Ríkisreikningur 1994

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 12:12:25 (897)

1995-11-16 12:12:25# 120. lþ. 33.6 fundur 129. mál: #A ríkisreikningur 1994# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[12:12]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ræða mín mun verða stutt að þessu sinni en umræður um ríkisreikning fyrir árið 1994 hafa snúist upp í almenna pólitíska umræðu um markmiðið í ríkisfjármálum og er ekkert nema gott um það að segja.

Sá reikningur sem hér er til umræðu sýnir ekki nógu góða niðurstöðu svo ekki sé meira sagt. Allar þær umræður sem hafa verið hér hníga að því að ná hallalausum rekstri ríkissjóðs á tveimur árum. Það er nauðsynlegt markmið og það er nauðsynlegt að það haldi.

Erindi mitt í ræðustól var fyrst og fremst að taka undir það sem hefur komið fram varðandi hagnað ríkissjóðs af væntanlegu álveri. Það er ekki ástæða til þess að fyllast bjartsýni og útgjaldagleði vegna þessara væntanlegu tekna.

Tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 1996 er um 120 milljarðar kr. og Þjóðhagsstofnun hefur reiknað það út og gert um það spá að hagnaður ríkissjóðs af stækkun álversins á næsta ári ætti a.m.k. að ná u.þ.b. hálfum milljarði kr. þannig að þetta er innan við 0,5% af tekjum ríkissjóðs á næsta ári. Tekjuáætlunin um 120 milljarðar kr. byggir á ákveðnum forsendum um aflabrögð á næsta ári. Sérfræðingar Þjóðhagsstofnunar hafa tjáð okkur að þessi spá sé varfærin þannig að tekjur vegna álvers eiga að styrkja forsendur fjárlaga en þetta er nánast innan skekkjumarka. Það er því engin ástæða til þess að fyllast einhverri útgjaldagleði vegna þess þó að vissulega ætti þetta að auka líkurnar á því að við getum staðið við þau markmið sem við höfum sett okkur og það væri þá engin goðgá ef hallinn lækkaði ef eitthvað verður afgangs og allar forsendur fjárlaga standast.

[12:15]

Ég vil að það komi fram við þessa umræðu að ég vara sérstaklega við því tali að nú séu fullar hendur fjár þótt þessar jákvæðu fréttir um tekjur hafi borist. Við stöndum einnig höllum fæti varðandi tekjuöflun. Ég er þeirrar skoðunar að skattheimta sé komin út á ystu mörk og þá ekki síst jaðarskattar fólks. Þeir þurfa sérstakrar skoðunar við þannig að við höfum því miður ekki úr miklum fjármunum að spila.

Að lokum vil ég taka undir það að þær breytingar sem gerðar hafa verið á uppsetningu ríkisreiknings og sundurliðunum sem fylgja honum í sérstöku hefti eru mjög gagnlegar. Upplýsingar sem þingmenn og aðrir sem þurfa á ríkisreikningnum að halda til fróðleiks um ríkisreksturinn eiga að vera mun aðgengilegri og skýrari í þessum reikningi en verið hefur. Markmiðið er að áframhald verði á því og næsti ríkisreikningur verði enn betri en þessi er til aflestrar fyrir þorra fólks sem þarf á þessum upplýsingum að halda.