Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1994

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 11:21:45 (1237)

1995-11-23 11:21:45# 120. lþ. 40.4 fundur 97#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1994# (munnl. skýrsla), GHall
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[11:21]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur fyrir greinargerð hennar. Ég hjó eftir því sérstaklega að hún talaði um að umboðsmaður Alþingis hefði getið þess að stundum gætu mál dregist óeðlilega á langinn vegna þess að honum bærust svör seint og illa. Í 9. gr. laga um umboðsmann Alþingis frá 20. mars, nr. 13/1987, segir m.a., með leyfi forseta:

,,Nú ákveður umboðsmaður Alþingis að taka til meðferðar kvörtun á hendur stjórnvaldi og skal þá strax skýra stjórnvaldinu frá efni kvörtunarinnar nema hætta sé á að rannsókn kunni að torveldast af þeim sökum.

Jafnan skal gefa stjórnvaldi, sem kvörtun beinist að, kost á að skýra málið fyrir umboðsmanni áður en hann lýkur málinu með álitsgerð skv. b-lið 2. mgr. 10. gr.``

Ég vildi gera að uppistöðu í máli mínu það sem ekki var sagt en ýjað aðeins að, það eru svör frá því stjórnvaldi sem umboðsmaður beinir máli sínu til bréflega eins og kemur fram í lögunum.

Ég fullyrði að inn í þessi lög vanti ákvæði um tímafrest stjórnvalda til að skila umboðsmanni greinargerð við þeim athugasemdum, ábendingum eða umkvörtunum sem umboðsmaður sendir viðkomandi stjórnvaldi. Ég veit að það hefur dregist á langinn og vildi þess vegna koma með þá fyrirspurn til hv. þm. sem flutti framsögu um skýrslu umboðsmanns, hvort þetta mál hafi borið á góma þá rætt var við umboðsmanninn, hvort ekki sé ástæða til þess að bæta um betur og gera líka kröfu á hendur þeim aðilum og stjórnvöldum sem umboðsmaður Alþingis beinir máli sínu að eða bréfum.