Lokun þverbrautar á Patreksfjarðarflugvelli

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 15:02:38 (1084)

1995-11-20 15:02:38# 120. lþ. 35.1 fundur 80#B lokun þverbrautar á Patreksfjarðarflugvelli# (óundirbúin fsp.), ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur


[15:02]

Ólafur Hannibalsson:

Herra forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. samgrh. hvort það sé rétt sem mér barst til eyrna í morgun að þverbrautinni á Patreksfjarðarflugvelli hafi verið lokað fyrirvaralaust. Þessi þverbraut hefur verið mjög mikilsverður liður í öryggismálum Patreksfirðinga og má m.a. minna á það að eftir snjóflóðin 1983 var þetta brautin sem var opin og gerði björgunarsveitum kleift að koma svo fljótt á staðinn sem raun bar vitni og það eru margir fleiri sem eiga þessari þverbraut líf sitt að launa. Sá sem sagði mér frá þessu átti m.a. þverbrautinni líf sitt að launa og segir að hann hafi spurst fyrir um þetta hjá flugmálastjóra en fengið þau svör að hann hefði ekki hugmynd um þessa lokun og þetta uppátæki væri algerlega á ábyrgð flugvallastjóra Vestfjarða.

Ég spyr hæstv. samgrh. hvað hann getur sagt um þetta mál og vil aðeins bæta því við að nú fer vetur í hönd og við höfum séð hvernig hann getur lagst að á Vestfjörðum. Í staðinn fyrir að loka þverbrautinni ætti að framlengja hana nú þegar upp í 1.100 metra til þess að hún sé fær um að taka við björgunarsveitum hvenær sem er.