Aðgerðir til stuðnings íbúum Austur-Tímor

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 12:02:50 (834)

1995-11-09 12:02:50# 120. lþ. 32.3 fundur 60. mál: #A aðgerðir til stuðnings íbúum Austur-Tímor# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[12:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins fáein orð. Ég vil þakka hv. þingmanni og hv. þingmönnum Kvennalistans fyrir að taka upp þetta mál. Það er enginn vafi á því að á Austur-Tímor ríkir skelfilegt ástand og þetta ástand hefur því miður verið eitt af gleymdu óhreinu málunum í heimspólitíkinni um langt árabil. Sem betur fer örlar nú á því að athygli heimsins sé að beinast að ástandinu á þessum slóðum, en einhvern veginn er það svo að það er eins og sum stríð, sum vandamál og sumar hungursneyðir komist í tísku en aðrar ekki. Stundum virðist nánast tilviljanakennt hvað ræður því að augu vestrænna fjölmiðla beinast að slíkum vandamálum á einum stað en ekki öðrum. Það er alla vega ekki ljóst að lengi vel var ótrúlega hljótt um allar þær skelfilegu hörmungar sem gengu yfir íbúa Austur-Tímor og þar hefur án efa haft sitt að segja að sökudólgurinn, Indónesíustjórn, Indónesíuher, hefur sterk ítök og góð pólitísk sambönd og samskipti við öll helstu leiðandi ríki á Vesturlöndum. Reyndar er það svo að tvískinnungurinn og hræsnin í alþjóðastjórnmálunum verður kannski óvíða betur ljós en í þessu máli ef við berum saman hvernig hin skelfilega ógnarstjórn, sem ríkt hefur í Indónesíu um langt árabil, ekki bara núna í tíð Suhartos hershöfðingja heldur þeirra sem á undan honum fóru, hefur beitt fólskulegu ofbeldi gegn t.d. öllum stjórnarandstæðingum í Indónesíu svo ekki sé nú talað um framkomuna við ýmsa nágranna eins og þjóðina á Austur-Tímor. Allan þennan tíma og þrátt fyrir þetta stjórnarfar hafa Vesturlönd haldið uppi fullum pólitískum samskiptum við Indónesíu, nánast undantekningalaust, stundað þar viðskipti og ekki talið, að því er séð verður, neitt sérstaklega athugavert við það.

Ég leyfi mér, herra forseti, að bera saman framgöngu Vesturlanda annars vegar í samskiptum við Indónesíu og hins vegar Írak. Ætli það sé nú ekki þannig að framganga Indónesa gagnvart Austur-Tímor sé í raun og veru nánast á allan hátt verri og fólskulegri heldur en þó innrás Íraka í Kúveit var. En þá stóð ekki á viðbrögðunum. Þá stóð aldeilis ekki á fordæmingu Vesturlanda og þá var fundinn óvinur sem tilefni var til að fara gegn með hervaldi, leggja Sameinuðu þjóðirnar undir ályktanir gegn þessu ofbeldi sem Kúveitum var sýnt, auðvitað af hálfu Íraka. En þegar alsaklaus þjóð sem er að losna undan nýlendukúgun Evrópuþjóðar, eins og Tímor í þessu tilviki, verður síðan fyrir fólskulegri innrás og stendur nánast frammi fyrir þjóðarmorði, þá er ekkert gert. Bókstaflega ekki neitt.

Þarna held ég, herra forseti, að tvískinnungurinn og hræsnin í framgöngu Vesturlanda í svona málum verði nú einna dapurlegastur og eru þess þó mörg dæmi. Það vill svo til, herra forseti, að ég dvaldi í þessum heimshluta þá örlagaríku daga sem þjóðin á Austur-Tímor mætti þessum örlögum sínum og átti samskipti við fólk sem varð landflótta vegna þessara atburða, bæði í Nýja-Sjálandi og Ástralíu. Mér hefur ætíð síðan runnið til rifja hversu erfiðlega hefur gengið að fá umheiminn til að taka á þessu vandamáli og horfast í augu við að það er gjörsamlega óþolandi að samfélag þjóðanna sitji aðgerðalaust hjá þegar þjóðarmorð af þessu tagi á sér stað. Er það virkilega svo að siðferðisþroski okkar sé enn á því stigi að af því að hér á fjarlæg þjóð í hlut og fyrrv. nýlenda Evrópumanna, þá sé þetta ástand réttlætanlegt en væri hún nær okkur eða ætti einhver þau auðæfi sem við værum að ásælast svo sem eins og olíu, þá væri sjálfsagt að taka fram byssurnar?

Ég þakka hv. þm. fyrir að taka þetta mál upp. Ég hef sjálfur minnt á það hér á þingi oft á undanförnum árum í tengslum við umræður um utanríkismál og ég fagna því að það skuli hérna komin fram tillaga sem Alþingi getur fjallað um og vonandi afgreitt til þess að herða á íslenskum stjórnvöldum að leggja þessu máli lið á alþjóðavettvangi. Og ber þó að taka það fram sem er virðingarvert í þessu tilviki að það er í sjálfu sér ekkert upp á íslensk stjórnvöld að klaga varðandi afstöðu til þessa máls. Hún hefur frá byrjun verið sú að mótmæla innrás Indónesa og reyna að styðja þannig við bakið á íbúum Austur-Tímor. Ég vona svo að hv. utanrmn. afgreiði þessa tillögu og vilji Alþingis fái að koma í ljós í samþykkt hennar innan skamms.