Bifreiðagjald

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 13:46:37 (909)

1995-11-16 13:46:37# 120. lþ. 33.10 fundur 137. mál: #A bifreiðagjald# (upphæð gjalds og ákvörðun þess) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[13:46]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um bifreiðagjald. Í þessu frv. eru lagðar fram nokkrar breytingar á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frv. er lagt til að upphæð bifreiðagjalds verði ákveðin í lögunum og felld brott heimild ráðherra í 5. gr. laganna til að hækka bifreiðagjald með reglugerð í réttu hlutfalli við vísitölu byggingarkostnaðar. Til að gera þessa breytingu mögulega eru í 1. gr. frv. fjárhæðir þær sem koma fram í lögunum hækkaðar til samræmis við hækkun bifreiðagjalds 1. júlí 1995. Ekki er gert ráð fyrir hækkun á gjaldinu. Í framtíðinni verður það því hlutverk löggjafans að ákveða hækkun bifreiðagjalds. Hér er um að ræða sömu stefnu og er annars staðar í stjórnarfrv. af svipuðu tagi. Það er með öðrum orðum verið að frysta skattfjárhæðina þannig að ekki komi til hækkunar á næsta ári. Síðan munu breytingar fylgja breytingum sem gerðar verða á lögunum á hverjum tíma.

Í 2. gr. frv. er lagt til að eindagar bifreiðagjalds verði færðir fram um einn mánuð. Breyting þessi er lögð fram til að auðvelda innheimtu, minnka álag á skoðunarstöðvum og aðlaga innheimtu gjaldsins að þörfum gjaldenda. Í dag er framkvæmdin með þeim hætti að tímabilið milli gjalddaga og eindaga eru tveir mánuðir. Hefur þetta fyrirkomulag verið mjög erfitt í framkvæmd þar sem óheimilt er að skoða bifreiðar á þessu tímabili samkvæmt lögunum nema gjaldfallið bifreiðagjald hafi verið greitt þótt það sé enn ekki fallið í eindaga. Því er lagt til að stytta tímann á milli gjalddaga og eindaga og heimila skoðun bifreiða á þeim tíma þótt bifreiðagjaldið hafi ekki verið greitt. Það er nýlunda.

Sú breyting er lögð til í 3. gr. frv., jafnframt því að heimila skoðunarstöðvum að skoða bifreið þótt bifreiðagjald hafi ekki verið greitt fram að eindaga, að skýr afstaða er tekin til þess að óheimilt sé að skrá eigendaskipti að bifreið hafi gjaldfallið bifreiðagjald ekki verið greitt. Ég vil undirstrika, gjaldfallið bifreiðagjald, jafnvel þótt það sé ekki fallið í eindaga. Tilgangur þessara breytinga er að tryggja betri innheimtu bifreiðagjalds og koma í veg fyrir að kaupendur bifreiða lendi í að þurfa að greiða bifreiðagjald sem lagt var á fyrri eigendur, en nokkur brögð hafa verið að því.

Aðrar breytingar eru minni háttar og skýra sig að mestu sjálfar.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.