem eyða miklum tíma í stefnumótun, sem ráða sérhæfða starfskrafta í stefnumótun en til allrar hamingju eru þau til. Það fer ekki milli mála að innan þessara fyrirtækja hefur árangurinn sýnt sig. Ég er að sjálfsögðu einkum að tala um Flugleiðir og ég held að það sé mjög gagnlegt fyrir þingheim að gera sér grein fyrir því hversu árangursrík stefnumótunarvinna hefur verið unnin innan Flugleiða og í hvaða sess þeir hafa komið sér í ferðamálum nú á síðari árum. Þeir eru eitt af þeim flugfélögum sem hafa upp á einna mest gæði að bjóða í flugflotanum og þeir hafa gerbreytt uppbyggingu á leiðakerfi sínu og eru með á prjónunum nú um þessar mundir mjög athyglisverðar hugmyndir um stefnumörkun.

Ég vil einnig geta þess af því að hér kom sérstaklega til umræðu að ferðaþjónusta okkar væri óvinsamleg barnafjölskyldum að það kann mikið að vera til í þessu. En ég vil undirstrika að ef við tökum það bæjarfélag sem ég þekki best til, Akureyri, þá er þar sérstakt útvistarsvæði sem er hannað sérstaklega með þarfir barna í huga og vinna við þetta útivistarsvæði hefur staðið yfir í meira en tvo áratugi. Þar hefur að vísu mikið verið unnið núna síðustu 10 árin en það er veruleg fjárfesting sem bæjarfélagið og einstaklingar í sjálfboðavinnu hafa lagt út í og hún miðar öll að því að búa til mjög vinsamlegt umhverfi fyrir barnafjölskyldurnar, ekki síst fyrir ferðafólk en að sjálfsögðu líka fyrir héraðsbúa.

Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þess að ég held að það sé mjög mikilvægt að menn átti sig á því að á Íslandi hefur orðið mikil fjárfesting í ferðaþjónustunni. Ég mun leggja fram upplýsingar á eftir um ákveðið misvægi í fjárfestingunni, sem er áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga, en við höfum bæði á vegum sveitarfélaga og vegum ríkisins fjárfest mikið í grunngerð ferðaþjónustunnar og erum með áætlanir um að fjárfesta enn meira í þessari grunngerð. Það er afar mikilvægt að við gerum skipulegar áætlanir um það hvernig við ætlum að fá arðsemi út úr allri þessari fjárfestingu. Ég sé á hagtölum, sem eiga væntanlega flestar rætur að rekja til Þjóðhagsstofnunar og birtar eru á erlendum vettvangi, m.a. á vettvangi OECD, að út úr þeim má lesa að við væntum okkur minni arðsemi út úr allri þessari fjárfestingu og minni atvinnusköpunar en aðrar þjóðir gera. Þetta held ég að sé mjög mikið umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga, þ.e. að skoða annars vegar hversu mikið við erum að fjárfesta í ferðaþjónustu í gegnum grunnfjárfestingu okkar og hversu miklar væntingar við höfum um arðsemi af þessari fjárfestingu því að það skiptir sköpum um lífskjör okkar í framtíðinni að við náum verulega mikilli arðsemi út úr henni.