Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 17:48:32 (1128)

1995-11-20 17:48:32# 120. lþ. 37.3 fundur 146. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þingseta ráðherra) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur


[17:48]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. sem hér er borið fram. Þetta er eins og að hitta ættingja sem maður hefur ekki séð lengi því að þessi hugmynd hefur verið áður til umræðu í Alþingi, og reyndar innan margra stjórnmálaflokka. Ég minnist þess að þetta var eitt af þeim málum sem voru á stefnuskrá Bandalags jafnaðarmanna á sínum tíma og flutt var í þingsölum. Þetta hefur líka verið rætt í öðrum flokkum.

Grunnhugmyndin, sem kom skýrt fram í framsögu flm., er aðskilnaður framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þetta er mjög brýnt efni hérlendis vegna þess að það eru fá lönd þar sem þessum tveimur valdþáttum er blandað jafnmikið saman og er hér. Það er til lausn á þessu. Ég minntist á Bandalag jafnaðarmanna, en nú eru nú 12 ár síðan það fór um héruð með stefnu um beina kosningu framkvæmdarvalds. Þar var annar ættingi sem ég hitti fyrir, þegar ég hlustaði á ræðu hv. þm., Viktors Kjartanssonar, varðandi beina kosningu á framkvæmdarvaldi.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta væri fyrirkomulag sem hentaði okkur Íslendingum mjög vel. Við höfum fordæmi, þó með ólíkum hætti sé, í Bandaríkjunum og Frakklandi. Þar er framkvæmdarvald kosið beinni kosningu, þótt það sé með nokkuð ólíkum hætti. Þetta hentar okkur vegna þess að í reynd er Alþingi framkvæmdarvaldsþing. Alþingi er ekki mjög mikið löggjafarþing, þó svo að hér séu afgreidd lög. Flestir hv. þingmenn sem hér eru sækja eftir að komast á Alþingi, ekki til að setja lög eða leikreglur í þessu þjóðfélagi, heldur til að hafa áhrif á framkvæmdarvaldið. Þeir gera það með ýmsum hætti. Sumir verða ráðherrar, aðrir komast í margvíslegar stöður á vegum framkvæmdarvaldsins og flestir þingmenn reyna að ota sínum tota fyrir hönd sinna kjördæma, í langflestum tilvikum hvað framkvæmdarvaldið varðar, en hugsa mun minna um um að setja leikreglur eða hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, sem er eitt aðalhlutverk löggjafarvalds. Það er lítið um það hérlendis.

Við vitum að þingnefndirnar eru ekki sérstaklega virkar. Afgreiðsla í nefndarstörfum er oft mjög sjálfvirk. Það yrði vafalítið til bóta ef ráðherra gæfi reglubundið skýrslur í þingnefndum og nefndum gæfist betra ráðrúm að vinna sjálfstætt að málum, m.a. eftirlitsþættinum. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að styrkja löggjafarvaldið á kostnað framkvæmdarvaldsins, þ.e. að ráðherrar verði ótvírætt fulltrúar framkvæmdarvaldsins en ekki löggjafans og það styð ég.

Hér var nefnt áðan varðandi beina kosningu framkvæmdarvalds hvort við ættum að nota tilefnið núna, vegna forsetakosninganna, til að hugleiða það mál. Ég tel sjálfsagt að velta því upp því að eitt af því sem mér finnst dálítið merkilegt við íslensku stjórnarskrána er að forseti Íslands hefur mjög mikið vald sem framkvæmdarvaldsaðili. Hins vegar hefur sú hefð myndast í tíð fjögurra forseta að hann beitir ekki þessu stjórnarskrárvaldi sínu til afskipta í framkvæmdarvaldinu eins og hann gæti gert. Það fer eftir forsetum hverju sinni. Hins vegar hefur skapast ákveðin sátt um framkvæmd forsetaembættisins, það á að vera óvirkur aðili varðandi framkvæmdarvaldið, og það virðist ríkja nokkuð mikil sátt um það fyrirkomulag að forsetinn sé kjörinn þjóðhöfðingi. Menn gætu farið þá leið að kjósa forsrh. í beinni kosningu eins og tillögur voru um á sínum tíma, það er hægt að útfæra það á ýmsan hátt. Ég held að þetta frv. gefi einmitt tilefni til að huga að störfum á Alþingi. Það er dálítið merkilegt að þegar þing var kosið í apríl komu inn nokkuð margir nýir þingmenn. Sömuleiðis í kosningum þar á undan. Þeir rifja það stundum upp, eldri þingmenn í þinginu, að það eru ekki margir eftir af þeim sem sátu hér á þingi fyrir u.þ.b. 8 eða 10 árum. Langflestir eru nýkjörnir, eða hafa setið á þingi í eitt kjörtímabil. Samt hefur sáralítið breyst í starfsháttum þingsins. Það er eins og nýju þingmennirnir, ég og allir hinir, föllum einhvern veginn inn í það gamla kerfi sem er hér fyrir. (Gripið fram í: Varst þú ekki á þingi 1978?) Jú, jú, ég var á þingi 1978--1979 svo að ég hef kannski vissan samanburð fram yfir marga aðra. Og í reyndinni hefur ekki mjög mikið breyst í starfseminni, þó svo að það séu varla nema fjórir til fimm þingmenn sem nú sitja sem sátu á þeim tíma.

