Móttöku- og hlustunarskilyrði útvarps og sjónvarps í Grundarfirði

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 15:12:18 (1090)

1995-11-20 15:12:18# 120. lþ. 35.1 fundur 82#B móttöku- og hlustunarskilyrði útvarps og sjónvarps í Grundarfirði# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur


[15:12]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þetta er of tæknilegt mál til þess að ég geti svarað því hér og nú hvort unnt er að bregðast við þessum óskum. Ef það hefur ekki verið gert og þær eru rökstuddar hlýtur það að vera flókið og vandasamt mál fyrir Ríkisútvarpið að gera það þannig að ég get ekki svarað fyrir það í þessu tilviki og þarf að afla mér betri upplýsinga.

En ég vil nota tækifærið til þess að varpa ljósi á þá staðreynd að fram kom í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem var unnin að beiðni fjárln., að hún gerir athugasemdir við það hvernig staðið hefur verið að uppbyggingu dreifikerfis útvarps og sjónvarps og telur að það sé unnt að fara aðrar leiðir en gert hefur verið í því efni. Það þurfi nánari samvinnu á milli Pósts og síma og Ríkisútvarpsins um dreifikerfið, bæði til þess að gera það öflugra og einnig til þess að gera að hagkvæmara. Eftir að þessi skýrsla lá fyrir hef ég rætt um það við hæstv. samgrh. að rétt væri að huga að því máli og stuðla að því að þessar tvær öflugu ríkisstofnanir ynnu saman þannig að bæði yrði bestu tækni beitt við að koma efni á framfæri og einnig yrði það gert með hagkvæmasta hætti. Ef slíkar umbætur, sem ég tel nauðsynlegt að standa að, verða til þess að treysta stöðu útvarps- og sjónvarpsnotenda í Grundarfirði tel ég að unnt væri að ná þeim árangri samhliða. En ég lít þannig á eftir þá skýrslu sem liggur fyrir og alþingismenn hafa vafalaust kynnt sér frá Ríkisendurskoðun að brýnt sé að huga að heildarmálum útvarpsins og sjónvarpsins varðandi dreifingarkerfið og þá að nánara samstarfi Pósts og síma og Ríkisútvarpsins.