Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 14:52:16 (1027)

1995-11-17 14:52:16# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[14:52]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vottorð frá félögum hv. þm. sanna ekki neitt í málinu. Ég get áreiðanlega fengið vottorð frá starfsmönnum ráðuneytisins sem voru á fundum um það sem þar fór fram. Yfirlýsing forseta bæjarstjórnar í Keflavík á fundi þar eitthvað í þá veru, ég hef hana ekki við höndina, að hún ætli ekki að segja hvað gerðist á fundinum en að segja síðan í framhaldi af því eða áður, að hún geti þó sagt að ráðherrann hafi þar blásið á sína eigin undirskrift verður vægast sagt ekki skilin öðruvísi en eigin lýsing á því sem þar gerðist og er náttúrlega algjör misskilningur. Það sýna fundargögn sem ég hef farið yfir. (Gripið fram í.) Það var sagt í allt öðru samhengi vegna þess að sá sem hér stendur var að undirstrika að þetta mál snýst ekki um undirskriftir. Það snýst um það hvort fólk er tilbúið til að gera breytingar á fyrri áformum vegna þess að peningar eru ekki nægir og til þess að fá húsnæði í not fyrr en ella. Um það snýst þetta mál.

Ég spyr hv. þm.: Ber að skilja orð þingmannsins þannig að það komi ekki undir nokkrum kringumstæðum til greina að byggja þetta hús með þeim hætti að það komist í not fyrr þannig að menn standi þá uppi með áfanga sem hægt er að nota í stað 1. áfanga sem ekki er til neins nýtur? Er vonlaust að búast við því að Suðurnesjamenn geti fallist á einhverjar breytingar á þessari byggingu? Er engin leið til þess? Ber að skilja það svo að það eigi að hanga á þessu máli hvað sem tautar og raular og hvað sem skynseminni líður?