Síldarsamningar við Noreg

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 16:00:50 (1109)

1995-11-20 16:00:50# 120. lþ. 36.91 fundur 91#B síldarsamningar við Noreg# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[16:00]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. síðasti þm., Guðný Guðbjörnsdóttir, sagði. Ég tel að það sé eðlilegt að úthafsveiðinefnd verði kölluð saman til þess að ræða þetta mál. Ég tel líka rétt að rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra að í vor lýsti hann því yfir aftur og aftur að hann mundi leggja sig allan fram um að hafa sem best samráð við utanrmn. um þessi mál og óska sérstaklega eftir yfirferð um þessi Hamre-módel sem hann virðist algjörlega fastur í. Sú yfirferð hefur aldrei komist á innan nefndarinnar. Það kann vel að vera að það stafi af því að það voru nefnilega tvö Hamre-módel og annað reyndist svo fáránlegt að því var fleygt. Ég veit að hæstv. ráðherra veit þetta af því að hann gjörþekkir Hamre-módelin, eins og ætíð hefur komið fram í umræðum um síldina.

Það er svo að þegar maður horfir yfir feril þessarar ríkisstjórnar í þeim málum sem lúta að fiskveiðum í úthafinu, þá er alveg sama hvar borið er niður, það er allt í rúst. Það er búið að draga hæstv. ráðherra á asnaeyrunum varðandi síldarsamninginn. Flæmski hatturinn var auðmýking fyrir Íslendinga og við vitum öll hvernig málin standa varðandi þorsksmuguna í Barentshafi. Maður veltir fyrir sér hvaða stefnu hæstv. ráðherrar hafi. Hún birtist kannski í því að þegar hæstv. sjútvrh. segir að það sé vissulega dálítill þvergirðingur í Norðmönnum og hann telur afstöðu Rússa neikvæða, þá veltir hann því fyrir sér hvort það geti verið að þeir vilji ekki semja við okkur. Með öðrum orðum, þegar Norðmenn eru búnir að segja honum að þeir taki ekki mark á rökum hans, búnir að segja honum að þeir ætli að ákveða kvótann einhliða, búnir að segja honum að Íslendingar geti í rauninni étið það sem úti frýs, þá sest hann niður og kemst að þeirri niðurstöðu að það geti verið að það séu ekki neinir samningar í nánd.

Auðvitað er það svo, hæstv. sjútvrh., að með framferði sínu síðustu vikur og síðustu daga eru Norðmenn í rauninni að lýsa því yfir að þeir ætli ekki að taka mark á okkur, alveg eins og þeir tóku ekki mark á okkur í fyrra. Og ég vil að lokum segja, herra forseti, eftir hina ágætu ræðu hv. þm. Ólafs Hannibalssonar, að það var bara eitt sem var rangt í henni. Hann sagði að við hefðum komist að samkomulagi við Færeyinga í fyrra um kvóta. Það var ekki svo. Af þeim 900 þúsund tonna kvóta sem þá var samþykktur tóku Norðmenn 650 þús. og hæstv. ráðherra, sem þarna situr, kyssti á vöndinn og þáði afganginn.