Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 15:27:29 (921)

1995-11-16 15:27:29# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[15:27]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu eitt stærsta skattalagafrv. ríkisstjórnarinnar á haustþinginu og lýsir það betur en trúlega nokkuð annað frv. að fjárlögunum frátöldum þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað og hyggst fylgja eftir varðandi skattheimtu og ríkisfjármál. Eins og fram hefur komið í ræðum manna fyrr í umræðunni standa nokkur atriði upp úr og eru helst til umfjöllunar. Þó má ekki gleyma því að það eru fleiri atriði í frv. sem erfitt er að leggja mat á að svo stöddu og ekki var gerð sérstaklega grein fyrir í framsöguræðu ráðherra nema þá að takmörkuðu leyti og verða öllum þeim atriðum að sjálfsögðu gerð rækileg skil í efh.- og viðskn. Sum af þeim atriðum eru kynnt þannig að um sé ræða tæknilegar breytingar en það er ástæða til þess að hafa varann á sér þegar málið er kynnt með þeim hætti. Það hefur áður gerst að menn hafa kynnt nokkuð stórfelldar breytingar með svo sakleysislegum orðum og þegar málið hefur verið athugað nánar hefur komið í ljós að stórum málum hefur verið hreyft án þess að framsaga gæfi tilefni til að ætla að svo væri.

Ég vil því hafa allan fyrirvara á afstöðu okkar alþýðubandalagsmanna til einstakra breytingartillagna í frv. sem eru ekki sérstaklega ræddar í þessari umræðu án þess þó að í þeim fyrirvara felist einhver sérstök andstaða gagnvart þeim tillögum heldur er einfaldlega sleginn sá varnagli að þau þurfi að athuga gaumgæfilega áður en að kveðið er endanlega upp úr með afstöðu til þeirra.

[15:30]

En það sem hæst stendur eru þau áform ríkisstjórnarinnar að afnema verðtryggingu eða verðlagsuppbætur á réttindakafla launþega eða þeirra sem fá greiðslur frá ríkissjóði eða öðrum skyldum sjóðum. Það er kynnt með þeim rökum að verðbólgan sé orðin svo lág að ekki sé ástæða til þess eða þörf á því vegna þeirra sem bótanna eiga að njóta að viðhafa slíkar verðlagsuppbætur eða lögbundnar breytingar. Ég bendi á það sem fram kemur í frv. í greinargerð um þetta atriði á bls. 6. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þessar aðstæður hafa nú breyst.`` --- Þ.e. verðlagsforsendur í þjóðfélaginu. --- ,,Verðbólgan er nú komin á svipað stig og í helstu nágrannaríkjum okkar og því eru ekki lengur rök fyrir sjálfvirkri verðuppfærslu.``

Gott og vel. Ef þetta er stefna ríkisstjórnarinnar og sú skoðun sem sett er fram í nafni ríkisstjórnarflokkanna varðandi verðuppfærslu, þá hlýtur sú skoðun að eiga jafnframt við aðra hluti en þá sem tengjast fjárlagafrv. beint. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnin muni afnema verðlagsuppfærslu eða verðtryggingu á útlánum úr bankakerfinu og öðrum fjárfestingarlánasjóðum? Miðað við þau rök sem ég hef vitnað til er ekki annað að skilja á hæstv. ríkisstjórn en að það sé engin þörf á verðtryggingu lána.

Ég hef sjálfur þurft að greiða af lánum. Ég var einn af þeim sem glaptist á að kaupa íbúðarhúsnæði á árinu 1983 þegar sömu flokkar og nú sitja í ríkisstjórn voru að taka við stjórnartaumunum og hefja kjörtímabilið. Þeir byrjuðu á því að afnema verðuppfærslu á launum eins og það mundi heita núna, þ.e. verðbætur á laun voru afnumdar en lánskjaravísitalan fékk að hækka að vild þeirra sem hana ákveða, eða eftir þeim reglum sem hún var reiknuð. Þetta þýddi að hlutfall þarna á milli raskaðist verulega og kaupmáttur launa minnkaði um fjórðung. Margir lentu í því að skuldbindingar sem þeir höfðu stofnað til urðu þeim ofviða. Mörg þúsund manns stóðu skyndilega frammi fyrir því að skuldir sem þeir höfðu tekið að sér að greiða í þeirri trú að þeir réðu við afborganir höfðu gjörsamlega breyst. Þeir réðu ekki lengur við afborganir lánanna og urðu annaðhvort að selja eða gera aðrar ráðstafanir til að geta haldið húsum sínum. Þessa sögu þekki ég sjálfur af því að ég lenti í þessu og hef baslast í þessu á annan áratug. Mér þætti nokkur fengur í því ef þeir flokkar sem bera ábyrgð á því að setja þessar klyfjar á mörg þúsund launamanna lýstu því yfir núna að þeir ætluðu að afnema verðtrygginguna á útlánunum. Miðað við greinargerðina í þessu frv. hljóta þeir að ætla að gera það, það er engin þörf verðtryggingu vegna þess að það er svo mikill stöðugleiki! Ég bíð spenntur eftir að heyra hæstv. fjmrh. lýsa því hér yfir að stöðugleikinn sé orðinn svo mikill að hann eigi líka að ná yfir skuldirnar, en ekki bara útgjöld ríkissjóðs. Að það eigi ekki bara að afnema verðbætur á útgjöld ríkissjóðs heldur líka á útgjöld heimilanna. Okkur sem skuldum enn allmikið og hefur gengið illa að greiða niður höfuðstól skuldar vegna verðuppfærslu, þætti nokkur slægur í því ef á þessu yrði breyting og við sæjum nú fram á að borga niður skuldirnar, að greiðslur okkar rynnu til þess að borga niður vexti og höfuðstól en ekki til að greiða vexti og verðuppfærslu.

