Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 16:06:26 (1111)

1995-11-20 16:06:26# 120. lþ. 36.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[16:06]

Frsm. meiri hluta félmn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta félmn. um frv. til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Húnboga Þorsteinsson skrifstofustjóra og Sesselju Árnadóttur deildarstjóra frá félagsmálaráðuneyti, Jón G. Tómasson ríkislögmann og Þórð Skúlason, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fulltrúar félagsmálaráðuneytisins upplýstu að tilmæli um þá málsmeðferð sem lögð er til í frumvarpinu væru komin frá sveitarstjórnum þeirra sex sveitarfélaga á Vestfjörðum þar sem greiða á atkvæði um sameiningu. Upplýsingar lágu fyrir um að samstarfsnefnd allra sex sveitarfélaganna samþykkti samhljóða á fundi sínum 23. september sl. tillögu um að yrði tillaga samstarfsnefndarinnar um sameiningu ekki samþykkt í öllum sveitarfélögunum, en þó með meiri hluta greiddra atkvæða í a.m.k. 2 3 þeirra, væri hlutaðeigandi sveitarstjórnum heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga sem samþykkt hefðu sameininguna. Í kjölfarið var tillagan síðan samþykkt í sveitarstjórnunum. Sveitarfélögin, sem hér um ræðir, eru Þingeyrarhreppur, Flateyrarhreppur, Mosvallahreppur, Mýrahreppur, Suðureyrarhreppur og Ísafjarðarkaupstaður. Atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaganna var upphaflega fyrirhuguð 11. nóvember 1995, en henni hefur verið frestað til 2. desember nk. Rökstuðningur samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna sex fyrir því að óska eftir þessari lagabreytingu kemur fram í fundargerð nefndarinnar frá 23. september með eftirfarandi hætti:

,,Ástæða þess að samstarfsnefndin gerir þessa tillögu til sveitarstjórnanna er sú að nefndin er sammála um nauðsyn þess að af sameiningu umræddra sveitarfélaga geti orðið og það sem fyrst. Fjárhagur, íbúaþróun, bættar samgöngur og ótal fleiri þættir knýja mjög á um að um þetta mál náist góð samstaða.

Það er mat samstarfsnefndarinnar að sá möguleiki sé vissulega fyrir hendi að íbúar eins eða tveggja sveitarfélaga geti fellt tillögu nefndarinnar. Að óbreyttum lögum yrði þá að hefja nýja tillögugerð og efna til nýrra kosninga. Flest bendir til að verulegur dráttur yrði á því að kosið yrði um nýja tillögu og vafamál að umboð samstarfsnefndarinnar yrði framlengt af viðkomandi sveitarstjórnum. Ef af setningu framangreinds lagaákvæðis yrði sem heimilaði undanþágu frá 109. gr. sveitastjórnarlaga væri sá möguleiki opinn að orðið gæti af sameiningu þeirra sveitarfélaga þar sem tillagan hefði verið samþykkt. Mat samstarfsnefndar er að þetta gæti leitt til sameiningar nokkurra sveitarfélaga. Í þeirri stöðu verður að gera ráð fyrir því að viðkomandi sveitarstjórnir hæfu strax samráð um hvernig málum þeirra sveitarfélaga yrði skipað á næsta ári, a.m.k. fram til þess dags er kosið yrði til nýrrar sveitarstjórnar í nýju sveitarfélagi.``

Meiri hluti félmn. tekur undir þessa eindregnu ósk heimamanna og mælir því með að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu að í stað orðanna ,,11. nóv. 1995`` komi: 2. des. 1995. Undir þetta rita Einar K. Guðfinnsson, Kristján Pálsson, Magnús Stefánsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson og Rannveig Guðmundsdóttir, en hv. þm. Pétur H. Blöndal og Arnbjörg Sveinsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.