Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 12:51:56 (992)

1995-11-17 12:51:56# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[12:51]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Mér finnst umræðan sanna enn frekar en hún hafði gert þá er ég fékk orðið fyrr, að við erum afskaplega stutt á veg komin. Auðvitað er það svo að ef menn vilja koma í veg fyrir verslun með veiðiheimildir, þá er hægt að stilla af slíkt kerfi veiðigjalds, það er einn möguleikinn. Málið er náttúrlega að við þurfum að byrja á því að koma okkur saman um hverju við viljum ná fram. Við getum verið sammála um þau grundvallarsjónarmið að hér sé um réttlætismál að ræða og við getum verið sammála um að það geti verið efnahagsleg nauðsyn að setja slíkt gjald á. Síðan eru ýmsir fleiri þættir sem menn þurfa að vega og meta og þessari nefnd er ætlað að gera, og hún mun væntanlega komast að þeirri niðurstöðu sem heillavænlegust er fyrir þjóðina. Mér finnst það mjög miður að í umræðunni í dag skuli helsti andmælandi veiðileyfagjaldsins, hæstv. sjútvrh., koma fram í málinu með slíka útúrsnúninga og dylgjur um tilgang eða hagsmuni tiltekinna einstaklinga að mál hans verður marklaust. Það er mjög slæmt. Það er vont fyrir þessa umræðu vegna þess að það þarf að fara í hana með öðrum hætti. Og það ætti hæstv. sjútvrh. að skilja best af öllum.

Ég hefði talið eðlilegra að hann kæmi fram til þess að gæta annars vegar hagsmuna greinarinnar, hagsmuna útvegsins og hins vegar sem hæstv. sjútvrh. fyrir alla þjóðina, einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem á að gæta hagsmuna hennar í þessu máli. Ég tel mig málsvara hagsmuna þjóðarinnar í þessu máli, en jafnframt hagsmuna útvegsins. Það eru hagsmunir útvegsins að það náist ákveðin sátt um fiskveiðistjórnunina. Sú sátt er ekki fyrir hendi. Ef hæstv. sjútvrh. vildi tala fyrir útveginn og það fiskveiðikerfi sem hann vill standa vörð um, þá hefði hann átt að taka öðruvísi á málum í þessari umræðu.

Það er auðvitað svo að fjöldinn allur af útgerðaraðilum er sammála því að taka þurfi upp veiðileyfagjald. Hvaða útgerðaraðilar eru þetta? Þeir sem hafa talað svo í mín eyru eru fyrst og fremst þeir sem vilja standas vörð um kvótakerfið. Ekki í óbreyttri mynd vegna þess að þar þarf að sníða af ýmsa galla. Þegar hæstv. sjútvrh. er að tala um að flm. þessa frv. séu ofstjórnarmenn, ætti hann að byrja á því að líta í þann grasagarð sem lögin um stjórn fiskveiða er og eins og þau hafa þróast undir hans handarjaðri. Þar er ofstjórn, ef eitthvað er ofstjórn. Þeir sem vilja standa vörð um fiskveiðistjórnunina eiga að hugsa sig um og ef hæstv. sjútvrh. vill standa vörð um kvótakerfið og telur að það séu jafnframt hagsmunir útgerðarinnar, þá hefði hann átt að tala öðruvísi og varlegar. En hugsanlega heldur margur mig sig og orð sem hann lét falla fyrr í umræðunni benda til þess að hann gangi einhverra allt allt annarra hagsmuna, og það væri þá fróðlegt að það kæmi fram.

Hæstv. sjútvrh. talaði fjálglega um það áðan að það skipti okkur miklu máli að sjávarútvegurinn stæði sig það vel að fjölbreyttur iðnaður gæti blómstrað í kringum hann. Hæstv. sjútvrh. veit nákvæmlega jafn vel og ég að blómlegur iðnaður í kringum sjávarútveginn verður ekki áfram nema menn kunni svör við því hvað á að gera við þann fiskveiðiarð sem er að myndast í greininni og mun vonandi aukast á næstu árum.

Undanfarin 3--4 ár hefur gengið verið lágt skráð, það hefur árað illa í sjávarútvegi og gengisskráningin hefur verið þannig að það hefur fleira fengið að þrífast en sjávarútvegurinn. En þegar betur fer að ára, á þá það sama að gerast og hefur gerst áður? Á raungengið að hækka? Á sjávarútvegurinn að drepa af sér aðrar greinar, líka hinn blómlega iðnað? Og á síðan að fella gengið og við byrjum á hringekjunni upp á nýtt? Ég vil fá svör við þessu. Ég vil fá að sjá hver er framtíðarsýnin, hvernig menn ætla að bregðast við. Ætla menn að láta þetta yfir okkur ganga eina ferðina enn eða hvar er hagstjórn á Íslandi á vegi stödd? Er hún bara stödd í kringum eitthvað sem heitir þjóðarsátt um fryst laun? Á hún ekkert að vera merkilegri? Ætla menn ekki að taka á þessum málum? Mér þykir ágætt að heyra að það eru ekki allir í flokki sjútvrh. sammála þeirri einsýni og þeim þvergirðingshætti, liggur mér við að segja, sem fram kom í hans máli. Menn eru líka opnir í umræðunni og þess þurfum við við. Við þurfum að leita leiða og við þurfum að gefa svör við þeim spurningum sem fólkið í landinu spyr.