Það er eitthvað að hjá okkur nýju þingmönnunum, nema við séum mjög ánægðir með núverandi fyrirkomulag. Það má vera, en ég er það ekki. Ég vona að við ætlum ekki að láta þessa umgjörð um þingstörfin, sem að mörgu leyti er gamaldags, móta hug okkar allan, en þessi umræða sem hér á sér stað er einmitt talandi dæmi um hana. Klukkan er að verða sex, hér sitja örfáir þingmenn í salnum og við erum að ræða um frv. til breytinga á stjórnarskrá Íslands. (Gripið fram í: Allir nýir nema tveir.) Allir nýir nema tveir. Einmitt. Hér kemur þingmaður fram með breytingu á æðstu löggjöf okkar, fyrsta frv. þess efnis hér í þingsölum í vetur. Hér ætti hvert sæti að vera skipað og menn ættu að skiptast á skoðunum um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. En flestir fóru út, eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir vakti réttilega athygli á áðan. Ég held að þetta sé tilefni til endurmats. Við þurfum náttúrlega að hugsa út frá því að við erum löggjafarvaldið, við þurfum að hugsa fyrir því að tryggja bæði fjárhagslegt sjálfstæði þingsins og aðstöðu þingheims. Þetta hefur breyst nokkuð til batnaðar, en það er ýmislegt sem betur má gera.

Auðvitað getum við tekið umræðuna í víðara samhengi eins og hér hefur verið rætt um. Ég vil benda á hugmyndir okkar í Þjóðvaka. Við viljum fækka þingmönnum. Við nefndum meira að segja tölu fyrir síðustu kosningar. Þetta var þó ekki neitt kosningamál. Við vildum fækka þingmönnum niður í 50 samhliða því að það yrði stokkað upp í kjördæmamálunum og atkvæðisréttur jafnaður frekar. Við lögðum til að það yrði sérstakt stjórnlagaþing sett á laggirnar til þess að setja Íslandi stjórnarskrá þar sem m.a. yrði tekið á þessum valdþáttum og skipulagi þeirra. Sú hugmynd fékk ekki hljómgrunn, en í sjálfu sér er uppstokkun á þessum þáttum nauðsynleg.

Við höfum sömuleiðis ásamt mörgum öðrum lagt áherslu á að þingmenn eiga að vera þingmenn löggjafarvaldsins og eiga ekki að hafa afskipti af framkvæmdarvaldinu. Ég tel því að þetta frv. sé mjög gott tilefni til að standa að breytingum á samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Í frv. er tekið á afmörkuðum þætti. Það er hægt að taka til fleiri, en ég held að fyrsta skrefið í þessu sé að við ræðum þetta. Jafnvel þótt við náum kannski ekki mjög fjölmennri umræðu um þetta í þingsölum, hvet ég þá þingmenn sem hér eru að taka það til umfjöllunar með formlegum hætti í sínum þingflokkum, hvort það sé ekki kominn tími til að við þingmenn förum að velta þessum hlutum fyrir okkur á alvarlegan hátt. Það er nú einu sinni vinnan okkar að sitja á hinu háa Alþingi og við eigum að sjá til þess að henni sé sinnt á sem allra bestan hátt.