Ef einhver alvara væri hjá hæstv. ríkisstjórn með atriði það sem ég vitnaði til úr greinargerðinni þá væri um að ræða verulega kjarabót fyrir þann hluta þjóðarinnar sem skuldar, t.d. vegna húsnæðiskaupa.

En því miður hef ég ekki séð nein teikn eða merki þess að ríkisstjórnin hyggist láta stöðugleikann ganga yfir annað en útgjöld ríkissjóðs. Ég er því miður ekki bjartsýnn á að textinn sem hér er í frv. eigi við annað en það sem að ríkissjóði lýtur.

Það sem ég get tekið undir í frv. að meginefni til er sú viðleitni að takmarka skerðingu vegna tekna, skerðingu á barnabótum og barnabótaauka. Ég tel að sú viðleitni í frv. um að setja einhvers konar hámark á skerðingarnar, svonefnt hámark á jaðarskatt, sé af hinu góða. Það má deila um hvar menn dragi mörkin í þessu efni en að mínu viti er það skref í rétta átt að setja inn í lög eitthvert þak á samanlagðar skerðingar vegna tekjutengingarákvæða á bótagreiðslur, hvort sem þar er um að ræða barnabætur, vaxtabætur eða aðrar bætur sem koma frá hinu opinbera.

Hins vegar verð ég að segja að það eru nokkur vonbrigði fólgin í því hversu lítil þessi viðleitni virðist vera þrátt fyrir allt. Það er að vísu nokkur bót að þessu, en þó minni en ég hafði gert mér vonir um. Engu að síður þykir mér rétt að vekja athygli á því að ég held að ríkisstjórnin sé á réttri leið hvað þetta varðar og vænti þess að við meðferð í þingnefnd takist að styrkja þetta ákvæði frekar og vísa ég þar til málflutnings sem við alþýðubandalagsmenn höfum haft uppi undanfarið eitt og hálft ár um takmarkanir á skerðingarákvæðum.

Í öðru lagi er ég sammála því að framlengja sérstakt hátekjuskattþrep í tekjuskattslögunum og hefði að ósekju mátt framlengja það lengur en hér er lagt til og hafa það hærra.

Mér er nokkurt undrunarefni að sjá hversu litlum tekjum ríkissjóður hyggst ná inn með þessu ákvæði eða aðeins um 300 millj. kr., m.a. vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram fyrst þegar lagt var til að taka þetta upp, en þá var áætlað að þessi skattur gæti gefið um 500 millj. kr. Það er því ljóst að hann virðist rýrari en upphaflega var gert ráð fyrir. Mér sýnist að skýringin hljóti a.m.k. að hluta til vera sú að þetta er eina upphæðin í frv. sem tekur verðbreytingum. Það er, getum við sagt, það hámark tekna sem menn mega vinna sér inn án þess að þurfa að borga 5% hátekjuskatt. Allar aðrar upphæðir í frv. eru frystar á síðustu tölu, þannig að þar er um að ræða óbreytta tölu frá núverandi ástandi, hvort sem um er að ræða vaxtabætur, barnabætur, persónuafslátt eða sjómannaafslátt. En þegar kemur að hátekjuskattinum á að lögfesta aðra tölu og hún tekur því verðuppfærslu eins og það heitir á máli hæstv. fjmrh. Mér sýnist að hækkunin sé um 11%, menn byrja með öðrum orðum að borga hátekjuskatt af tekjum umfram fjárhæð sem er 2.806 þús. kr. hjá einstaklingi í stað 2.494 þús. eins og það var við síðustu álagningu. Þær hækka um 311 þús. kr. eða um 11% sýnist mér, fljótt á litið. Það er athyglisvert og sýnir kannski hug ríkisstjórnarinnar til þess hvernig hún vill dreifa byrðunum að þetta er eina fjárhæðin sem tekur breytingum. Það verður að draga það sérstaklega fram og gagnrýna að ríkisstjórnin frystir persónuafsláttinn í krónutölu. Þar sem gert er ráð fyrir kauphækkunum ásamt verðbólgu þýðir sú frysting að allar krónur sem viðkomandi launþegi fær vegna kauphækkana á næsta ári og eru umfram núverandi persónuafslátt lenda í skattheimtu. Það er verið að skerða bæturnar með því að lækka frítekjumarkið sem þýðir að það er skattlagning á tekjur niður á við í stað þess að sækja sér auknar tekjur með því að taka þær af efri hluta teknanna. Það sýnir að menn vilja sækja tekjur ríkissjóðs í lægri tekjur launþeganna. Þetta er mjög athyglisverð stefna en í þessu felst auðvitað ákveðin pólitísk yfirlýsing núverandi ríkisstjórnarflokka um áherslur í skattamálum.

