Tryggingagjald

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 12:50:59 (903)

1995-11-16 12:50:59# 120. lþ. 33.7 fundur 134. mál: #A tryggingagjald# (atvinnutryggingagjald o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[12:50]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að þessi tillaga sem hér er sett fram er mjög einföld. Hún er flatur viðbótarskattur 0,5% á alla, stóra og smáa, en ég kem almennt með varnaðarorð um það að við skulum ávallt gera skattbreytingar af ýmsu tagi á þessum tímapunkti og sjá ekki afleiðingarnar nægilega fyrir.

Ég tel að það ætti að skoða hvernig það hefði komið út að vera með mismunandi skattprósentu á þessum stærri fyrirtækjum og þeim smærri. Það verður að leita leiða til að örva þau samtímis því að eigendur þeirra skili einstaklingssköttum sínum en ég vil taka fram að það er ekki tillaga mín að sameina prósentuna tryggingagjaldinu. Á því er of mikill munur og í raun liggja allt of flókin viðhorf að baki. En þegar verið er að hreyfa gjald eins og tryggingagjaldið þá hefði ég talið að væri ekki óeðlilegt að skoða hvort það ætti að vera einhver hreyfing innan þessara tveggja stofna og einnig hvort endilega sé rétt að vera með prósentuskiptinguna eins og hún er þarna sett fram. Það er mín spurning. Flumbrugangurinn á sér oftar stað í flóknari skattamálunum en því miður viðgengst hann hjá okkur.