Tryggingagjald

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 12:52:44 (904)

1995-11-16 12:52:44# 120. lþ. 33.7 fundur 134. mál: #A tryggingagjald# (atvinnutryggingagjald o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[12:52]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að það mætti hugsa sér að hafa hreyfingu á milli þessara tveggja hlutfalla og í raun hefur Alþingi fallist á það grundvallaratriði. Það hefur gerst a.m.k. tvisvar að ákveðnir fyrirtækjaflokkar hafa verið fluttir á milli skatthlutfalla í tryggingagjaldinu, auðvitað í bæði skiptin úr hærra þrepinu í það lægra. Í bæði skiptin var gengið þannig frá málum að hlutfallið hækkaði við það þannig að tekjutapið varð ekkert. Ég sé fyrir mér að það sem getur gerst í framtíðinni er að smám saman færast fyrirtækin í eitt og sama hlutfall.

Fyrst minnst var á sveitarfélögin sem þurfa að greiða 70 millj. eins og aðrir atvinnurekendur í þennan skatt, sem gefur á ársgrundvelli einn milljarð, og 900 millj. á næsta ári, þá ber að geta þess að ríkið borgar auðvitað verulega fjármuni sjálft eða um 200 millj. sem ætti að koma til lækkunar en ekki er leyfilegt að ganga þannig frá reikningum að blanda gjöldum saman við tekjur þegar um þetta er rætt. Það er eins með ríkið og sveitarfélögin að það gildir sama máli með þau eins og fyrirtækin að verið er að greiða af launakostnaði fyrirtækjanna.