Það getur varla orðið mikill friður um það í þjóðfélaginu þegar ríkissjóður þarf að afla sér aukinna tekna, sem hann að vísu þarf að gera, að þá skuli hann gera það með því að seilast í tekjur sem áður voru undanþegnar skatti, þ.e. lækka skattmörkin. Ég hygg að gegn þessari stefnu verði mjög hart brugðist, bæði af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna og verkalýðshreyfingarinnar.

Þá var spurst fyrir um fjármagnstekjuskattinn, hvað væri að frétta af honum. Það er von að spurt sé, því ekki er gert ráð fyrir honum í þessu fjárlagafrv. Ríkisstjórnin hefur einhvern tímann áður minnst á að hún ætlaði sér að reyna að taka upp þennan skatt. Meira að segja lýsti ríkisstjórnin því yfir vorið 1993 í tengslum við kjarasamninga að skattur yrði lagður á fjármagnstekjur frá og með 1. jan. 1994 og yrði þá miðað við 10% skatt á nafnvexti sem yrði innheimtur í staðgreiðslu. Þetta var yfirlýsing ríkisstjórnarinnar, rúmlega tveggja ára gömul, um að þessi skattur væri væntanlegur 1. jan. 1994. Hann er enn ókominn. Og ég vil bætast í hóp þeirra sem spyrja hæstv. fjmrh. um þennan skatt, hvers vegna í ósköpunum það gangi svona illa að koma honum á. Ráðherrann hefur sýnt á undanförnum fjórum árum að hann er verulega fær í því að finna leiðir til nýrra skatta og getur verið afar snöggur í þeim aðgerðum að hækka skatta til að ná auknum tekjum í ríkissjóð. Og hann sýnir það t.d. núna að hann er hvergi banginn við að sækja auknar tekjur ofan í vasa þeirra láglaunuðu, án þess jafnvel að hafa lofað neinu slíku við gerð kjarasamninga! Hann gerir það bara óumbeðinn án nokkurra yfirlýsinga. En einhverra hluta vegna tekst honum ekki að standa við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem nú er orðin tveggja og hálfs árs gömul, enn bólar ekkert á henni.

[15:45]

Það er dálítið merkilegt og umhugsunarefni hvað sumt reynist mönnum þungt í skauti og væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra segði okkur frá því hverjir það eru sem standa í vegi fyrir þessum góðu áformum ríkisstjórnarinnar. Er það stjórnarandstaðan sem hamast á móti þessu máli eða er það verkalýðshreyfingin? Ekki er það Framsfl., ég trúi því ekki. Alþfl. er farinn. Fróðlegt væri að vita hver það er sem stendur svona á móti þessu máli að það haggast ekkert þrátt fyrir að ríkisstjórnin öll hafi gefið út skriflega yfirlýsingu um að hann muni verða tekinn upp 1. jan. 1994. Það var ekkert ef eða kannski, humm eða ha. Samt gengur þetta ekki neitt. Það er ekki einu sinni að mönnum takist að samræma þetta við löggjöf í öðrum löndum á hinu Evrópska efnahagssvæði. Eins og þeir muna sem voru hér á síðasta kjörtímabili varð að samræma allt EES og menn urðu að breyta öllum lögum fram og til baka því við máttum ekki vera öðruvísi en EES sjálfur í hinum og þessum málum. En það hefur ekki dugað til að ná fram þessu háleita markmiði ríkisstjórnarinnar. Það gæti kannski verið að stjórnarandstaðan mundi hjálpa ríkisstjórninni við að flytja þetta mál. Ef það gengur svona illa að skrifa niður lagatextann ættu að vera einhver ráð með að hjálpa henni við að koma þessu í frumvarpsform og flytja það fyrir ríkisstjórnina því ég efa ekki að það mundi ekki standa á stuðningi, a.m.k. allra ráðherranna, við það mál. Ég býst við að stjórnarandstaðan sé meira en reiðubúin til að hjálpa hæstv. fjmrh. í þessu efni ef það eru einhver vandamál sem hann ræður ekki við sem valda því að ekki tekst að ná þessu markmiði.

Virðulegi forseti. Ég hygg að ég láti þetta gott heita sem innlegg af minni hálfu inn í umræðuna um þetta þingmál. Ég endurtek að lokum að það eru nokkuð mörg atriði sem lagt er til að verði tekin upp eða gerð breyting á og ekki hefur gefist ráðrúm til þess að skoða til hlítar allar þær breytingar og því hef ég a.m.k. fyrirvara á afstöðu minni af minni hálfu til þeirra atriða.